28.05.1941
Efri deild: 70. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 457 í B-deild Alþingistíðinda. (955)

134. mál, eyðing svartbaks

Forsrh. (Hermann Jónasson) :

Þetta frv. er, að ég hygg, bezt undirbúið af öllum frv., sem lögð hafa verið fyrir þetta þing, enda hefur verið eytt í það meiri tíma en nokkurt annað frv., og því finnst mér ekki viðeigandi að afgreiða það með dagskrá. Viðureignin við svartbakinn og það tjón, sem hann hefur gert í varplöndum, er saga um lítil samtök og skeytingarleysi. Um skeið var þó um samtök að ræða á Vesturlandi, fyrir forgöngu manns þar, að eyða þessum vargfugli, og eru þau samtök ekki ólík því, sem um ræðir hér í þessu frv. Varpeigendur lögðu fram fé til að halda við þessum samtökum, og þetta hélzt alllangan tíma, en svo dofnaði yfir því, og nú er svo komið, að svartbakurinn er að eyða æðarvarpi um gervallt landið. Ýmsar aðrar ástæður eru þó fyrir hendi; sem gera að verkum, að varpið er nú minna en áður, t. d. eru hlunnindin ekki eins mikils virði í samanburði við það, sem þau voru, þegar litið er á aðrar afurðir, og því ekki eins um varpið hugsað, en þetta er þó lítill þáttur. Einnig voru svartbaksegg hirt áður fyrr, meðan þrengra var í búi, en það er nú að mestu úr sögunni, því eins og kunnugt er, þá eru varplönd svartbaksins á heiðum uppi, allfjarri mannabyggðum, og talsverð fyrirhöfn að afla þeirra. En, eins og ég sagði áður, þá hefur þetta samtakaleysi um eyðingu þessa vargfugls orðið þess valdandi, að hann er nú að eyða öllu varpi á landinu. Skýrslur sanna, að svartbakurinn eyðir 50–60% af eggjum, og enn þá er ekki hægt að segja, hve mikið hann drepur af ungum, en það mun vera mikið.

Ég hef ferðazt víða um Vesturland á síðustu árum, og hefur leið mín þá bæði legið um Gilsfjörð og einnig víðsvegar um Strandasýslu, og hef ég verið sjónarvottur að, hvernig aðfarir svartbaksins eru gagnvart æðarungum. Einu sinni lá leið mín um Gilsfjörð, ásamt fleiri mönnum, það var að morgni dags um sólaruppkomu, þá sáum við æðar fugl og svartbak þar rétt við veginn. Æðarfuglinn hafði sett sig í varnarstöðu, en vargfuglinn var áleitinn, og að lokum flaug æðarfuglinn upp. Kom þá í ljós, að hann hafði setið á tveimur ungum. Svartbakurinn var ekki lengi að hirða þessa unga, þegar æðarfuglinn var farinn, og var fljótur að éta þá. Ég hef talað við mann, sem hafði skotið svartbak og fundið í maga hans 11 æðarunga.

Það er verið að tala um, að þessum fugli sé sýnt mannúðarleysi með ákvæði frv. um eitrun. Ég er ekki að draga úr, að þeim sé sýnd mannúð, enda er það gert í frv., — hv. n. hefur bara misskilið það. Eitrunin er ekki tilraun til að eyða svartbak, heldur er þetta einasta leiðin til að eyða honum. Enda þótt menn reyndu að ná eggjunum, þá mun samt ekki hægt að útrýma honum með því; einnig er illt að fá færi til að skjóta hann, því hann er styggur. Þess vegna er þetta engin tilraun, heldur eina leiðin, sem hægt er að fara, þegar það sýnir sig, að hlunnindin eru að ganga til þurrðar og varpeigendur hafa ekki samtök sín á milli, þá verður þjóðfélagið að grípa inn í.

Ef ein sýsla tekur sig saman um að eyða svartbak, þá hefur það ekki mikla þýðingu, þegar varpeigendur í næstu sýslu hugsa ekkert um það. Þó að ráðstafanir séu gerðar í Dalasýslu einni þá eiga svartbakar annars staðar á Vestfjörðum mjög hægt með að renna sér yfir Dalasýslu, ef ekkert er gert í öðrum sýslum.

Hv. n. telur, að ekki beri að setja strangar refsingar fyrir vanhirðu í þessum efnum. Ef ekki hefur þýðingu, hvort sektirnar eru l0 eða 100 kr., þá hefur hv. Alþ. verið á skakkri leið með refsilöggjöfina. Þetta er svona hvað eftir öðru hjá hv. n., því allir, sem líta á mál með sanngirni, sjá, að ekki stendur á sama, hvort refsingar eru smáar eða stórar. Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp nokkra kafla úr bréfi frá þeim manni, sem mest hefur undirbúið þetta frv., dr. Finni Guðmundssyni. Hv. n. segist vera á móti eitrun vegna bréfs frá Náttúrufræðifélaginu. Í þessu bréfi dr. Finns eru ummæli hv. n. hrakin. Í bréfinu segir svo: „Í sambandi við notkun n. á bréfi þessu skal þess getið, að 13. maí síðastl. kom stjórn Náttúrufræðifélagsins saman á fund til þess að ræða um það, hvaða afstöðu hún ætti að taka til frv. þess um eyðingu svartbaks, sem nú liggur fyrir Alþ. Á fundinum var gerð svo hljóðandi samþykkt : „Vegna upplýsinga frá sérfræðingum (sbr. fylgirit frv. eftir F.G.) sér stjórnin sér ekki fært að leggja á móti því, að frv. verði að lögum.“ Vegna breytts viðhorfs og nýrra gagna í málinu hefur stjórn Náttúrufræðifélagsins því fallið frá fyrri skoðun sinni, en þar með er líka gildi bréfsins frá 1935 úr sögunni“.

Það gefur að skilja, að Náttúrufræðifélagið er ekki mótfallið því, að eitur sé notað, þegar vitað er um hina brýnu nauðsyn. Þessa ályktun hefur hv. n. ekki verið kunnugt um, því hún kom ekki .með hana. Svo eru önnur rök hv. n: gegn eitruninni þau, að aðferðin sé ómannúðleg. Þessu er svarað þannig í bréfinu: „Eyðing vargfugls með stryknin er vafalaust mannúðlegri drápsaðferð en fugladráp með haglabyssum.“ Þetta getur hv. n. ekkert haft við að athuga, því það er vitað, að svartbakur er skotharður fugl og styggur, og ef ekki tekst að drepa hann með einu skoti, þá flýgur hann á brott og kvelst lengi. Þetta er sýnilega mun ómannúðlegri aðferð. Dr. Finnur segir síðan, að eitrið sé mjög banvænt, og telur upp eiturmagn, sem nægir til að drepa ýmsar tegundir fugla og dýra. Enn fremur segir hann: „Þurfi að lóga stórum dýrum í dýragörðum (t. d. fílum), þá er það jafnan gert með stryknin, og mundi sú aðferð varla hafa verið valin, ef hún væri talin ómannúðleg“. Síðan sýnir hann fram á, hvernig eitrið verki, dýrið fái stífkrampa og deyi mjög fljótt, oftast innan 2–3 mínútna.

Hin röksemd hv. n. er sú, að aðferðin sé hættuleg öðrum dýrum og jafnvel mönnum. Þessu er svarað þannig í bréfinu: „Hér á landi hefur áratugum saman verið eitrað fyrir refi um allt land, og enn fremur hefur oft verið eitrað fyrir svartbak og annan fuglvarg. Mér er ekki kunnugt um, að slys hafi nokkurn tíma af þessu hlotizt.“ (SÁÓ: Ekki það?) Því getur hv. þm. skýrt frá, ef hann þekkir einhver dæmi slíks. — Enn fremur segir: „Mér er kunnugt um eina varpjörð, þar sem árlega hefur verið eitrað fyrir svartbak í nesi við sjó, þar sem talsverð umferð hefur verið af búpeningi og hundum, en aldrei hefur þar hlotizt neitt slys af því.“ Það er tekið fram í áliti með þessu frv., að rétt sé að taka fugla, sem drepizt hafa af eitrinu, og grafa þá, og af þessu dregur hv. n. þá ályktun, að þessir fuglar séu eitraðir. Í þessu sambandi segir dr. Finnur í bréfinu: „ — að kjöt af dýrum, sem drepizt hafa af stryknin, hefur reynzt algerlega óskaðlegt til neyzlu (sbr. E. Fröhner: Lehrbuch der Toxikologie, Stuttgart 1919). Þrátt fyrir það hef ég í fylgiriti frv. gert ráð fyrir, að fuglar, sem drepizt hafa á eitri, verði ekki hirtir, og helzt ekki snertir, en grafnir þar, sem þeir finnast. — En þetta er aðeins varúðarráðstöfun til að tryggja til hins ýtrasta, að slys geti ekki hlotizt af eitruninni.“

Þetta hefur hv. n. misskilið og bendir á það sem beina hættu. — Að lokum kemst dr. Finnur svo að orði : „. . . . að eitrun er eina leiðin, sem varpbændur hafa til að verjast hinni sívaxandi ásókn svartbaksins. Skot eru bönnuð í eða við varplöndin, enda gæti það styggt fuglinn frá og valdið truflun í vörpunum, einkum framan af varptímanum.“ Af þessu er auðsætt, að ef að einhverju gagni má koma, þá er eitrun eina aðferðin, og ég fæ ekki betur séð en . einmitt nú, þegar vitað er um hið mikla tjón, sem svartbakurinn gerir, geri Alþ. skyldu sína í því að koma í veg fyrir frekara tjón af völdum þessa vargfugls. Menn geta ekki treyst á, að um þetta náist almenn samtök. Þess vegna á tvímælalaust að samþ. þetta frv., því það er svo vel undirbúið, og mér finnst óþarfi fyrir hv. n. að ganga í þessa gildru, sem ég álít, að hún hafi gengið í með þessari dagskrá sinni.