11.11.1941
Neðri deild: 20. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 49 í B-deild Alþingistíðinda. (118)

4. mál, húsaleiga

Einar Olgeirsson:

Herra forseti! Hv. frsm. talaði um afstöðu mína til eignarréttar húseigenda og yfirráðaréttar þeirra yfir húsum, sem aðrir hafa á leigu til íbúðar. Í því sambandi vil ég benda honum á, að það þarf engan sérstakan „bolsa“ til að halda því fram, að yfirráð þeirra og eignarréttur, svo heilagur sem hann er, geti takmarkazt af öðrum helgari rétti. Stjórnarskráin og öll okkar löggjöf ber því vitni, að tilverurétt fólksins ber meir að meta en eignarréttinn, hinn síðar nefndi er álitinn afleiðing, en ekki grundvöllur tilveruréttarins.

Það kom fram hjá hv. 5. þm. Reykv. í ræðu hans um þetta mál, að sérstaklega væri hart fyrir húseigendur að vera teknir út úr, þegar allir aðrir fengju að græða á eignum sínum. Það má segja, að þarna sé húseigendum óréttur ger á sama tíma sem t. d. eigendur togara græða geysilega, — það er óréttlæti innan eignastéttarinnar sjálfrar. Ef togaraeigendur ættu að kveða upp dóminn um þetta „misrétti“, mundu þeir segja, að húseigendur hafi margir grætt vel þau árin, sem útgerðin var að tapa, og það geti ekki verið tilviljun, að enn keppast eignamenn um að binda fé sitt í húseignum. Hins vegar skal ég játa, að til eru húseigendur, sem verðskulda, að tekið sé nokkurt tillit til þeirra, þegar hamlað er móti gróðahyggju húseigenda almennt. Það eru þeir, sem eru að klífa þrítugan hamarinn til að eignast hús yfir sig og sína eða húspart, menn af hinni fátækari stétt, og búa e. t. v. í kjallara hússins eða á lofti undir súð, en leigja aðalhæð þess og helztu þægindi, þræla lengi ævi fyrir afborgunum og vöxtum þeirra okurkjara, sem þeir hafa orðið að ganga að við kaupin, — hver laus eyrir fer til þeirra, sem eru hinir raunverulegu eigendur, lánardrottnanna. Það getur verið hart fyrir þessa menn að geta nú ekkert hagnazt á góðærinu, nema þeir kysu að selja húsin, sem þeir hafa e. t. v. ætlað eftirkomendum sínum, og standa síðan húsnæðislausir. Ef fram kæmi till., sem miðaði að einhverri uppbót til slíkra manna, gæti ég fylgt henni.

Einn hv. þm. minntist á hækkun húsaleigu í þessu sambandi. Svo framarlega sem menn vilja vinna móti dýrtíðaraukningu, hljóta þeir að skilja, að styrkur til þeirra, sem þarna þykja verða hart úti, er miklu hollara ráð en almenn húsaleiguhækkun, sem gæfi þeim óþarfan gróða, sem græddu nægilega á húsum sínum undanfarinn áratug, og yrði þess utan upphaf að stórkostlegu húsabraski. Það er almennt viðurkennt, hve húsabrask er hættulegt hagsmunum alls almennings. Þegar húseignir hafa tvöfaldazt í verði eða jafnvel miklu meira en það, eins og nú hlyti að verða, ef ýtt væri undir með nýrri húsaleiguhækkun, hlýtur afleiðingin að verða geysihá húsaleiga um langa framtíð — almenningi blæðir fyrir braskarana — eða ægilegt hrun hjá eigendum hinna dýrt keyptu húseigna. Styrkur til húseigenda þeirra, sem ég gat um, að þyrftu hans e. t. v., hefði ekki brask í för með sér, en húsaleiguhækkun til þess eins, að húseigendur geti grætt „eins og aðrir“, nær ekki neinni átt.

Hv. frsm. hélt ég vissi lítið um það allt, sem allshn. hefði gert. Hún segir frá því sjálf í þessu örstutta nál. sínu, —- varla svo hæversk, að hún hefði ekki getið þess þar, ef starf hennar í málinu hefði verið meira, — og eftir eigin sögn hennar að dæma, finnst mér starfið smátt. Hann sér ekkert merki til þess í nál., að n. hafi verið veik fyrir vilja Fasteignaeigendafélagsins. Þar leggur n. þó til skv. vilja þess að fella úr gildi ekki aðeins smámuni, heldur alla þessa lagasmíð, sem hér liggur fyrir, mánuði eftir flutningsdag í vor. Eins og á stóð var erfitt fyrir n. að sýna stjórn þess félags fyllri hlýðni en þetta, þótt ég efist hins vegar ekki um, að félagið hafi orðað við hv. allshn. miklu meiri kröfur í málinu.

Hv. frsm. minntist á, hvernig nýbyggingar í bænum hefðu verið hindraðar undanfarin ár. Ég vil taka undir það, en um leið minna menn á þá ágætu samvinnu Sjálfstfl. og Framsfl., sem þessu olli. Sjálfstæðismenn tóku að sér að hindra framtak bæjarins, stöðva byggingar þar, sem hið opinbera átti hlut að máli, meðan hitt, að lama einkaframtakið í byggingum, var aðallega hlutverk Framsfl., jafnframt því að torvelda innflutning. S. l. 4 ár hefur þó alltaf verið hægt að fá byggingarefni innflutt, ef samkomulag hinna 3 þjóðstjórnarflokka hefði verið á annan veg en var. Alltaf kvað við í Alþfl., að fulltrúar hans væru reiðubúnir til að gera allt til að knýja fram þennan innflutning. Ekki var minni áhuginn fyrir því hjá ýmsum helztu mönnum Sjálfstfl. — í munninum. Framsfl. einn stóð á móti, en var í minni hluta. En í samningum við þann flokk var þessum kröfum fórnað, m. a. fyrir skattfrelsi útgerðarinnar, og árlega látið fara í súginn milljónavirði í ónotuðu vinnuafli og e. t. v. enn meira virði í ónotuðum möguleikum á þessu sviði. Þetta var hin byrjandi þjóðstjórnarsamvinna.

Hv. frsm. varð mishermi um Bretaíbúðirnar í bænum. Hæstv. félmrh. upplýsti í ræðu hér í d., að Bretar hefðu farið úr þeim íbúðum, sem þeim var sagt upp af húseigendum. L. skylda húseigendur til að segja þeim upp og leggja sektir við, ef ekki er gert. (JGM: Það er ekki hægt að sekta Bretana.) Nei, en 1. ber að beita við húseigendur, og þau segja eins og stendur í 2. gr. frv., með leyfi hæstv. forseta: „Húseiganda er óheimilt að leigja öðrum en heimilisföstum innanhéraðsmönnum íbúðarhúsnæði. Leigusamningar ...... óheimilir eftir ákvæði 1. mgr., eru ógildir.“ Upplýst er, að þetta nær til íbúða, sem Bretum eru leigðar, og hvers vegna hefur því þá ekki verið beitt gegn eigendum þeirra íbúða eins og gegn húseigendum, sem leigja öðrum aðkomumönnum? Hæstv. félmrh. afsakaði það með því, að hægðarleikur mundi vera að koma á samvinnu milli húseigenda og Breta, þannig að Bretar gerðu það fyrir húseigendur að neita að fara úr íbúðum, sem þeim yrði til málamynda skipað að fara úr. En þetta er ósannað mál, því að það hefur ekki verið reynt. Hæstv. félmrh. lofaði, ef ég man rétt, að íhuga, hvernig ákvæði 1. yrðu þarna framkvæmd. Eflaust er það erfitt, ef orðrómurinn er sannur um þau hlunnindi, sem sumir húseigendur kvað njóta hjá hinum brezku leigjendum sínum, t. d. að fá svo og svo margar whiskyflöskur hjá þeim á mánuði. Hins vegar getum við ekki afsakað okkur með því, að Bretar séu sterkari en við. Þeir hafa ekki kosið að beita þarna ofbeldi, heldur vikið burt þaðan, sem þeim var sagt upp. Ef þeir tækju nú upp hina aðferðina og sætu þrátt fyrir uppsögn, er það gert af hvötum íslenzkra manna og þess vegna okkar Íslendinga að sjá ráð við því.