09.07.1941
Sameinað þing: 3. fundur, 57. löggjafarþing.
Sjá dálk 77 í D-deild Alþingistíðinda. (33)

1. mál, hervernd Íslands

Jón Pálmason:

Mér er mjög ógeðfellt að samþ. það, að erlendar hersveitir séu hér á landi, en vegna þess að ríkisstj. Íslands hefur þegar samþ. þetta, og vegna þess að ég tel Alþingi ekki hafa aðstöðu til að breyta þeirri ákvörðun án hættulegra afleiðinga, og vegna ýmissa upplýsinga, sem ég nú hef fengið á þingi og utan þess um það, hvað knúið hafi ríkisstj. til ákvörðunar sinnar, þá tel ég þó ekki fært annað en að fallast á það, sem orðið er, og segi því já.