17.11.1941
Neðri deild: 21. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 54 í B-deild Alþingistíðinda. (129)

4. mál, húsaleiga

Félmrh. (Stefán Jóh. Stefánsson) :

Það eru aðeins nokkur orð út af brtt. þeim, sem fram hafa komið við þetta frv.

Ég skal þá í fyrsta lagi víkja að brtt. á þskj. 48, frá hv. 5. þm. Reykv., þar sem hann leggur til, að nokkuð verði rýmkað um ákvæði frv., er snerta umráðarétt húseiganda til þess að ráðstafa húseign sinni, þar sem sá hv. þm. leggur til, að í stað orðanna „til eigin íbúðar“ komi: til íbúðar fyrir sjálfan sig eða vandamenn sína, sem taldir eru í 2. málsgr. 9. gr. l. nr. 87 19. júní 1933 (ábúðarlög). — Ef slík brtt. væri samþ., mundi það raska því fyrirkomulagi, sem vakti fyrir þeim mönnum, sem stóðu fyrir setningu þessarar löggjafar, því að þá yrði hægt fyrir húseigendur að fá til bæjanna vandafólk sitt, sem ætti heima utan kaupstaðanna, og láta það vera í sínu húsnæði. Og með því yrði rofin reglan um að láta húsnæðislausa innanhéraðsmenn sitja fyrir húsnæðinu í bæjunum, þegar um það er keppt af utanhéraðsmönnum gegn innanhéraðsmönnum. Af þessari ástæðu tel ég ekki rétt að leggja inn á þessa braut, sem hv. 5. þm. Reykv. ber hér fram brtt. um.

Út af brtt. hv. 1. þm. Rang. á þskj. 43 vil ég segja það, að ég hef fyrir mitt leyti ekkert við það að athuga, þótt sett séu skýr ákvæði um það, að það sé ekki einungis íbúðarhúsnæði, sem l. taki til, hvað snertir leigumálana, heldur sé þar líka um að ræða annað húsnæði, svo sem til verzlunar, iðnaðar og annars slíks. Ef menn telja, að þörf sé á að hafa sömu ákvæði um verzlunar- og iðnaðarhúsnæði eins og um venjulegt íbúðarhúsnæði, þá sé ég fyrir mitt leyti ekkert við það að athuga, að ákvæði séu sett um það í 1. En það, sem vakti fyrir ríkisstj., þegar brbl. voru sett, var sérstaklega það að reyna að notfæra íbúðirnar, sem til voru í bæjunum, sem allra bezt fyrir húsnæðislaust innanhéraðsfólk.

Þá er brtt. á þskj. 46, frá hv. þm. V.-Sk. og hv. 1. þm. Rang., og var sú brtt. að nokkru leyti boðuð í ræðum þessara tveggja hv. þm. við hinar fyrri umr. þessa máls. Þá lýsti ég því sama yfir sem ég lýsi yfir nú, að ég tel, að þetta, sem í brtt. er lagt til að samþ. verði, geti verið mjög vafasamt að setja í 1., að settur sé upp einhver yfirdómstóll yfir húsaleigunefnd, sem gæti í mörgum tilfellum orðið til þess að seinka úrskurðum um ágreiningsmál, sem lögð væru fyrir þá nefnd, án þess þó, að því fólki, sem þar á hlut að máli, væri veitt nokkurt sérstakt aukið öryggi með því móti heldur en með því fyrirkomulagi, sem nú er á því, að húsaleigun. feili slíka úrskurði endanlega, og er þó undan því kvartað af hv. 1. Þm. Rang., að, seint komi þessir úrskurðir. Með þetta fyrir augum get ég fyrir mitt leyti ekki lagt með þessari brtt.

Þá er loks brtt. á þskj. 47, um heimild til þess að taka af þeim mönnum húsnæði til úhlutunar, sem hafa ákveðna stærð húsnæðis, reiknað eftir gólfflatarmetrum íbúðarherbergja. Ég lýsti því yfir við 1. umr. málsins, að þegar þessi mál komu til athugunar, hafði mér komið til hugar möguleikinn til að skammta húsnæðið í bænum. En við yfirvegun hef ég komizt að þeirri niðurstöðu í málinu, að slíkt sé svo vandasamt verk, að ef út í það væri farið, væri hætta á því að slík framkvæmd gengi ójafnt yfir gagnvart húseigendum, og ég gæti ekki lagt til, að farið yrði inn á þá braut að svo komnu máli. Og sérstaklega þótti mér rétt og sjálfsagt að fara þær leiðir einar fyrst, sem gert er ráð fyrir í brbl., og sjá, hverju mætti um þoka með því. Og nú held ég, eftir þeim upplýsingum, sem ég hef fengið úr Reykjavík, frá Ísafirði og úr Hafnarfirði, að brbl. þessi hafi beinlínis orðið til þess að hægt var með nokkrum erfiðismunum að ná saman endunum í húsnæðismálunum í þessum bæjum. Það hafa að vísu skapazt vandræði og óþægindi fyrir marga menn í sambandi við þessi mál, en slíkt ber alltaf að höndum, þegar skortur er á einhverjum nauðsynjum, eins og nú hefur verið á húsnæði. Mér er kunnugt um það hér í Reykjavík; að þetta hefur skapað nýgiftum hjónum ákaflega mikil vandræði. Þau hafa verið búin að tryggja sér húsnæði, og það hefur verið búið að segja upp fólki til þess að þau gætu stofnað heimili; þetta hefur þannig komið mjög hart niður á fólki, sem hefur ætlað að stofna ný heimili. Ég tek þetta fram að gefnu tilefni í þessum umr., að það eru ekki aðeins eigendur húsanna, sem hafa orðið fyrir óþægindum vegna þessara 1. En samt sem áður hafa brbl. hjálpað mikið til þess að komast hjá þeim verstu vandræðum, sem yfir vofðu í mörgum bæjum landsins í þessum málum. Og þegar 1. dugðu ekki ein út af fyrir sig hér í Reykjavík. Þá var gripið til þess að reisa bráðabirgðabyggingar til þess að koma húsnæðislausu fólki undir þak. En ég hef nokkra von um það, að þegar þessi vetur er liðinn og ef ekki flyzt því fleira af fólki til Reykjavíkur, þá skáni svolítið ástandið í húsnæðismálum bæjarins og verstu vandræðunum í því efni verði þá afstýrt. En þó verður það því aðeins, að haldið verði rækilega áfram að byggja hentugt og gott húsnæði hér í bænum. Með verkamannabústöðum þeim, sem nú eru í smíðum hér í Reykjavík, á Ísafirði og í Hafnarfirði, ætla ég, að svolítið verði bætt úr vandræðunum í húsnæðismálunum. En ef allt er með felldu, þá en það svo, þar sem bæir eru orðnir nokkuð stórir, að þótt ekki sé um aðflutt fólk til þeirra bæja að ræða, þá er alltaf þörf fyrir aukið húsnæði vegna margra nýrra heimila á ári hverju; sem stofnuð eru. Þess vegna er þörf á því í öllum þessum bæjum að gera ráðstafanir til þess að halda áfram sem mestum og beztum byggingum á nýjum verkamannabústöðum. Og ég álít það beinlínis skyldu yfirvaldanna á hverjum stað að greiða fyrir slíkum nýjum byggingum, eftir því sem unnt er, og stuðla að því, að bygging verkamannabústaða geti haldið áfram í bæjunum, og að þeir menn yfirleitt, sem treysta sér til að geta haldið áfram að byggja eins og þeir sjálfir kjósa, geti það, þannig að fyrir því verði greitt af hálfu viðkomandi bæjar og ríkis. Ég álít því, að það geti vel farið svo, ef hyggilega er á húsnæðismálunum haldið af ríkisvaldinu og yfirvöldum bæjanna, að ekki komi til aukinna vandræða frá því, sem nú er, heldur sé nokkur von til þess, að fram úr rætist um húsnæðismálin í bæjunum, en þó álít ég, að þetta verði því aðeins, að hinu opinbera sé ljós sú skylda að greiða fyrir þessu sem mest og bezt á hverjum stað. Vænti ég, að það verði í framtíðinni, og þá ætla ég, að ekki þurfi til þess neyðarúrræðis að grípa að skammta húsnæðið, sem mætti þó að vísu segja um, abstract skoðað, að ekki væri óréttlátt. En óneitanlega yrði framkvæmd slíkra ráðstafana svo erfið, að ég treysti því naumlega, að hægt væri að framkvæma slíka skömmtun með sanngirni þannig, að ekki mundi valda hinu mesta öngþveiti á þeim stöðum, þar sem hún færi fram. mér eru mjög ljósir gallar á framkvæmd þess máls, og þess vegna vil ég ekki fara inn á þá leið fyrr en a. m. k. að ég sæi, að öll önnur sund til úrlausnar á húsnæðisvandræðum væru lokuð. En það er alls ekki svo í þessu efni, ef haldið verður áfram á sömu leið og nú er farin í byggingarmálum, að ástæða sé til að ætla, að öll önnur sund séu lokuð en þessi leið, að skammta húsnæðið.