19.11.1941
Neðri deild: 23. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 75 í B-deild Alþingistíðinda. (193)

25. mál, ábyrgð rekstrarláns fyrir Landsbankann

Fjmrh. (Jakob Möller) :

Ég vil mælast til þess, að hæstv. forseti hraði þessu máli eins og unnt er.

Þetta mál er ákaflega einfalt. Það, sem um er að ræða, er heimild fyrir ríkisstj. til þess að ábyrgjast rekstrarlán fyrir Landsbanka Íslands, allt að 2 milljónum Bandaríkjadollara. Þetta er skv. eindreginni till. samninganefndar þeirrar, sem er í Washington og hefur með höndum gerð samninga milli Íslands og Bandaríkjanna. Það er óvíst, að til þessa láns þurfi að taka, en það þykir óhjákvæmilegt að hafa heimild til þess að taka þetta lán, vegna þess, hversu dregizt hefur, að endanleg niðurstaða fengist í samningum þeim, sem ég nefndi. Lánskjörin eru hagstæð, aðeins 1½% vextir af því, sem stendur í skuld á hverjum tíma.

Ríkisstj. mælir eindregið með því, að þessi lánsheimild verði gefin.