09.07.1941
Sameinað þing: 3. fundur, 57. löggjafarþing.
Sjá dálk 74 í D-deild Alþingistíðinda. (27)

1. mál, hervernd Íslands

*Bergur Jónsson:

Eins og kunnugt er, þá voru borin fram mótmæli, þegar Bretar hertóku Ísland þ. 10. maí í fyrra, en áður höfðu komið fram tilmæli frá Bretum, hvort Íslendingar vildu leyfa hernaðaraðgerðir hér með vissum skilyrðum. Sagan mun á sínum tíma dæma um, hvort Íslendingar hafi gert rétt í fyrra að neita skil.yrðum, áður en Bretar tóku landið. En hvað um það, þá getum við ekki sagt neitt um örlög þessarar þjóðar, ef Bretar hefðu ekki hertekið landið. Enginn getur sagt um, hvort Þjóðverjar hefðu reynt að fara líkt með okkur og þeir fóru með Noreg, og ef þeir hefðu gert það, þá hefði brezki flotinn lokað Íslandi, — „blokkerað“ það. Við hefðum orðið að lifa við sult og seyru, og meira að segja getað búizt við vopnaviðskiptum þá. Nú hafa Bretar ver ið hér í rúmt ár, og það hefur nú sýnt sig, að hlutteysispólitík okkar var í engu virt, en innanlandsmálum hafa Bretar þó lítið skipt sér af. En á þessum tíma hefur gerzt annað. Ísland var lýst á ófriðarsvæðinu af Þjóðverjum. Siglingar hafa verið bannaðar og skipum tortímt.

Ég skal ekki dæma um, hvort skipum okkar hefði verið sökkt, ef Bretar hefðu ekki tekið landið. — Þó er það ekki ólíklegt, ef þau hefðu verið að sigla til Englands með mat. Þetta er spurning, sem ef til vill verður upplýst síðar. En aðstaða okkar Íslendinga í vor var sú, að annar ófriðaraðilinn hafði lýst Ísland á hernaðarsvæði. Hinn hafði tekið landið gegn mótmælum.

Nú liggur hér fyrir til umr. samningur íslenzku ríkisstj. við forseta Bandaríkjanna. Ég álít óverjandi annað en að stíga þetta skref og játa þeim tilmælum, sem farið er fram á. Í fyrsta lagi vegna þess, að ég tel óhætt að treysta Bandaríkjunum, og í öðru lagi vegna þess, að herliðs þess, sem er á Íslandi, mun vera þörf annars staðar. Ég tel, að okkur sé ekki hættulaust að vera án verndar erlends herveldis.

Þegar menn eru að dæma um aðgerðir ríkisstj. í þessu máli, þá verða menn að taka tillit til afstöðu hennar þ. 24. júní, viku eftir að Alþingi var slitið. Þá sendi brezki sendiherrann bréf til ríkisstj., og svars er óskað svo fljótt, að ekki vinnst tími til að kveðja saman þing. Þess vegna varð ríkisstjórnin að taka einhverja afstöðu. Hver hefði orðið afleiðingin, ef við hefðum neitað að taka við vernd?

Í bréfi brezka sendiherrans er tekið fram, að þess herliðs, sem sé á Íslandi, sé annars staðar þörf. Ef til vill hefðu Bretar farið héðan og Bandaríkjamenn komið, eða kannske hér hefði orðið eitthvert millibil, m.ö.o., að landið hefði verið varnarlaust um skeið, svo hefðu Bandaríkin ef til vill komið hingað seinna sem stríðsaðili, og þá hefðum við ekki getað sett nein skilyrði.

Hin leiðin, að verða við tilmælunum, hefur þann kost, að við fengum yfirlýsingu frá forseta Bandaríkjanna um, að hvert skilyrði, sem við settum við hertökunni, yrði tekið til greina.

Þegar ég ber saman þessar tvær leiðir, sem ríkisstj. átti um að velja, verð ég að segja það ákveðið frá minni hálfu, með hliðsjón af því, að hæstv. ríkisstj. gat ekki kallað saman þing, en varð að taka ákvörðun sjálf, að ég get ekki annað séð en að það hafi verið skylda hennar að taka á sig þá ábyrgð að reyna heldur að koma fram þeim skilmálum, sem hún taldi fullnægjandi fyrir hertökuna. Hitt er annað mál, að um það geta orðið deilur manna á meðal, hvort hæstv. stj. hafi ekki átt að ganga lengra um þessi skilyrði. Efa ég þó, að þess hafi yfirleitt verið þörf; og greindar mundu skoðanir um það til dæmis, hvort átt hefði að heimta, að þetta væru allt „gútemplarar“ eða allir saman Norðurlandamenn og annað fleira, sem borið hefur hér á góma. Ég get ekki séð betur — og ég hef athugað þau skilyrði, sem hér hafa verið sett fram af hálfu hæstv. forsrh. fyrir hönd ríkisstj. og forseti Bandaríkjanna hefur gengið inn á, — heldur en að þar sé reynt að ganga svo vel frá skilyrðum frá okkar hálfu sem ýtrast var hægt að búast við, að Bandaríkin mundu vilja samþykkja. Hitt er allt annað mál, og skal ég ekkert um dæma, hvort vernd sú, sem við hljótum frá Bandaríkjamönnum, verður okkur styrkari og betri en sú, sem við höfum haft frá Bretum og kynnum að hafa framvegis frá þeim. Því verður tíminn einn að skera úr.

Samkvæmt þessu, sem ég hef sagt nú, tel ég, að hæstv. stj. hafi eingöngu gert það, sem hennar var skylda. Hún mátti búast við, að ýmsir menn hér á landi mundu leggja illa út það, sem hún gerði. Ég álít því, að hæstv. stjórn hafi sýnt þann kjark og hugrekki, sem henni bar að sýna.

Ég tók eftir hjá einum hv. þm., að hann taldi ósamræmi milli 1. liðs í svari forseta Bandaríkjanna og 1. málsgr. á bls. 7, þar sem á öðrum staðnum er talað um, að Bandaríkin skuldbindi sig til að hverfa burt af Íslandi með allan herafla sinn á landi, í lofti og á sjó, undireins og núverandi ófriði er lokið; en í orðsending forsetans segir: „strax og núverandi hættuástandi í milliríkjaviðskiptum er lokið, skuli allur slíkur herafli og sjóher látinn hverfa á brott þaðan, svo að íslenzka þjóðin og ríkisstjórn hennar ráði algerlega yfir sínu eigin landi.“ Ég sé ekki neina ástæðu til að gera sér neinar grillur út af þessu. Það segir sig sjálft, að ef um rangt orðalag er að ræða, þá er það af hálfu íslenzku ríkisstj., en ekki forsetans. Það er auðvitað, að ef við höfum vernd þessa veldis, þá verður að binda hana við það hættuástand, sem verndinni er beint gegn, en ekki við orðið „ófriður“, enda þótt þetta tvennt geti farið saman.