29.10.1941
Neðri deild: 8. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 36 í B-deild Alþingistíðinda. (105)

4. mál, húsaleiga

Sveinbjörn Högnason:

Það hefur komið greinilega í ljós af umræðum — og allir eru ásáttir um það —, að nauðsyn beri til að fá yfirdómstól í þessum málum. Þetta kom hvað greinilegast í ljós af svörum hæstv. félmrh., þar sem hann lýsti yfir því, að hann sé ekki fær um að skýra ýmis meginatriði í framkvæmd þessara 1. Hér er því óneitanlega um harla lítið réttaröryggi að ræða fyrir þá, sem við þessi lög eiga að búa.

Hefur greinilega komið fram, að hæstv. félmrh. hefur færzt undan því að svara einni af spurningum mínum, sem hér skipta máli.

Hv. þm. V.-Sk. ætlaði að hjálpa hæstv. ráðh. um svör við einni fyrirspurn minni, en hann svarar eðlilega út frá venjulegum réttarfarsreglum, að við úrskurði eigi allar framkomnar upplýsingar að koma til greina. En það er ekki það, sem um var spurt, heldur þegar t. d. húseigandi segir upp húsnæði, þarf hann þá ekki að hafa fyrir hendi réttmætar ástæður fyrir uppsögninni þá þegar, eða er nóg fyrir hann að skapa sér þær ástæður síðar?

Til skýringar skal ég nefna dæmi: Húseigandi segir leigjanda upp húsnæði 1. júlí með þriggja mánaða fyrirvara, eða 1. okt. Hann ber það fyrir uppsögn sinni, að hann sé búinn að selja hús sitt, sem hann býr í, og þurfi að flytja í þetta hús. Nú upplýsist það fyrir húsaleigunefnd, að þetta er ósatt, hann er ekki búinn að selja. Þá frestar húsaleigunefnd málinu. Seinna selur húseigandi húsið, og þá vísar húsaleigunefnd leigjandanum út. Er þetta hægt? — Nú veit ég um eitt ákveðið dæmi. Mér skilst, að hvorki hæstv. ráðh., sem er lögfræðingur, né hv. þm. V.-Sk., sem er reyndur dómari, séu vel heima í þessu, — og hvað er þá um ólöglærða einstaklinga? Um þetta atriði virðist engin vanþörf á að fá ákvæði í lögin. Sama er um það að segja, að mér virðist hæstv. ráðh. vera í vafa um öll atriðin, sem ég spurði um, nema eitt, það, að húsaleigunefnd væri heimilt að brjóta alveg skýr ákvæði laganna um frestinn. Ég var allshn., þegar l. voru fyrst til umr., og þá var talið nauðsynlegt að setja ákveðinn frest fyrir húsaleigunefnd. Nú upplýsir hæstv. ráðh., að þetta ákvæði sé einskis virði, að nefndarmenn megi hafa eins langan frest og þeir telji sig þurfa. Nú er mér kunnugt um, að húsaleigunefnd hefur oft ekki haft fundi nema einu sinni í viku. Ég verð að segja, að framkvæmdir af hálfu hins opinbera eru ófullnægjandi, ef slíkt starf er lagt á herðar þeirra manna, sem þegar eru störfum hlaðnir annars staðar og afsaka sig svo með önnum, þegar illa gengur. Slíkt er ófært. Eftir því að dæma gæti hver slík nefnd alltaf afsakað sig með því, að nefndarmenn hefðu ekki tíma til þess að sinna störfunum. Þegar mest var að gera fyrir 1. okt., var nauðsynlegt að hafa starfskrafta nefndarinnar óskipta. — Þegar l. voru sett, var 14 daga fresturinn álitinn nægilegur, enda skilst mér, að ekki eigi að vera hægt að kveða upp úrskurð eftir að flutningsdagur er liðinn.

Ég sé, að hæstv. forseti telur, að ég sé farinn að lengja tíma minn um of. Ég skal því ljúka máli mínu, enda hef ég tekið skýrt fram, hver nauðsyn er á, að bætt verði úr þeim misfellum, sem hér hafa á orðið í löggjöfinni. Það er og ekkert smáræði, sem í húfi er, að í n. veljist ágætir menn.