12.05.1941
Neðri deild: 57. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 455 í B-deild Alþingistíðinda. (943)

134. mál, eyðing svartbaks

Forsrh. (Hermann Jónasson) :

Ég vil alvarlega vara hv. þd. við að falla frá því, að eitrað sé fyrir svartbak. Frv. þetta er mjög vandlega undirbúið, og er það álit manns, sem hefur rannsakað málið og er því gagnkunnugur sem fræðimaður og sem maður, sem hefur haft með umhirðu æðarvarps að gera, að þýðingarlaust sé að reyna að útrýma svartbak án þessarar aðferðar. Ég býst við, að hv. n. hafi kynnt sér álitsgerð þá um tjón af svartbaki í varplöndum, sem fyrir liggur. Munu fáir hafa látið sér til hugar koma, að tjónið væri svo mikið sem þar kemur fram. Er það jafnvel svo, að af þeim 60–70 hundraðshlutum af eggjum, sem svartbakurinn skilur eftir í varplöndunum, hirðir hann síðar jafnvel enn þá stærri hundraðshluta, með því að éta ungana, sem koma úr þeim. Ég hef rætt þetta mál við varpeigendur, og þeir telja yfirleitt allt gagnslaust annað en eitrun, enda er auðvelt að koma henni við. Væri það líka afturför frá núgildandi l., þar sem eitrun er leyfð, ef hún væri nú afnumin. Ég veit til þess, að í einni sýslu að minnsta kosti, Dalasýslu, er búið að ganga frá reglugerð um eitrun. Varpeigendur þar vita, að allar aðrar aðferðir eru þýðingarlausar. Ég mælist því til þess, að þetta frv. hljóti samþykki og fljóta afgreiðslu, án þess að því verði breytt í verulegum atriðum. Hygg ég, að ég mæli hér fyrir munn allrar stj.