09.07.1941
Sameinað þing: 3. fundur, 57. löggjafarþing.
Sjá dálk 46 í D-deild Alþingistíðinda. (11)

1. mál, hervernd Íslands

Forsrh. (Hermann Jónasson):

Ég ætla ekki að svara þessari ræðu hjá hv. 1. landsk., því að í henni hafa ekki komið fram nein rök, sem ekki hefur verið svarað áður. En mig undrar, að slíkt skuli koma hér fram og vera talað af þm., þær getsakir, að ríkisstj. hafi verið þetta. kunnugt og fengið Alþ. frestað til að koma þessum samningi í kring. Öllum þm. og öllum meginþorra þjóðarinnar var kunnugt um þá yfirlýsingu forseta Bandaríkjanna, sem hann lét hafa eftir bæði í blöðum og útvarpi, að Bandaríkin teldu varnarlínu sína liggja fyrir austan Ísland. En um frekari ráðstafanir var mér alveg ókunnugt, þegar bréfið barst til ríkisstj. 24. júní, og kom það ríkisstj. algerlega á óvart, eins og öllum hv. þm. — Þessar getsakir, sem mig undrar, að nokkur þm. skuli leyfa sér að bera hér fram, eru því ósannar, og mun ég ekki frekar um þær ræða.

Um hitt atriðið, að þetta hafi verið birt í blöðum og útvarpi, er því til að svara, að einn þingmaður í Bandaríkjunum skýrði frá því, að sér væri kunnugt um, að herafli yrði sendur þaðan til Íslands. Þessi yfirlýsing var mjög vítt og talin ganga landráðum næst. En samt sem áður hefur þessi þingmaður sagt visvítandi rangt til um flutningana, til að firra flotann hættu af uppljóstruninni, þegar hann sagði, að herinn yrði fluttur fyrst 24. júlí. — Þetta gerði hann einnig til að firra sjálfan sig ákærum við að ljóstra þessu upp. — Það voru þessi tvö atriði, sem ég vildi leiðrétta í ræðu hv. þm. Ég tel svo ekki ástæðu til að hafa þetta lengra að sinni.