29.10.1941
Neðri deild: 8. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 33 í B-deild Alþingistíðinda. (103)

4. mál, húsaleiga

Félmrh. (Stefán Jóh. Stefánsson) :

Ég hef ekki getað verið við allar þær umr., sem fram hafa farið. Mér skilst, að hv. 4. þm. Reykv. hafi spurt um skilning á 2. gr. frv., hvort ætlunin væri með henni að fyrirbyggja, að menn úr erlendu setuliði gætu tekið húsnæði í bænum á leigu. Eftir orðalagi gr. og eins og þetta var hugsað í fyrstu, áttu 1. að fyrirbyggja það. En íslenzkir dómstólar eiga yfirleitt ekki lögsögu yfir því erlenda setuliði, sem hér hefur dvalizt um skeið. Á hinn bóginn fer þetta mjög eftir vilja húseigendanna. Ég veit til þess, að húseigendur hafa sagt upp setuliðsmönnum, sem viku síðan úr húsnæðinu á hinum tiltekna tíma, mótmælalaust. Ég veit líka, að til eru húseigendur, sem kjósa enga leigjendur fremur en setuliðsmennina í sínum húsum. Þá er ekki gott að sannreyna það, hvort þeir gera tilraun til þess sjálfir að losa íbúðir þessar handa húsnæðislausu innanbæjarfólki. Ég ætla, að flestir þeir einstaklingar úr brezka setuliðinu, sem tekið hafa herbergi á leigu, mundu víkja, ef þeim væri sagt upp. Skiljanlegt er hitt, að þegar þeir veita húseigendum mikilsverð hlunnindi, t. d. ódýr kol eða jafnvel hita upp hús þeirra ókeypis, eins og sagt er, að eigi sér stað, vilji húseigendur ekki missa þá. Umrætt ákvæði 2. gr. er þá þeim húseigendum skjól, sem vilja losna við útlendingana úr húsum sínum, en getur tæplega neytt þá til að segja þeim upp, sem þegar eru þar komnir. Um þær íbúðir, sem setuliðsstjórnin sjálf tók á leigu, hefur hins vegar verið farin samningsleið, og flestar þeirra hafa þegar verið rýmdar, — undanteknir staðir, þar sem herstjórnin var búin að setja upp sérstakar stöðvar, er vandkvæði þóttu á að flytja burt.

Ég heyrði ekki heldur ræðu hv. 5. þm. Reykv., sem beint var til n., sem fjalla mun um málið. Hv. 1. þm. Rang. bar fram ýmsar fyrirspurnir, og hef ég áður svarað sumu, svo sem því, að gildar afsakanir geta verið fyrir því, að húsaleigunefnd getur ekki ætíð kveðið upp úrskurði sína innan 14 daga. Aðrir dómstólar eiga fulla afsökun í því, ef annir hlaðast svo á þá, að ógerlegt er að ljúka málum á tilsettum tíma, og yfirleitt er ekki hægt að skylda menn til neins, sem þeim er sannanlega ókleift að framkvæma á tilteknum tíma. Ég veit, að n. lagði á sig geysilega vinnu. Og því get ég bætt við, að ég kom því til leiðar, að varaformaður nefndarinnar, sem er lögfræðingur að menntun, gæti starfað stöðugt í n., til þess að úrskurðir hennar yrðu sem fyrst upp kveðnir.

Kvartað hefur verið um það í fleiri en einni ræðu, að í þessum málum skorti tilfinnanlega efsta stig dómstóla. En í venjulegum tilfellum er hægt að fá í þeim fógetaúrskurð. Ég veit ekki, hversu mörg slík mál kunna að hafa komið fyrir fógetarétt. Það kynni að vera, að sá réttur teldi úrskurði húsaleigunefndar bindandi fyrir sig og gæfi úrskurð samkvæmt því. Þetta er athugunarmál.

Mér skildist á hv. 1. þm. Rang., að hann hefði ærið margt út á framkvæmdir n. á 1. að setja. Ég vildi biðja hann að skrá þessar umkvartanir og senda félmrh. bréflega. Það skal verða athugað og sent nefndinni, svo að úr megi bæta. Annars hafa ráðuneytinu ekki borizt nema tiltölulega fáar kvartanir á við það, sem vænta mátti, einkum þegar höfð er í huga hin almenna reynsla manna, er fást við slík störf, að kvartanir verða þar ætíð margar, hversu góðir menn sem vinna þau og hvernig sem þau eru framkvæmd. Við lögfræðingar vitum, hve margir kvarta, ef þeir tapa máli sínu. Þá ítrekaði þm. fyrirspurnir sínar um það, hvort n. ætti að kveða upp úrskurði sína skv. því, sem fyrir lægi, þegar úrskurðar er beiðzt, eða skv. breyttu ástandi, sem síðar skapaðist. Húsaleigunefnd er ekki bundin við eins fastar reglur og dómstólar, sem bæði styðjast við ýtarleg lög og aldagamla „praksis“. Nefndin þarf ekki einungis að framfylgja bókstaf laganna, heldur um leið að haga úrskurðum sínum mjög eftir því í hvert sinn, hvernig mest og heppilegust not megi að húsnæðinu verða, og taka tillit til margs annars, sem of langt yrði að telja. Hlutverk n. er ekki aðeins að vera dómstóll, heldur reyna að bæta úr vandræðunum á hverjum tíma.

Loks spurði þm., hvort milliliðir, sem tækju húsnæði á leigu og framleigðu það, gætu haldið því, ef húseigandi vildi losna við þá. Húsaleigun. verður að úrskurða þetta eftir eðli málsins í hverju tilfelli. En það verð ég að segja, að sé um þess konar milliliði að ræða, sem framleigja í hagnaðarskyni fyrir sig, þá undrast ég, ef þei geta haldið rétti sínum til húsnæðisins gegn vilja húseigenda.

Að öðru leyti þarf ég ekki að svara ræðu hv. 1. þm. Rang.