20.11.1941
Neðri deild: 26. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 67 í B-deild Alþingistíðinda. (153)

4. mál, húsaleiga

Félmrh. (Stefán Jóh. Stefánsson) :

Ég tel ekki alls kostar rétt það, sem hv. þm. V.-Sk. sagði um, að eigi sé hægt að áfrýja úrskurði húsaleigun., því í 6. gr. l. er tekið skýrt fram, að slíkum úrskurði megi skjóta til æðri dómstóla, enda er Það stundum gert. Húsaleigun. hér í Reykjavík hefur í haust fellt um tvö hundruð úrskurði, þar af hefur þrjátíu verið áfrýjað, í flestum tilfellum til fógetaréttar, en tveimur úrskurðum hefur verið áfrýjað til bæjarþings Reykjavíkur, og þeir gengu út á það, að menn skyldu kyrrir vera. Annar þeirra er nú um það bil að fara fyrir hæstarétt. Dómstigin í þessum málum eru því þrjú. Í fyrsta lagi húsaleigun., í öðru lagi undirréttur og í þriðja lagi hæstiréttur. Skv. núgildandi l. eru dómstigin hér aðeins tvö, það er undirréttur og hæstiréttur, en í húsaleigumálunum eru þau þrjú. Þess vegna finnst mér algerlega óþarft það, sem hv. þm. V.-Sk. fer fram á, að bæta við fjórða dómstiginu, svo þau verði helmingi fleiri en venjulega. Ég held, að menn geti látið sér nægja að hafa þau einu fleira, því lokadómstóllinn í báðum tilfellunum verður sá sami, nefnilega hæstiréttur. Ég sé því enga ástæðu til að vera að koma með brtt. við þetta, þegar Ed. hefur verið lokað, því þetta breytir í rauninni engu, þar sem lokadómstóllinn er og verður ávallt sá sami.