24.05.1941
Neðri deild: 66. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 428 í B-deild Alþingistíðinda. (873)

7. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Eiríkur Einarsson:

Ég mundi enga brtt. hafa gert, ef málinu væri ekki svo háttað, að hv. fjhn. hefur endurskoðað frv. og gert á því gagngerar breytingar. Það vekur mig .og e. t. v. fleiri til umhugsunar um, hvort þessar sérstöku tillögur séu sanngjarnar eða önnur lausn væri heppilegri. Sú varð niðurstaða mín, að þessu bæri að breyta á annan veg. Um það vildi ég fara fáeinum orðum, hvers vegna ég tel, að veita eigi fé til þeirra tveggja brúa, sem nefndar eru í till. minni á þskj. 620. Brúalögin frá 1932 gera ráð fyrir þeim báðum, og af afspurn virðist mér Jökulsárbrúin muni vera mjög þörf. En hjá Iðu rennur Hvítá milli mjög fjölbyggðra sveita og hindrar samgöngur milli þeirra. Þar þurfa hátt á annað hundrað búendur að vitja læknis yfir ána að Laugarási, og meðan brúna vantar, verða þeir að bíða hinnar seinfæru ferju, og sjá menn, að oft getur mikið óhagræði af því stafað. Þótt ekki væri litið á hina almennu sívaxandi samgönguþörf, eru ástæður fyrir brúnni brýnar mjög.

Meðan ekki er búið að fullnægja ályktun síðasta Alþingis um rannsókn vegastæðis austur yfir fjall, er meiri ástæða til að fullyrða það, að ekki sé hægt að taka afstöðu til svokallaðrar Suðurlandsbrautar um Krýsuvík en hitt, að ekki sé hægt að átta sig á efni og nauðsyn till. minnar.