09.07.1941
Sameinað þing: 3. fundur, 57. löggjafarþing.
Sjá dálk 54 í D-deild Alþingistíðinda. (15)

1. mál, hervernd Íslands

*Brynjólfur Bjarnason:

Það voru aðeins nokkur orð út af ummælum í ræðu hæstv. forsrh.

Það er náttúrlega hægt að lýsa því yfir, að það sé ósatt, að hæstv. ríkisstj. hafi verið kunnugt um þetta mál löngu á undan því, að það varð öðrum heyrinkunnugt, og löngu áður en ríkisstj. hafði lýst yfir, að henni væri um það kunnugt. En ég er alveg viss um, að samningaumleitanir hafa farið fram milli Bandaríkjanna og íslenzku ríkisstj. um langt skeið, og hef fært rök fyrir því, sem hæstv. forsrh. veit, að verða tekin gild. Enda veit hæstv. ráðh., að á s.l. ári gaf Roosevelt þá yfirlýsingu, að Bandaríkin mundu láta sig skipta hervarnir Íslands. Og svo getur hver trúað því, sem vill, að hæstv. ríkisstj. hafi ekki verið um þetta kunnugt og um þetta ekki rætt við hana.

Það er misskilningur hjá hæstv. forsrh., að ég hafi látið það áður í ljós, að það hefði átt að gera það heyrinkunnugt, að Bandaríkjafloti væri á leiðinni hingað. Ég hef aldrei látið nein ummæli falla, sem hægt er að draga þessa ályktun af. Ég hélt því hins vegar fram, að hægt hefði verið að leggja þetta mál a.m.k. fyrir lokaðan þingmannafund áður en síðasta þingi lauk. Það sér líka hver maður, að það er fjarstæða, að Þjóðverjar hefðu þurft að vita, að Bandaríkjafloti væri á leið hingað, þó hv. þm. hefðu verið kallaðir saman á lokaðan fund í tæka tíð. Það var ekki einu sinni nauðsynlegt að skýra frá því, hvenær flotinn mundi koma, og þingið hefði þá ekki gert annað en fjalla um mál, sem var á dagskrá í öllum heiminum. Enda er það víst. að það hafa miklu fleiri menn vitað um þetta í Bandaríkjunum heldur en þm. eru hér á Íslandi.

En hæstv. forsrh. hefur ekki svarað þeirri spurningu, sem ég óskaði sérstaklega eftir að hann svaraði, en hún var um það, að hæstv. ríkisstj. hlutist til um það, að till. sú, sem við þm. Sósíalistafl. flytjum um ráðstafanir til að tryggja sjálfstæði Íslands að styrjöldinni lokinni og um stjórnmálasamband við Sovétlýðveldin, geti komið á dagskrá.