09.07.1941
Sameinað þing: 3. fundur, 57. löggjafarþing.
Sjá dálk 71 í D-deild Alþingistíðinda. (24)

1. mál, hervernd Íslands

*Steingrímur Steinþórsson:

Alþingi hefur verið kvatt saman til þess eins að segja til um það, hvort sú ráðstöfun ríkisstj., að fela Bandaríkjunum vernd Íslands á meðan þessi heimsstyrjöld stendur yfir, sé í samræmi við vilja þings og; þjóðar.

Ég hafði kvatt mér hljóðs fyrir nokkru síðan hér í kvöld, og þá meðal annars vegna þess, að mér virðast ummæli þeirra hv. þm., sem töluðu hér lengi í kvöld, vera þannig, að þau samrýmist ekki mínum skoðunum í þessu efni, en Ég skal strax játa, að skoðanir hv. þm. V.- Ísf., sem nú hefur nýlega talað, þær falla svo í samræmi við það, sem ég hefði viljað segja, að ég get styrkt mitt mál með þeim.

Ég er ekki í nokkrum vafa um, að sú ákvörðun, sem ríkisstj. hefur tekið í þessu vandamáli, er rétt, og ég er fyllilega ákveðinn í því að greiða þeirri till., sem hér liggur fyrir, atkv. Og það er af því, sem nú þegar hefur verið tekið fram, að ég sé ekki, að þessi svo nefnda hlutleysisvernd, sem svo margir hv. þm. hafa talað mjög um hér í kvöld, sé nokkurs virði eins og er komið nú.

Hæstv. forsrh. minnti á þetta atriði í ræðu sinni áðan og talaði þar um þá breytingu, sem hefði orðið á þessu frá því 1918 og til þessa tíma. En ég hygg, að við getum tekið miklu skemmri tíma en þennan til að athuga, hvaða breytingar hafa orðið á þessu frá okkar sjónarmiði.

Þegar við lögðum fram mótmæli gegn hertöku Breta, þegar þeir hertóku landið 10. maí í fyrra, þá gerðum við það að vissu leyti í trausti þess, að þessi gamla hlutleysisviðurkenning væri einhvers virði. En nú höfum við síðan séð, hvernig það er. Við vitum það, að hinn ófriðaraðilinn hefur myrt ísl. sjómenn í tugatali og lýst því yfir, að svæðið kringum Ísland væri hernaðarsvæði, og því er ekki um að villast, að við höfum þegar verið dregnir inn í þennan ófrið. Ég fyrir mitt leyti er því ekki í neinum vafa um, að þessir sterku aðilar munu taka ábyrgð á því, að aðrir ófriðaraðilar geti ekki hafið hernaðaraðgerðir hér á landi, og auk þess er meira öryggi skapað hér fyrir okkur. Mín lífsskoðun er þannig, að ég get ekki kosið mér vernd annarra ríkja en Bretlands og Bandaríkjanna, og því segi ég, að ég tel vernd Bandaríkjanna mikils virði í þessu sambandi, en þó aðeins af því, að það liggja þegar fyrir endurteknar yfirlýsingar frá stjórn Bretlands um, að sú yfirlýsing, sem gerð var í fyrra, að hún muni ábyrgjast sjálfstæði Íslands að ófriðnum loknum, sé enn í gildi, og nú hefur hætzt við, að Bandaríkin vilja ábyrgjast þetta sama.

Nú er komið svo, að Bandaríki N.- Ameríku ætla að taka að sér vernd Íslands. Ég met þessa þjóð mikils og er ekki í vafa um atkvæði mitt um að vera sammála þeirri stefnu, sem ríkisstjórnin hefur tekið í þessu mikilvæga máli. Ég tel engan efa á, að þessi þjóð standi við gefin loforð, og tel hag okkar vel borgið, eins og nú standa sakir.

Aftur á móti finnst mér ástæðulaust fyrir suma þm. að greiða atkv. gegn sannfæringu sinni, eins og komið hefur fram hjá sumum, t.d. hv. þm. Ak., því Alþ. getur, ef það vill, fellt þennan samning úr gildi. Hv. þm. Borgf. hélt hér langa ræðu í kvöld, án þess að ég gæti komizt að, hvaða skoðun hann hefði á málinu. Þó kom að lokum fram hjá honum sú skoðun, að enda þótt hann væri mótfallinn samningunum, þá mundi hann þó sætta sig við þá, ef hagstæðir verzlunarsamningar næðust og ef hægt yrði að selja Faxaflóasíld til Ameríku. — Að vísu er mikilsvert fyrir okkur að fá hagstæða verzlunarsamninga, en ég tel enga ástæðu til að blanda því saman við þetta mál, því það er alls ekki aðalatriðið í sjálfstæðismáli hverrar þjóðar, að markaður fáist fyrir síld eða eitthvað því um líkt. — Þess vegna kann ég því illa, þegar þessu tvennu er blandað saman.

Ég mun greiða atkv. með þessum samningi, því ég tel, að í honum felist aukið öryggi fyrir okkur, og að sjálfstæði okkar sé tryggt að ófriðnum loknum.

Svo mun ég ekki hafa þessi orð lengri, en er þakklátur hæstv. ríkisstjórn fyrir þá stefnu, sem hún hefur tekið.