18.11.1941
Efri deild: 15. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 59 í B-deild Alþingistíðinda. (136)

4. mál, húsaleiga

Páll Zóphóníasson:

Ég vil gera ráð fyrir, að hæstv. félmrh. hafi ekki beint á móti því, að málinu verði vísað til n., og vil því leggja til, að það fari til allshn. Ég vil biðja n. að athuga aðallega eitt atriði. Ákvæði 1. gr. ná aðeins til íbúðarhúsnæðis. En það er kunnugt, að sagt hefur verið upp íbúðum til að geta hækkað húsaleigu, og hér er mikið húsnæði fest sem skrifstofupláss til þess að reyna að komast undan ákvæðum l. Stundum er um menn að ræða, sem þykjast reka sína starfsemi utan Rvíkur, til þess að komast undan útsvörum, en hafa húsnæði undir þann rekstur hér. Ég veit t. d., að heilt hús hér í bænum er fest undir slíkan rekstur. Vill ekki n. rannsaka, hvort ekki er hægt að þrengja að húsnæði manna, sem telja sig utanbæjarmenn. Ef n. óskar þess, skal ég nefna henni dæmi um slíka menn.