19.11.1941
Efri deild: 22. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 65 í B-deild Alþingistíðinda. (145)

4. mál, húsaleiga

Magnús Gíslason:

Það voru aðeins nokkur orð um aths. hæstv. félmrh. út af brtt. minni. Hann hefur bent á það sem rök á móti þessari brtt., að nú sé mikið byggt í Rvík. Má vel vera, að svo sé, en þó eru húsnæðisvandræðin svo mikil, að nú verður að grípa til þeirra ráða, sem ekki hefur verið gert síðan í síðasta stríði, að bærinn verður að koma upp bráðabirgðaskýlum í þessum tilgangi: Má vera, að meira sé byggt nú en venjulega. Menn, sem eru húsnæðislausir, reyna að koma upp húsnæði fyrir sig, en það er engin sönnun fyrir því, að ekki yrði meira byggt, ef lögin næðu ekki til nýbygginga. A. m. k. verður ekki takmarkinu náð með þessum 1., nema byggingar verði stórum auknar.

Hæstv. félmrh. sagði enn fremur, að svo gæti farið, að þeir, sem byggðu slík hús, létu þau standa ónotuð í „spekulations“-augnamiði. Það er nú svo dýrt að byggja hús, að það væri einkennileg „spekulation“ að láta þau standa ónotuð. Ég er þess fullviss, að auknar nýbyggingar munu einar geta bætt húsnæðisvandræðin, og með till. minni eru gerðar nauðsynlegar ráðstafanir til að ná þeim tilgangi að leysa þessi vandamál sem fyrst.