24.05.1941
Neðri deild: 66. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 427 í B-deild Alþingistíðinda. (870)

7. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Sveinbjörn Högnason:

Mér þykir það mjög miður, að hæstv. forseti skyldi ekki sjá sér fært að taka málið af dagskrá til athugunar, því að það er ekki eins einfalt og virðist í fljótu bragði, eins og bezt sést af því, að hæstv. fjmrh., svo glöggur maður, skuli ekki vera búinn að átta sig á, hvað felst í brtt. á þskj. 620. Breytingin er þar ekki aðeins sú, að taka skuli afgang bifreiðaskattsins til ákveðinna brúargerða, heldur sú að fella niður brúasjóð og ákvæðin um, að afgangsféð, sem verða kann, renni til Suðurlandsbrautar, og það má vera; að enn fleira í frv. raskist, ef brtt. er samþ. Það má vel vera, að ákvæði brtt. um þessar brýr mættu standa í l. Á hinu er enginn vafi, að þeir, sem stóðu að stofnun brúasjóðs, höfðu hug á miklu fleiri brúm. Ég skil ekki, að hv. Alþingi geti fellt niður brúasjóð, og fyrir mitt leyti er ég alveg sannfærður um, að væri brúasjóður afnuminn, Suðurlandsbraut felld úr þessum l. og ekkert um það ákveðið í fjárl., hvert þessar tekjur ættu að renna, yrðu mjög margir þm. algerlega móti því að afgreiða málið þannig. Ég tel ákaflega líklegt, að fjhn. vildi þá ekki leggja hendur að málinu. Nú þegar búið er af hálfu hæstv. fjmrh. að rifta því samkomulagi, sem orðið var um afgreiðslu málsins milli hans og n., sé ég ekki annað en nauðsyn sé að taka allt málið til nýrrar yfirvegunar, og ef honum leikur nokkur hugur á að fá málið gegnum þingið, ætti hann að fallast á þá aðferð. Ég vil því enn halda fast fram þeirri ósk minni til hæstv. forseta, að hann fresti afgreiðslu málsins og taki það af dagskrá.