20.11.1941
Neðri deild: 26. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 69 í B-deild Alþingistíðinda. (155)

4. mál, húsaleiga

Félmrh. (Stefán Jóh. Stefánsson) :

Það getur vel verið, að mér takist ekki að sannfæra hv. þm. V.-Sk. En þó er ég alveg viss um það, að ef hann hefði ekki upphaflega í sig bitið þessar mjög svo hæpnu skýringar á löggjöfinni, þá mundi hann hljóta við rólega íhugun að komast að sömu niðurstöðu og ég, því að það verður engin önnur rétt niðurstaða í þessu máli fundin. Það er alveg skýrt eftir húsaleigul., að úrskurði húsaleigun. má skjóta til dómstólanna. Þar má sækja og verja þessi mál af beggja hálfu og koma með gögn og skýringar í málinu fyrir dómstólunum. Síðan fella dómstólarnir sína úrskurði, annaðhvort sem staðfestingu á gerðum húsaleigun. eða til þess að umturna þeim gerðum, vegna þess þá, að dómstólarnir sannfærist um, að þær hafi verið rangar. Dómstólarnir eiga að dæma eftir 1., og ef eftir 1. eru gerðir rangir úrskurðir, þá eiga dómstólar að fella þá úr gildi. Og sú hefur orðið raunin á, að 15% af þeim úrskurðum, sem kveðnir hafa verið upp af húsaleigun., hefur verið áfrýjað til dómstólanna, og einn þeirra hefur farið til hæstaréttar. Og í því máli, sem ég gat um, að hefði farið til hæstaréttar, var það svo, að húsaleigun. hafði úrskurðað eitt og héraðsdómur annað. En nú bíður það úrskurðar hæstaréttar, hvor hafi haft réttara fyrir sér, húsaleigun. eða héraðsdómurinn. Því verður ekki á móti mælt, að málum sé þannig fyrir komið. Og þó að einu nýju dómstigi sé bætt við, með því að skjóta því inn á milli, þá stendur sá almenni réttur laganna, sem orðaður er í 6. gr. l., að það er rétt alls staðar að fara fyrir reglulegan dómstól með málin. Og það er aðgætandi líka, þegar um er að ræða dómstig í þessu sambandi, að húsaleigun. er í sjálfu sér dómstóll, sem settur hefur verið á laggirnar í þessum málum, sem ber að fara eftir húsaleigul. og miða úrskurði sína við þau 1. Og heimilt er skv. l. að koma á fót dómstól í kauptúnum úti um land, sem hafa yfir 300 íbúa, til þess að dæma í þessum málum, alveg eins og landamerkjadómur eftir sérstökum l., þar sem héraðsdómari er oddviti dómsins. En t. d. um húsaleigun. í Reykjavík, þar útnefnir hæstiréttur formann, sem skal vera lögfræðingur, og svo eiga að vera meðdómendur, sem geta verið leikmenn eða lögfræðingar. Og eins er um sjódóm og verzlunardóm sem um landamerkjadóm, að formaður dómsins er viðkomandi héraðsdómari, en meðdómendur eru menn, sem eru kunnugir slíkum málum, hvort sem þeir eru lögfræðingar eða ekki, og þessir tveir meðdómendur geta ráðið niðurstöðu sjó- og verzlunardóms.

Ég vil segja út af því, sem hv. þm. V.-Sk. tók fram, að hann hefði vel getað gert sig ánægðan með, að þetta ákvæði um yfirdómstig í húsaleigumálum hefði gilt aðeins utan Reykjavíkur, að ég er ekki eins viss um, að meðflm. hans að brtt. hefði gert sig ánægðan með það, eða að hann sé honum samdóma um það atriði. En það er á valdi ríkisstj. að setja með reglugerð aðra skipun á n. þessar í bæjum. Og ríkisstj. getur skipað húsaleigun. í öllum kaupstöðum landsins, ef hún álítur rétt. En það hefur ekki borizt frá neinum kaupstað á landinu ósk um það, að þetta væri gert af ráðuneytinu. En það mætti taka það til athugunar; ef t. d. hv. þm. V.-Sk. væri með því sérstaklega, þá vildi ég gjarnan taka til athugunar, hvort slíku fyrirkomulagi ætti að koma á í öllum bæjum utan Reykjavíkur eins og er í Reykjavík, að fastar húsaleigun. væru settar þar, og þá væri fullnægt hans óskum í þessu máli, að koma slíkum föstum n. á í öllum kaupstöðum landsins, utan Reykjavíkur líka, ef það þætti tryggara.