13.05.1941
Neðri deild: 58. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 440 í B-deild Alþingistíðinda. (900)

21. mál, húsaleiga

Ísleifur Högnason:

Nál. á þskj. 456 er mjög nýtt í d. Ég held, að það hafi verið afgr. í morgun, og hefur mér því ekki gefizt tími til að athuga það nákvæmlega, en þó sé ég á þessum brtt., að ég get ekki fellt mig við þær sumar.

Í a-lið segir, að heimilt sé að hækka eftir mati leigu eftir húsnæði, sem af sérstökum ástæðum hafi verið leigt lægra en sambærilegt húsnæði á þeim stað. Eftir þessu er leigusala heimilt að krefjast þeir rar hæstu leigu, sem borguð er á þeim stað fyrir sambærilegt húsnæði.

Nú ber að gæta þess, að leigjendur eru eins og aðrir menn, sem eiga viðskipti við aðra, mjög mismunandi hagsýnir og verða að ganga að mjög mismunandi kjörum, þegar þeir taka húsnæði. Þetta ákvæði l. gefur húseigendum mjög góð tækifæri að spenna leiguna úr hófi fram. Sem sé, við fljótlega yfirskoðun skilst mér þetta alveg óhæft ákvæði í l. Í öðru lagi er síðasta málsgr. sömu greinar mjög svo óheppileg, þar sem ætlazt er til, að l. taki ekki til þeirra, sem leigja einhleypum út frá íbúð sinni. Ef það er meiningin að skattleggja einhleypa menn umfram fjölskyldumenn sérstaklega, þá er réttara að gera það í einum sérstökum lögum. Þá ber og þess að gæta, að Reykjavík hefur þau forréttindi umfram aðra bæi, að þar eru allir æðstu skólarnir, og efnalitlir nemendur, sem verða að sækja menntun sína hingað, verða að leigja sér herbergi, en fyrir þá er engin vernd í l. þessum. Ég ætla hér með að beina þessu til þess eina manns í hv. allshn., sem hér er inni, að taka þetta atriði til athugunar fyrir 3. umr.

Húsnæðiseklan er nú orðin svo mikil, að altítt er að lesa í auglýsingum dagblaðanna, að fram eru boðnar fjárhæðir, ef einhver geti útvegað herbergi einn eða tvo mánuði. Vitanlega er það að fara í kringum þessi húsnæðislög, ef það á að viðgangast að bjóða nokkurs konar mútur til að ná í húsnæði. Enginn vafi er á því, að á næsta hausti verður þetta húsnæðisspursmál mikið vandamál. Og ef bæjarstj. tekst ekki að útrýma Bretum úr miklu af því húsnæði, sem þeir hafa nú, þá eru fyrirsjáanleg hreinustu vandræði. Ég vil líka benda á, að vegna þess að útlit er fyrir, að nýbyggingum fækki — kannske ekki frá síðasta sumri, en þá var mjög lítið byggt, — og vegna eðlilegrar fólksfjölgunar, enn fremur vegna þess, að Bretavinnan dregur fjölda fólks hingað úr sveitinni, þá hljóta húsnæðisvandræðin að leiða af sér aukna sýkingarhættu. Þess vegna er ekki nóg að setja húsaleigulög sem þessi. Alþingi ber að leysa málið þannig, að hlutast til um, að íbúðarhús verði nú þegar byggð í stórum stíl af hálfu þess opinbera. Önnur lausn á málinu er ekki sjáanleg eins og sakir standa.