24.02.1941
Neðri deild: 6. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 435 í B-deild Alþingistíðinda. (894)

21. mál, húsaleiga

Félmrh. (Stefán Jóh. Stefánsson) :

Það kom í ljós nú í haust, um mánaðamótin sept.–okt., að mikill skortur mundi verða á húsnæði, einkum í Reykjavík. Það þótti líka verða vart við, að víða ætti að breyta húsum til að taka þau til annarrar notkunar en íbúðar og einnig, að húsnæði væru látin standa auð með það fyrir augum að framkvæma sölu á húseigninni. Út af þessu voru gefin út bráðabirgðal. þau, sem hér liggja nú fyrir til staðfestingar, þar sem mönnum er gert óheimilt að breyta íbúðarhúsum þannig, að þau verði notuð til einhvers annars, t. d. verzlunar. Enn fremur er það, að ef menn halda íbúðum auðum, þá er húsaleigun. í Reykjavík eða fasteignan. utan Reykjavíkur heimilt að ráðstafa húsnæðinu. L. svipuð þessum voru sett á síðustu stríðstímum, því að þá ríkti svipað eða sama ástand og nú. Húsnæðisvandræðin jukust því meir sem lengra kom fram á stríðstímann. Nú eru því miður litlar líkur til, að bygging nýrra húsa hefjist, og er því mikil nauðsyn á að nota á sem réttastan og eðlilegastan hátt það húsnæði, sem til er.

Ég þarf ekki að láta fleiri orð fylgja þessu frv., en legg til, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til allshn.