09.07.1941
Sameinað þing: 3. fundur, 57. löggjafarþing.
Sjá dálk 59 í D-deild Alþingistíðinda. (19)

1. mál, hervernd Íslands

*Gísli Sveinsson:

Ég tel, að ég þurfi ekki að orðlengja miklu frekar um þessi mál en ég gerði í ræðu minni í dag. Ég vildi þó láta þess getið í nokkrum sundurliðuðum atriðum, sem ég tel og verð að telja upplýst, að sé mergurinn málsins, alveg óháð því, hvaða afstöðu menn taka við atkvgr.

Það er þá fyrst, að ég verð að telja, eftir þeim upplýsingum, sem liggja fyrir og reyndar frá segja, að hafi frá öndverðu verið fyrir hendi og má kalla, að sé gefið, hvernig sem orðræður hafa fallið milli ríkisstj. og hins aðilans, að Bretar hefðu ekki látið þetta land hervarnalaust sjálfra sín vegna. Það kemur líka fram í því, sem nú er sagt, að Churchill, forsætisráðherra Breta, hafi lýst yfir, þar sem það var tilkynnt í fréttum í útvarpi nú í kvöld, sem eftir honum var haft, að Bretar mundu hafa herlið hér áfram að einhverju leyti, enda þótt Bandaríkjaher kæmi í landið, og þetta er ósköp skiljanlegt, því að það er vitanlegt og yfirlýst af hálfu Breta, að þeir verði að hafa her í þessu landi til einhverra varna. Það mun einnig vera svo, að herra Churchill mun hafa látið svo um mælt, að brezka herliðið hafi setið hér í landinu með samþykki Íslendinga. Ég tel það nú ofmælt. Eins mun hann hafa orðað það svo, eins og ríkisstj. vill eðlilega láta orða það, að hinn ameríski her sé hingað kominn eftir tilmælum ríkisstj. íslenzku.

Það hefur komið fram hjá einum þm., hv. 3. þm. Reykv., að það sé ljóst af þeim gögnum, sem fyrir liggi, að hæstv. ríkisstj. hafi gert þetta af fúsum og frjálsum vilja. Ég tel það ofmælt; ég tel, að hitt muni vera nær hinu rétta, sem ég kallaði í minni ræðu, að ríkisstj. muni hafa þótzt til neydd að gera þetta samkomulag. Hitt læt ég ósagt, hvernig rökin hafa annars skapazt um þetta. En það er ósköp eðlilegt að álykta sein svo, þó að menn vissu það ekki þá, sem allir þm. nú vita og er öllum ljóst, að engin ábyrg ríkisstj. gerir slíkt samkomulag af fúsum og frjálsum vilja, sé um hlutlaust land að ræða.

Sami hv. þm. og einnig hv. þm. Borgf. töldu, og tel ég það rétt vera, að árásarhættan er ekki minni í þessu landi, heldur jafnvel meiri, eftir þessa breyt. Hitt er vitanlegt, að allt er þannig, að engu verður um þokað. En þó að verið sé að spá, þá er vitanlegt, að reynslan ein sker úr.

Hæstv. ríkisstj. befur borið það fyrir sig, að henni þætti svo mikið við liggja, að ekki stoðaði að setja sig á móti óskum þess hernaðarlega aðila, og þess vegna hafi samkomulagið verið gert. En í sambandi við þetta vil ég leyfa mér að spyrja hæstv. forsrh., hvort hann mundi gera gefið yfirlýsingu um það, að þetta samkomulag breyti engu um hlutleysisframkomu gagnvart hinum hernaðaraðilanum, hvað sem líður þeirri frávikningu, sem nú hefur átt sér stað.

Enn er það, að ég tel, að ekki megi láta koma fram, hvorki utan þings né innan, eins og við höfum neinn himin höndum tekið við þessa samninga. Ég tel það alveg fráleitt, en það er nokkurt tilefni gefið til þess í þessum umr., einkanlega með ræðu hæstv. atvmrh., en honum er lagið að vera áhugamaður í sínum málflutningi. Ég tel ekki rétt að láta það koma bert fram, sem hann ekki heldur ætlaði, að það séu nein fagnaðartíðindi að gerast með þessum samningum, enda þótt talsverður fengur sé í aðra hönd, ef slíkur samningur er gerður eins og hæstv. ríkisstj. þóttist til neydd að gera. Og því síður tel ég það rétt, eins og kom fram í ræðu hæstv. utrmrh., að þetta samkomulag sé allt okkur í hag, því að við verðum fyrst og fremst að líta á, hvernig við getum séð okkar hag borgið, þrátt fyrir það, að þetta sé gert með aðra hagsmuni fyrir augum.

Nú er tillit til þess að taka, sem ég tel, að beri að minnast á hér og hefur verið gert í þessum umr., að það er ekki hægt lengur að allra dómi að telja Bandaríkin hlutlausa þjóð. Það eru einmitt mjög skiptar skoðanir, og hefur heyrzt eftir áreiðanlegum heimildum, að Bandaríkjamenn sjálfir telji, að Bandaríkin væru raunverulega orðin hernaðaraðili. Það er rétt, að þau hafa ekki sagt Þýzkalandi eða möndulveldunum stríð á hendur, en hitt vita allir, að þau hafa nú í marga mánuði vísvitandi og yfirlýst verið að aðstoða annan hernaðaraðilann með ráðum og dáð.

Og þá er það loks, sem ég vil, að komi fram og er sjálfsagt, að menn athugi, hversu mikið sem menn leggja upp úr því eða ekki, — sumir leggja mikið upp úr því, en aðrir minna, og allir verðum við að leggja talsvert mikið upp úr samningum og loforðum, en öll loforð þess aðila, sem við höfum nú gert samkomulag við, eru háð sömu takmörkunum og loforð yfirleitt eru, og þetta eru hér um bil sömu loforð og Bretar hafa áður skjallega gefið ríkisstj. Við getum ekki treyst loforðum lengra en ástæða er til, enda má segja, að við hvert loforð er nokkur varnagli sleginn, og það er ekki óeðlilegt, því að öll loforð byggjast á því, að möguleikar séu fyrir hendi til efnda. Við getum sagt það sama við hvert loforð, að það verður gert, ef ástæður leyfa. Meira er ekki sagt, en það er mikið. En það ber að líta svo raunverulega á þetta mál, að menn telji ekki, að ábyrgð sé á, að framkvæmdir allar séu slíkar sem loforð eru.

Eftir að hafa tekið þetta fram, mun ég á sínum tíma láta við það lenda að greiða atkv. eftir því, sem ég tel bezt henta, og ekki hafa neinn formála fyrir minni atkvgr., nema þá stutta grg. um, á hverju mitt atkv. byggist, þegar að því kemur.