04.06.1941
Efri deild: 71. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 477 í B-deild Alþingistíðinda. (965)

134. mál, eyðing svartbaks

Páll Zóphóníasson:

Ég er ekki með frv. því, sem hér liggur fyrir, vegna þess að mér finnst það ekki vera byggt upp á nógu traustum grundvelli. Þessu frv. er ætlað að styðja að eyðingu svartbaks, en ég vildi láta það styðja að eyðingu allra vargfugla í varplöndum. Fyrir 3 árum var samþ. á Alþ. að láta endurskoða öll friðunarlög fyrir fugla hér á landi, en hvað, þessu máli líður, veit ég ekki. Var Bjarna heitnum Sæmundssyni fengin sérstaklega þessi endurskoðun í hendur, en að honum látnum, hefur einhver annar haft þetta verk með höndum. Mér finnst nú þessi endurskoðun hafa dregizt nokkuð lengi, og hefði hún fyrst og fremst átt að liggja til grundvallar þessu frv.

Ég legg ekkert upp úr eitrunarhættunni og ekkert upp úr mannúðinni í röksemdum þeirra, sem eru móti frv. Hvort er meira að sjá svartbak deyja með skammvinnum þjáningum eða sjá þá tvo eða þrjá saman vera að rekja garnir úr sama lambsskrokknum, meðan lambið er enn ódautt? Mér skilst, að eigi mannúðarsjónarmið að ráða nokkru, orki það ekki tvímælis, að kvalirnar, sem svartbakurinn veldur öðrum skepnum, séu margfaldar við þær, sem hann líður sjálfur, þótt hann deyi af eitri.

Ég er sammála hv. 5. landsk. þm. um það, að 1 kr. sé nægileg verðlaun fyrir hvern drepinn fugl, og mun fylgja brtt. um það, ef hann ber hana fram.

Ég geri hiklaust ráð fyrir, að frv. verði samþ. nú. En ég vildi, að hæstv. ríkisstj. sæi til þess, að málið yrði tekið upp aftur á næsta þingi á breiðari, grundvelli og næði til alls vargs, sem í varplönd sækir. Þess vil ég geta, að ey sú, sem Finnur Guðmundsson athugaði, hjá Bæ í Hrútafirði, er ekkert sérlega ásótt af svartbak. Þær ályktanir, sem hann gerði um eyðing af völdum svartbaksins, sýna ekki nema brot þeirrar eyðingar, sem hann veldur víða annars staðar, þar sem hann er meiri.