20.11.1941
Neðri deild: 26. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 70 í B-deild Alþingistíðinda. (156)

4. mál, húsaleiga

Sveinbjörn Högnason:

Ég vil aðeins benda á, að meðferð þessa máls hér á hæstv. Alþ., og þá ekki sízt nú upp á síðkastið, og baráttan fyrir einræði húsaleigun. í meðferð þessa máls ber ekki vott um góða samvizku. Því að ef menn eru hræddir við að láta aðra fjalla um það, sem þeir hafa gert, og vilja ekki láta taka þessi mál undan einræðisskipulagi, eins og á þessum málum er haft nú, og gefa mönnum tækifæri til að áfrýja þeim til rannsóknar og úrskurðar yfirdómstigs, eftir að húsaleigun. hefur fellt sína úrskurði, þá sýnir það, að það er óhreint mél í pokanum. Þess vegna vil ég benda hv. þm. á það, að það er því meiri ástæða til að láta þetta mál ekki fram hjá fara án þess að gera alvarleg átök um það að athuga, hversu þessi mál hafa verið framkvæmd undanfarið, og koma á yfirdómstigi til þess að hindra handahófsmeðferð á þessum málum svo sem verða má. Og það litla, sem ég hlustaði á ræðu hæstv. félmrh. nú, það sannfærði mig enn betur um það, hversu þessa væri mikil þörf, að láta frekari rannsókn komast þarna að. Því að ég man ekki betur en að hann hefði ekkert á móti því, að sett væri yfirhúsaleigun., að öðru leyti en því, að það mundi tefja málið. En nú á að halda dauðahaldi í það af hæstv. félmrh., að hægt sé að áfrýja þessum málum til dómstólanna, sem hver maður veit, að er kannske hægt í orði kveðnu, en er þó í sjálfu sér rangt, því að það mun vera svo um úrskurði húsaleigun. hér í bænum, að fógetaréttur telur sig ekki geta lagt annan dóm á þá úrskurði en að ákveða, hvort í þeim hafi verið rétt að farið eftir l. eða ekki. Og við höfum nú yfirlýsingu frá hæstv. félmrh., þar sem það kom skýrt fram, að það yrði ekki öðruvísi með úrskurði húsaleigun, farið af dómstólunum heldur en á þennan eina veg. Og síðan er talið, að það sé hægt að hafa áfrýjunarrétt hjá þessum dómum. Mig furðar, að það skuli koma fram hjá manni, sem er löglærður, eins og hæstv. félmrh., þegar hann bendir til þess, að húsaleigun. sé ekki ósvipuð og landamerkjadómur og sjóréttur, og ætlar að færa það því til sönnunar, að hægt sé að áfrýja þessum úrskurðum til annars dómstigs. En það er ekki hægt að áfrýja frá landamerkjadómi nema um það, hvort löglega hafi verið að farið, og alls ekki til þess, að yfirdómstóll geti ákveðið önnur landamerki heldur en landamerkjadómur hefur þegar ákveðið.

Það, sem hæstv. félmrh. sagði líka, var, að 15% af úrskurðum húsaleigun. hafi verið áfrýjað til dómstólanna. En hvað sýnir þetta? Þetta sýnir, hversu mikil nauðsyn er á því að hafa yfirdómstól í þessu efni. En hæstv. félmrh. gleymdi bara að skýra okkur frá því, hve margir af þessum 15% hefðu fengið leiðrétting mála sinna eða hve mörg af þessum málum hefðu verið meðhöndluð af dómstólunum. Ætli það hafi ekki verið sama sagan og oft er, að ekki hafi verið tekið á þessum málum sem skyldi. Ég held mig því við það, sem ég hef haldið fram. Og ef þessir 15% hafa ekki fengið leiðrétting sinna mála, sýnir það, hvílíkt greypilegt og óviðunandi réttarleysi menn eiga við að búa hér í bænum í þessu efni. Þetta margir telja sig svo mjög hafa verið órétti beitta, að þeir hafa áfrýjað til dómstóla, og þetta margir geta ekki fengið úrskurð á því, hvort úrskurðir húsaleigun. hafi verið sanngjarnir, heldur aðeins, ef mál þeirra verða tekin fyrir eða hafa verið tekin fyrir, hvort úrskurðirnir hafi verið löglega felldir.

Meðferð þessa máls hér nú sýnir ljóslega, hvers menn telja í raun og veru við þurfa til þess að berja niður réttarkennd hv. alþm. líka, hreint og beint, að þeim er, með því, hvernig farið er að við afgreiðslu málsins, fyrirmunað að láta sína réttarmeðvitund koma fram því að meðferð Alþ. á þessu máli er alveg eins dæmi, hvernig það hefur verið afgr. í Ed. með því að halda þingfund fram á miðja nótt og slíta svo deildinni sem allra fyrst, til þess að segja svo við hv. þm. Nd.: Það verður ekki breytt neinu í þessu frv. Þið verðið að hafa það, sem við höfum afgr. í þessu efni. — Hvers konar vinnubrögð eru þetta hér á hæstv. Alþ.? Ætlar hv. Nd. að láta bjóða sér þetta, sem er mikill meiri hluti hv. alþm.? Ég fyrir mitt leyti vildi miklu heldur eiga á hættu með það að láta þessi húsaleigul. falla og sigla sinn sjó og segja sem svo: Við skulum gera þá breyt. síðar, sem er í samræmi við það, sem við höfum gert hér í hv. Nd. Og ef í nauðir rekur, þá má gefa út brbl. um þetta, þar sem ráðh, v erður að fara eftir því, sem er næst vilja Alþ. Og þá er ekkert um að villast um það, hvort sjónarmiðið á að koma upp, hvort það á að vera sjónarmið hv. Nd. með

33 þm. eða sjónarmið Ed. með aðeins 15 eða 16 hv. þm., — það er ekki neitt um það að villast. Ef á að fara fram svona barátta hér milli d. þingsins, þá má það koma í ljós, hver valdið hefur. — Ég vildi aðeins benda á þessa óvenjulegu meðferð, bæði frá hendi hæstv. félmrh., sem hefur nú snúizt kringum sjálfan sig og alveg étið ofan í sig það, sem hann sagði við 1. umr. málsins um þetta dómstig. Og enn fremur þá meðferð, sem þetta frv. hefur fengið í hv. Ed., sem hefur hlaupið burt frá málinu, af því að hún telur það verk þannig, að hún vill ekki verða krafin reikningsskapar fyrir það. En ég vil, að hv. þdm. þessarar hv. d. láti ekki bjóða sér slíkt.