17.11.1941
Neðri deild: 21. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 57 í B-deild Alþingistíðinda. (131)

4. mál, húsaleiga

Sveinbjörn Högnason:

Ég get verið hæstv. félmrh. þakklátur fyrir það, að hann getur fallizt á þörf og framgang brtt. minnar á þskj. 43, og ætla ég því ekki að ræða hana.

Hins vegar telur hæstv. félmrh., að brtt. okkar hv. þm. V.-Sk. muni ekki koma að gagni eða hennar muni ekki þörf, en samþykkt hennar muni hafa í för með sér að seinka úrskurðum húsaleigun. Ég hygg, að þetta sé ekki á rökum byggt, vegna þess að það leiðir af sjálfu sér, að ef það er aðeins einn aðili, sem á að dæma í þessum mikilvægu málum og hafa þau þannig í hendi sér, að hann eigi einnig einn að úrskurða, hvað í þessum húsaleigul. felist, og þessi aðili hefur ekkert aðhald um nokkurt atriði viðkomandi skilningi á 1. eða úrskurðum eftir þeim, þá á hann ekkert á hættu, sem getur aftur orðið til þess, sem ég veit dæmi um, að úrskurðir í þessum málum dragist vikum og mánuðum saman. Ef annað dómstig væri yfir húsaleigun. í þessum efnum, þá yrði það tekið til athugunar, hvort þessi dráttur hafi verið réttlátur eða réttmætur, og það væri ekki lítið aðhald fyrir n. til að hvetja hana til að hafa lokið úrskurðum sínum á réttum tíma. Ef ekkert yfirdómstig er yfir henni, hefur hún ekkert aðhald, hvorki um það að fella úrskurði á réttum tíma né heldur um það, hvernig úrskurðirnir eigi að vera. Og jafnvel þó að þetta ákvæði, sem ég legg til, að samþ. verði, yrði til þess að seinka úrskurðum í sumum tilfellum, þá yrði þessi breyt. þó mjög til bóta á því ástandi, sem nú er um framkvæmd húsaleigul., því ástandi, að menn fái úrskurðina oft bæði seint og ranga. Og ef ekki er nokkur vegur til þess að fá umbætur á húsaleigul. í þá átt að setja yfir n. yfirdómstig, sem skjóta megi úrskurðum n. til, þá viðhelzt sá háskalegi galli á þessum húsaleigul. að skapa húsaleigunefnd einræði í þessum málum. En þar, sem einræði skapast, kemur líka tilhneiging til handahófs. Og ef

þessi n. hefur ekkert æðra dómstig yfir sér, mun það leiða til handahófs. Þetta hefur mönnum skilizt á öðrum sviðum þjóðfélagsins, og það er sannarlega þörf á því, að mönnum skiljist þetta einnig hér, að þörf sé á yfirdómstigi í húsaleigumálunum yfir húsaleigun., því að á þessum tíma eru húsnæðismálin hin alviðkvæmustu mál, sem menn eiga mjög mikið undir, hvernig farið er með. Það er að mínu áliti engan veginn forsvaranlegt að setja ekki yfirdómstól yfir húsaleigun., jafnvel þó að það seinkaði dómum í sumum tilfellum. En ég álít, að slíkt yfirdómstig yrði aðhald fyrir n., sem yrði líka til þess að flýta úrskurðum, þegar n. veit, að hún hefur þann dómstól yfir sér, og meira aðhald og hvöt fyrir n. heldur en ef hún veit, að hún verði hvergi krafin reikningsskapar gerða sinna.