09.07.1941
Sameinað þing: 3. fundur, 57. löggjafarþing.
Sjá dálk 78 í D-deild Alþingistíðinda. (41)

2. mál, sjálfstæði Íslands og stjórnmálasamband við Sovétlýðveldin

forseti (HG):

Áður en ég lýsi dagskrá lokið, vildi ég mega skýra frá því, að hér á fundinum hefur verið útbýtt tveimur till. til þál., á þskj. 2 og 3. Er hin fyrri borin fram af þremur hv. þm. og fjallar um ráðstafanir til að tryggja sjálfstæði Íslands að styrjöldinni lokinni og um stjórnmálasamband við Sovétlýðveldin. Hin síðari er um áfengismál, flutt af fjórum hv. þm. Nú verða þinglausnir á morgun og því sýnt, að þessi mál ljúkast ekki nema með fyllstu afbrigðum. Ætlun hæstv. ríkisstj. var sú, að ekki yrðu fleiri mál tekin fyrir en það, sem þegar er afgr. Hins vegar tel ég ekki rétt, án þess að leita vilja þingheims, að ákveða að taka ekki þessi mál til meðferðar nú. Mun ég því bera undir atkv. og hlíta vilja hv. þm. um það, hvort taka eigi till. þessar inn á dagskrá þessa fundar. Verði það samþ., verða umr. um þær ákveðnar nú og síðan haldinn fundur til að ræða till. Ef fellt verður hins vegar að taka till. inn á dagskrá nú, verða þær ekki teknar fyrir á þessu þingi, með því að þá er sýnt, að ekki er vilji til að sinna málunum. Ég mun fyrst leita afbrigða um till. á þskj. 2.