09.07.1941
Sameinað þing: 3. fundur, 57. löggjafarþing.
Sjá dálk 66 í D-deild Alþingistíðinda. (22)

1. mál, hervernd Íslands

*Sigurður E. Hlíðar:

Herra forseti ! Ég skal ekki þreyta hv. Alþ. á löngu máli, en mig langar til að bera fram fyrirspurnir til hæstv. ríkisstj. Fyrst er spurning viðvíkjandi orðsendingu Bandaríkjaforseta til forsætisráðherra Íslands. Um leið og forsetinn lýsir ánægju sinni yfir því, að hann geti gengið að skilyrðum þeim, sem íslenzka ríkisstj. setur, meðal annars fyrsta skilyrðinu, að Bandaríkin hverfi á burt með allan herafla sinn undireins og núverandi ófriði sé lokið, kemur hann svo síðar í orðsendingunni með sinn skilning á þessu. Í orðsendingunni stendur (á 7. bls. í þskj. því, sem hér liggur fyrir): „.... og enn fremur með þeim skilningi, að strax og núverandi hættuástandi í milliríkjaviðskiptum er lokið, skuli allur slíkur herafli og sjóher látinn hverfa á brott þaðan, svo að íslenzka þjóðin og ríkisstj. hennar ráði algerlega yfir sínu eigin landi.“

Hvernig ber að skilja þetta? Er hér verið að draga úr því skilyrði íslenzku stj., að þeir skuli hverfa burt strax og ófriðnum er lokið? Er þetta orð, „hættuástand“, ekki allteygjanlegt? Og á þá Bandaríkjaforseti að dæma um það, hvenær þessu hættuástandi er lokið ? Getur það ekki verið, að því teljist ekki lokið fyrr en löngu eftir að styrjöldinni linnir, eða er þetta fyrirheit um það, að þeir ætli aldrei að fara aftur? Ég vænti þess, að hæstv. ríkisstj. svari þessari fyrirspurn minni, áður en ég greiði atkv.

Svo vil ég spyrja, hvað eigi að gera við öll hervirkin hér. Á að gefa okkur flugvellina og herskipakvíarnar í Hvalfirði? Þetta er ekki lítið atriði fyrir mig að vita. Ég var svo mikið barn, að ég fór að halda, að þeir mundu aldrei fara, er ég sá þá byrja á slíkum mannvirkjum hér, en ef til vill getur hæstv. ríkisstj. breytt þeirri skoðun minni.

Ég hjó eftir þeim orðum hæstv. ríkisstjóra í dag, að í þessu stórmáli ætti hver þm. að fara eftir sannfæringu sinni, og hafa þessi orð verið að vefjast fyrir mér siðan. Ég hef spurt sjálfan mig, hvernig ég eigi að samræma það tvennt að vera með málinu og vernda sannfæringu mína, því að ég vildi sízt verða málinu að fótakefli. Ég er svo mikill „idealisti“, að ég hef viljað halda sem mest í hlutleysið. Við töldum í fyrra, að við gætum ekki annað en mótmælt her námi Breta. Nú fer annað stórveldi fram á hið sama og Bretar í fyrra, og nú ætlum við að samþykkja tilmælin. Hér gegnir að vísu nokkuð öðru máli. Sumir benda á það, að Bandaríkin séu ekki hernaðaraðili. Það er rétt, en margt bendir til, að þau verði það bráðlega, og þá ekki sízt eftir að þau hafa náð fótfestu á Íslandi. Annars eru Bandaríkin svo bundin öðrum hernaðaraðilanum, að það kemur í líkan stað niður og bein styrjaldarþátttaka þeirra. Bandaríkjamenn hafa lýst yfir því, að þeir ætli að styðja Breta með öllum ráðum, og þeir hafa sýnt, að þeim er fullkomin alvara.

Þó að ég sé „ídealisti“ og vilji lifa í friði við allar þjóðir, neyðist ég líklega til að vera raunsæismaður í þessu máli og beygja af. Mun ekki verða komizt hjá að gera þennan samning við Bandaríkin, því að hnífurinn er á barka okkar. Þessi ríki hafa ráð okkar allt í hendi sér og geta bannað alla flutninga til landsins, þau geta komið í veg fyrir það, að við getum flutt einn fiskugga úr landi, og stefnt þannig fjárhag okkar og lífi í hættu. Ég sé því ekki, að komizt verði hjá að samþ. þetta og mun því ekki greiða atkv. á móti þessu, þó að ég héldi í fyrstu, að ég mundi gera það, og getur meira að segja verið, að ég greiði beinlínis atkv. með málinu, þó að ég geri það nauðugur.