09.07.1941
Sameinað þing: 3. fundur, 57. löggjafarþing.
Sjá dálk 32 í D-deild Alþingistíðinda. (7)

1. mál, hervernd Íslands

*Gísli Sveinsson:

Það má segja, að það hafi komið flatt upp á þm. að verða nú að koma hingað til þess að taka ákvörðun um mikilsvarðandi mál skömmu eftir þingslit. Nú er ekki um það að sakast, því að hæstv. ríkisstj. mun vera á sama máli, og undir þeim kringumstæðum er ekki nema sjálfsagt að taka boðinu. Þess vegna erum vér nú mættir hér. Hitt er náttúrlega meira athugandi, að jafnframt og þó að sumu leyti kannske nokkru áður en þm. fengu þessi boð, var tilkynnt, að nú hefðu þegar verið gerðir eins konar samningar, sem kallaðir eru samkomulag um mál, sem nefnt er mikils varðandi og er að mínum dómi mest varðandi þeirra mála, sem legið hafa fyrir Alþingi í þessum greinum, síðan stríðið hófst. Það er að vísu mjög óviðkunnanlegt undir eðlilegum ástæðum, að svo sé, að Alþingi sé kallað saman til þess að samþykkja það, sem ríkisstj., hver sem hún er, hefur þegar afgert.

En svo geta ástæður legið til, að rök megi færa fyrir því, að óhjákvæmilegt hafi verið að hafa þessa aðferð. Hæstv. forsrh. hélt ræðu, sem alkunn er orðin, til skýringar þessu máli, eftir að hann, áður en Alþingi kom saman, gerði heyrinkunnugt, hvað hefði gerzt og hvað hefði verið samið um milli stj. f.h. Íslands annars vegar og forseta Bandaríkjanna hins vegar, en í ræðu ráðh. er, eins og hann komst að orði, gerð grein fyrir þessum ástæðum. Ég tel, að þær ástæður, sem þar vorn færðar fram, hafi að vissu leyti sitt gildi, en þær eru þó ekki fyrir nærri því alla hér á þingi, og engan veginn heldur utan þings, fullnægjandi. Má þar eflaust ýmsu við bæta, sem hæstv. stj. sér sér ef til vill fært að bæta við og rökstyðja betur þær ákvarðanir, sem teknar hafa verið.

Hins vegar er á það að líta, að svo getur borið til á slíkum tímum sem þessum, að ríkisstj. verði algerlega upp á sitt eindæmi að taka ákvarðanir, og er ekki heldur neitt við því að segja og alls ekki ástæða til að kalla saman Alþingi í hvert skipti, sem slíkt ber til. En sé um eitthvað alveg óvenjulegt að ræða, algerlega frábrugðið því, sem verið hefur, ef til vill eitthvað, sem fer allt aðra götu en þjóðin hefur við fulltrúa sína látið í ljós, að vera skyldi ákveðin aðferð mála og ákveðin tök á slíkum málefnum, og ef frá því er vikið, þá er spurningin: Er það nóg, er það gerlegt fyrir stjórnina, með einhverjum rökstuðningi þá, að taka slíkar ákvarðanir, áður en Alþingi kemur saman.

Það er því ekki það, sem í fyrsta lagi þarf að athuga, hvort Alþingi hefur verið kallað saman undir nokkuð venjulegu, en þó sérstöku tilliti til ástandsins, nokkuð venjulegum ástæðum eða undir venjulegum atvikum. En það er hitt, sem orkar meira, og ég verð að telja, og hæstv. ríkisstj. er það vafalaust sjálfri ljóst, að hér sé mjög svo vikið frá því, sem Alþingi hefur nú látið í ljós, að það vildi og stj. hefur verið alveg samþykk og mundi vilja algerlega það sama þann dag í dag.

Það hefur verið fært fram sem ástæða fyrir því samkomulagi, sem gert hefur verið, að af hálfu Breta, sem hafa setið hér og hafa hertekið þessa þjóð, sé viðhorfið nú svo breytt í stríðinu, að þeir verði nú að kalla héðan burt sitt setulið. Það er ekki okkar að rannsaka, hvernig á þessu stendur, en vitanlega höfum við leyfi til að segja það, sem við vitum bezt. Frá mínum bæjardyrum séð er það svo, að ég get ekki séð, í hverju þetta getur helzt legið og verið sem fullnægjandi rök til að breyta þannig til, en það er ekki okkar mál. Við vitum, að Bretar hafa fengið einn aðila með sér í stríðið, sem álitinn er mjög voldugur, sem sé Rússa, og okkur virðist því, að þeir ættu að standa betur að vígi en áður, einnig að því að hafa setulið hér, eins og þeir hafa talið sér mjög nauðsynlegt. Um það hefur mjög verið talað í lýðræðislöndunum víða um heim, bæði í Bretlandi og ekki síður í Bandaríkjunum, á þingi og utan þings verið minnt á það ósleitilega, að allt yrði að vera sem opinberast um það, sem er að gerast. Við Íslendingar höfum alls ekki samþ., að þetta allt eigi að eiga sér stað, en það er ekki heldur okkar að dæma Bandaríkjamenn. Ég tel misráðið að geta ekki þagað yfir neinu. En þetta, sem hér hefur gerzt, hefur verið tilkynnt, áður en ríkisstj. taldi sér ókleift annað en að tilkynna það íslenzku þjóðinni. Það hefur áður verið tilkynnt víða um heim af þm. í Bandaríkjunum. Nú fáum við að vita um þetta, og ein af ástæðunum er sú, að viðhorfið í stríðinu sé það breytt, að Bretar geti ekki lengur innt af hendi þessa miklu nauðsyn frá þeirra sjónarmiði, að halda Íslandi í hernámi, sem þeir kalla varnir. Við höfum ekki séð þýðingu þessara varna frá upphafi og efum, að þær séu fullnægjandi, ef hættu bæri að höndum, en aðrir telja þær viðunandi og sjálfsagt þeir, sem að þeim standa. Við undum því illa Íslendingar, þegar Bretar komu hingað þessara erinda. Við hefðum viljað taka á móti þeim með góðu og undir öðrum atvikum. Ríkisstj. mótmælti þessu ofbeldi og nefndi það svo fyrir hönd þings og þjóðar. En úr því að Bretar voru komnir hingað, undum við því, að þeir væru hér. Við urðum að láta það svo vera. Það hefur komið miklu fyrr til orða, stundum alvarlega, stundum manna á milli, að að því hlyti að reka, jafnvel fyrr en orðið er, að Bandaríkin skærust í leikinn og tækju þetta land undir sína vernd. Það hefur verið gegn vilja ýmissa á Alþingi, að slíkt tal ætti sér stað í alvöru, því að þótt við værum svo settir, að við yrðum að sætta okkur við hið brezka hernám, þá hefur verið margt annað, sem hefur gert það að verkum, að við þyrftum ekki á ný að fá slíkar heimsóknir frá öðrum. Nú þegar þetta kemur til, þá er hér til staðar frá stjórn og þingi ákveðin aðferð, sem sé að mótmæla þessu. Og í sjálfu sér er það svo, að við verðum að skilja það þannig, að stj. haldi sér enn þá á þessum vettvangi, og Alþ. haldi sér enn þá á þeim vettvangi, hvað sem það samþ., að það mótmæli allri íhlutun annars staðar að, ekki sízt hernaðarlegri á okkar land, sem gæti gert okkar aðstöðu hættulegri og vafasamari heldur en nú er og hættulegri en við vildum halda okkar landi og okkar þjóð í, en okkar staða er hlutleysisstaða.

Nú er rétt að taka það fram, eins og líka hefur þegar verið gert, að orðið hlutleysi er innantómt orð, en engin þjóð hefur treyst sér ótilneydd til að afsala sér því. Þær hafa verið kúgaðar hver á fætur annarri, en engin hefur viljað viðurkenna, að hún vildi afsala sér hlutleysinu, sem hefur átt að varðveita þær bezt samkvæmt alþjóðalögum. Það hefur komið fyrir nú á síðustu dögum, að ein frændþjóð okkar, Svíþjóð, sem hefur gert allt, sem unnt var til að vernda hlutleysi sitt, hefur orðið að gera frávikningu frá því algerða hlutleysi, en hefur fært rök fyrir, hvers vegna það var gert. Það var ekki vegna þess, að það kæmi fyrir kúgun frá stórveldi, sem nærri þeim situr, og ekki til þess að hjálpa því stórveldi, Þýzkalandi, til þess að berja á Rússum, heldur sögðu þeir, að þeir hefðu gert það til þess að taka upp sína fyrri stefnu að hjálpa Finnum. Þetta voru þeirra rök. Það má ef til vill eins færa fram einhver óbein rök fyrir því, að við víkjum nú frá okkar algerða hlutleysi, á einn eða annan veg í einu tilfelli, sem við viljum gera það og að sjálfsögðu ætti að vera okkur fyrir beztu. Nú eru þetta ekki mínar röksemdir, að þetta sé svo, en ég þykist vita, að hæstv. stj. hafi þessar röksemdir tilbúnar og hún geti yfirleitt gert grein fyrir þeim öllu meir og öllu víðtækar en kom fram í ræðu hæstv. forsrh., sem ég tel, að hafi fært nokkur rök fyrir þessu, en ekki fullnægjandi, því að ég tel það ekki fullnægjandi rök frá alþjóðar sjónarmiði, þó að Bretar telji hernaðaraðstöðuna hafa breytzt það mikið, að þeir þurfi að flytja burt þann her, sem þeir nú hafa hér, svo að ella mundum við standa varnarlausir. Spurningin er þá: Hvers vegna erum við að biðja um vernd? Það er erfitt að svara því. Ég veit ekki, hvort hæstv. stj. vill svara því, en þegar menn eru komnir út í að tala um varnir, og það varnir, sem komi í stað varna, sem fyrir eru af hálfu annars ófriðaraðilans, þá verða menn að gera sér grein fyrir, hverra varna okkur er þörf. Æskilegasta vörnin er sú að hafa engar varnir, og það er trú sumra, að varnarleysið hefði hjálpað okkur lengst. En svo koma aðrir og segja, að það tjái ekki, að við séum varnarlausir, því að ef einn fari, þá komi hinn. En okkar hlutleysi gerir þá kröfu, að við gerum ekki á hlut neins, því að þótt hlutleysi sé innantómt orð, þá heimtar hlutleysi, að menn geri ekki visvitandi á hluta annars. Þetta verður bæði þing og stj. að skilja. Nú vill hæstv. ríkisstj. vafalaust ekki gera þetta, og það vilja hv. þm. ekki heldur, þykist ég vita. Þm. allir, ríkisstj.- og íslenzka þjóðin vilja halda í efni hlutleysisins að svo miklu leyti, sem mögulegt er. Nú hefur hæstv. ríkisstj. orðið að ganga inn á þessa braut, að setja fram tilmæli til stj. annars ríkis að taka upp hervernd á þessu landi, þegar Bretar hverfa héðan burt, hvenær sem það verður. Eins og menn vita, er þetta allt nokkuð á huldu, og vafalaust verður það ekki mjög hratt. Þessi stj. þessa erlenda ríkis, sem þau efnislegu tilmæli eru gefin til, þó að ekki sé beint beðið um það, heldur er frumtilefnið komið fram frá öðrum, — en þessi efnislegu tilmæli fela það í sér, að ríkisstj. þessa lands gengur inn á það, að stjórn Bandaríkja Norður-Ameríku er falið þetta. Það er vist, að engin ríkisstj., sem hefur sér að baki einhuga Alþingi og að því er vitað er einhuga þjóð um þetta atriði, að halda fast við hlutleysið, mundi ótilneydd gera þetta. Þess vegna er það alveg gefið, þó að það hafi ekki komið fram frá ríkisstj., og það er nú í hugum hv. þm. eins og það mun verða í hugum þjóðarinnar, að hæstv. ríkisstj. hafi verið tilneydd að gera þetta. en að hverju leyti hún hefur verið það og hvernig á því stendur, því gerir stj. grein fyrir, ef hún treystir sér til þess. En þegar við vitum, að hún hefur talið sig til þess neydda, þá er okkar þm. að taka afstöðu til þess, með eða á móti. Það getur verið þannig um hnútana búið, að það, sem ríkisstj. hefur talið sig tilneydda til að gera, verði þingið að játa, meira eða minna ofan í vilja sinn, og óneitanlega eru nú þeir tímar, að menn ganga nú mörg nauðug spor, og má sjálfsagt finna upptökin að því, hvernig á því stendur, hvers vegna menn eru neyddir til þessa eða hins. Hitt er vitað, og sjálfsagt mælt í samræmi við vilja allra, sem hugsa um slík mál hér í landi, að við mundum mjög óska þess, að slíkt kæmi aldrei til, að nokkur þjóð neyddi okkur til að taka nokkra aðra afstöðu, sem við teljum viðsjárverða á ýmsan hátt, en þá, sem við gætum varið fyrir samvizku okkar og sannfæringu, ekki sízt við hér á þingi, sem erum fulltrúar þjóðarinnar.

Ég gat þess, að afstaðan er mörkuð hjá Íslandi, og hún er hlutleysisafstaða, hvort sem hún er meira eða minna verð, en hún er til staðar og verður að vera til staðar. Hins vegar hefur verið af Alþingi, með hæstv. forsrh. í broddi farar, mörkuð stefna gagnvart öllu því, sem miðar að því að draga okkur inn í styrjöldina beint eða óbeint, gagnvart öllu slíku liggja fyrir mótmæli, og frá mínu sjónarmiði eru slík mótmæli enn í gildi, og ég er viss um, að svo er í hugum hv. þm. flestra eða allra.

Ég býst við, að það samkomulag, sem hér er lagt fyrir hv. Alþ., verði að samþ. gegn samvizkunnar mótmælum og í trausti þess, að við séum enn á mótmælastiginu og höldum okkar hlutleysi, en séum ekki að sækja á nokkurn ófriðaraðila, en hlynna að öðrum, vitandi það, að aðrir hugsa um sjálfa sig fyrst og fremst. Og þó að þessir tveir aðilar, sem hér koma sérstaklega til greina, séu okkur vinveittir og við þeim (eins og raunar öllum þeim þjóðum, sem nú berast á banaspjót), þá viljum við ekki gera upp á milli þeirra og andstæðinga þeirra, heldur lífa í friði við allar þjóðir, í þeirri vitund, að engum sé verið að gera rangt til. En þegar gengið er til atkv. um þetta mál, og ef svo er, að menn megi leggja í þetta þann skilning, sem við verðum að halda til streitu, að við séum ekki horfnir af grundvelli hlutleysisins, þá verður það að koma fram. Við verðum reyndar að þola eitt og annað og láta í ljós ýmislegt, sem er okkur óljúft, og það verða einnig aðrar þjóðir að gera, en það verður þó að koma fram, að er við tökum nú þessa ákvörðun, þá sé það gert út frá þeirri hugsun, að enda þótt forseta Bandarikjanna sé falið að takast á hendur hervörn landsins, þá mótmælum við því, eins og við höfum mótmælt hinu fyrra hernámi, og krefjumst þess að fá að halda okkar hlutleysi gagnvart öðrum, að því leyti sem ekki er tekið fram fyrir hendur okkar.

Ég býst við því, að hæstv. ríkisstj. geti fallizt á þessa röksemdaleiðslu, sem ég hef gefið hér til kynna, og að það sé hennar ætlun, að við séum hlutlausir framvegis, tökum ekki afstöðu með eða móti neinum, og að það sé í þeim anda gert, ef hv. Alþ. samþ. mál það, er hæstv. ríkisstj. hefur nú lagt fram.