10.11.1941
Neðri deild: 19. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 84 í B-deild Alþingistíðinda. (255)

19. mál, rithöfundaréttur og prentréttur

Einar Olgeirsson:

Herra forseti! Ef maður væri í vandræðum með að vita, hvaðan þetta mál væri í raun og veru komið, þyrfti maður ekki annað en lesa 1. gr. frv. til þess að sjá fangamark höfundar. Eins og hv. frsm. tók fram, mun menntmn. ekki eiga sjálf upptökin að þessu frv. Og ekki mun það vera komið frá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, þar sem dómsmrh. hefur ekki einu sinni haft svo mikið við að mæla með því. En ef maður les fyrr í hlutann af 1. gr. „.... að ugga má, að almennum menningarhagsmunum yrði tjón að,“ dettur manni í hug þáltill. ein, sem borin var fram fyrir skömmu síðan. Það er svo undarlega að orði komizt í þessu frv., að auðséð er, að sá maður, sem upptökin á að frv., vill láta gerræði ráða í þjóðfélaginu. Þarna er verið að kippa burtu öllum skynsamlegum grundvelli undan prentfrelsi, sem áður hefur verið ákveðið með l. Hvers konar gerræði er hér verið að fremja? Hvað á þessi viðbót að þýða: „að ugga má, að almennum menningarhagsmunum yrði tjón að“? Hver treystir sér til að kveða hér upp dóm skv. þessum l.? Ef þau eru sett af sérstökum pólitískum mönnum, sem ráða í landinu, geta þeir dæmt eftir þeim sínum flokksmönnum í vil og sagt, að rit þeirra séu ekki til tjóns fyrir menningarlega hagsmuni, hvernig sem þau væru úr garði gerð. Það er verið að koma þarna með gerræði, og ég get alls ekki skilið, hvernig menntmn. leyfir sér að bera slíkt fram.

Þá kemur spursmálið um útgáfu íslenzkra fornrita. Ég býst við, að flestir séu sammála um, að fornritin séu sá dýrmætasti arfur, sem Íslendingar hafa erft, og þennan arf þyrftum við að vernda og gera hann að sameign allrar þjóðarinnar. En til þess þarf þjóðin að hafa aðgang að fornbókmenntunum; hún þarf að geta drukkið í sig anda þeirra, er þar ráða málum.

Það væri fullur fjandskapur við okkar fornrit, ef þau væru gerð að stofustássi svo innilokuðu, að meginið af þjóðinni hefði ekki aðgang að þeim. Ég býst við, að hjá sumum mönnum innan þjóðfélagsins sé tilhneiging til að torvelda þennan aðgang fólksins að fornritunum. Ég geng líka út frá því, að sá andi, sem ríkir í þeim, eigi ekki upp á pallborðið hjá þeim mönnum í þjóðfélaginu, sem bæla niður allar þær tilfinningar, sem hvetja fólk til dáða og sjálfstæðis. Við þekkjum allir, hversu mikið er til í okkar fornbókmenntum af sönnum uppreisnarmönnum, sem brjóta í bág við okkar þjóðfélag, og það er því ekkert undarlegt, að sumir menn vilji halda þeim sem lengst burtu frá fólkinu. Hins vegar álít ég, að fyrir alla, sem vilja efla sjálfstæðistilfinningar þjóðarinnar og styrkja meðvitund einstaklingsins um hans eiginn rétt, þá séu Íslendingasögurnar eitt af því dýrmætasta, sem við getum fengið til að þjálfa og skóla okkar uppvaxandi æskulýð í meðvitundinni um gildi sinnar persónu og þess, sem af honum er krafizt.

Nú er ekki efi á því, að gamla stafsetningin á fornritum okkar gerir það erfiðara að fá æskulýðinn til að lesa þau. Er ekki til neins að neita þessu. Hins vegar er þessi stafsetning að mestu leyti hrein tilviljun, búin til af nokkrum mönnum, sem gefið hafa út sögurnar eftir handritunum og breytt þá stafsetningunni mikið frá því, sem á handritunum er. Það er því einungis geðþótti þeirra, sem ráðið hefur þessari stafsetningu, og auk þess er hún ekki einu sinni fyllilega samræmd. Og við rekum okkur jafnvel á, að mjög ólík stafsetning er á Íslendingasögunum annars vegar og Noregskonungasögum hins vegar. Auk þess er margt í þessari stafsetningu, sem veldur því, að menn fá rangar hugmyndir um framburð málsins á söguöldinni, svo að stafsetningin er einnig fjarri því að vera vísindaleg.

Það mætti nú ætla, að það, hve mikið hefur verið gefið út af fornritunum, væri góður mælikvarði á það, hve vel okkur hefur tekizt, með tilstilli þessarar gömlu stafsetningar, að gera þau að sameign þjóðarinnar, en upplög þeirra hér á landi hafa ekki verið mikil, eins og kunnugt er. Og menn vita, hvernig fór um Heimskringlu. Tvisvar átti að fara að gefa hana út, en í bæði skiptin var hætt við það.

Ég hef spurt marga unga menn í Reykjavík, hvort þeir hafi lesið Íslendingasögurnar, og mér virðist sem lesendur þeirra meðal æskulýðsins séu tiltölulega fáir miðað við það, sem var meðan ég var að vaxa upp. Þessu veldur margt, en eitt af því er áreiðanlega stafsetningin.

Nú vil ég spyrja, hvaða goðgá það geti verið að gefa Íslendingásögurnar út með nútímastafsetningu. Fyrir því hafa ekki verið færð nein frambærileg rök. En svo er hitt: Hvað væri unnið með því að fá sögurnar með nútímastafsetningu, fá öll orð þeirra og orðatiltæki í nútímabúningi? Það mundi reynast ákaflega mikil auðgun nútímamálsins, en það er svo með þessa gömlu stafsetningu, að mönnum finnst sem margt af því, sem með henni er skrásett, sé ekki lengur regluleg íslenzka. Með því að gefa sögurnar út með nútímastafsetningu væri því íslenzkt mál auðgað stórlega á tímum, þegar þess er mikil þörf.

Hvernig stendur nú á því, að ekki hefur fyrr en þetta skapazt veruleg hreyfing í þá átt að koma Íslendingasögunum út til alþjóðar? Hér hefur nú lengi verið starfandi stofnun, sem kallar sig menningarsjóð og innlimað hefur í sig Þjóðvinafélagið. Þessi stofnun hefur notið ótakmarkaðs fjárhagsstuðnings ríkissjóðs, og get ég ekki gert mér í hugarlund, hve mikið fé þessi stofnun hefur fengið frá ríkinu. En skyldi hún hafa gert nokkuð til þess að gera fornritin að andlegri sameign þjóðarinnar? Í auglýsingum hefur verið skýrt frá því, að félagsskapur sá, sem kaupir bækur stofnunar þessarar, hafi 12000 menn innan vébanda sinna. Mér er kunnugt um, að gefið hefur verið út rit um Viktoríu Englandsdrottningu handa þessu fólki. Sagt er, að rit þetta sé þýtt á lélega íslenzku og lítt uppbyggilegt. En ég tel, að nær hefði verið fyrir slíkt fyrirtæki, sem segist hafa aðgang að öllum heimilum landsins, að reyna að koma dýrmætasta menningararfi okkar inn á hvert heimili. Þetta hefur ekki verið gert. En þegar hins vegar einn maður í fyrir tæki þessu heyrir, að nokkrir menningarfrömuðir landsins ætli að hefjast handa um að koma Íslendingasögunum inn á flest heimili landsins, þá rís hann upp og leggur til, að þetta verði bannað með 1. Hverju sætir þessi fjandskapur við fornbókmenntirnar? Óttast sumir, að menn verði ekki eins auðsveipir og áður, ef þeir lesa mikið um Gísla Súrsson, Gretti Ásmundarson og slíka? Ég man ekki eftir neinu dæmi frá öðrum þjóðum um svipaða afturhaldssemi. Ég býst við því, að Englendingar líti á Shakespeare sem ágætasta höfund sinn, en ég veit ekki betur en rit Shakespeares hafi á 19. öldinni verið umskrifuð handa börnum af einum helzta rithöfundi þeirra. Hér er ekki um það að ræða, að þessar endursagnir eigi að koma í staðinn fyrir frumritin, heldur er tilgangurinn sá, að þær veki áhuga unglinganna fyrir frumritunum. En að því er Íslendingasögurnar snertir, hefur aldrei komið til mála að breyta þar öðru en stafsetningunni. Þó tel ég vert, að hv. menntmn. athugaði það viðvíkjandi ákvæðinu um, að ekki megi umskrifa rit, hvort þessi l. geta ekki, ef þau ná fram að ganga, komið í veg fyrir ýmislegt, sem gæti aukið andlega eign þjóðarinnar, því að stundum hefur, eins og kunnugt er, efni verið tekið úr sögunum og notað í skáldskap. Ég veit reyndar ekki, hvort slíkt yrði talin umskrifun skv. þessu frv. Oft hefur það líka komið fyrir, að rithöfundar hafa tekið ýmislegt hver eftir öðrum, og hefur þá stundum verið kveðið svo að orði, að einn hafi stolið frá öðrum. Shakespeare hefur t. d. verið kallaður „ræninginn mikli“ fyrir slíkar sakir. En ég er viss um, að erfitt hefði Shakespeare reynzt að starfa og skapa skáldverk sín í andrúmslofti, sem hv. þm. S.-Þ. hefði verið búinn að eitra með svona 1.

Það má segja, að ekki sé verið að fara smásmugulega í hlutina. Ef einhvern mann uggir, að hagsmunum hans stafi hætta af útgáfu einhvers rits, og sé hann nógu voldugur, getur hann fengið því framgengt með öruggum hætti, að allt upplag ritsins sé eyðilagt. Það má ekki einu sinni halda eftir einu eintaki handa bókasafni. Það eru bókabrennur sams konar og hjá Hitler, sem hér á að lögleiða. Er furðulegt, að slíkt skuli geta komið fram á Alþ. Vitanlegt er, að tilefnið er ekki annað en það, að einum manni er illa við annan mann, hv. þm. S.-Þ., Jónasi Jónssyni, er illa við helzta rithöfund þjóðarinnar, Halldór Kiljan Laxness, og þegar J. J. heyrir, að H. K. L. ætlar að gefa út Laxdælu með nútímastafsetningu, þá ásetur hann sér að koma í veg fyrir það. Fornbókmenntirnar mega ekki komast inn á heimilin, nema þá í túlkun J. J., eins og hún kemur fram í Íslandssögu hans. Ég hef að vísu ekki við höndina stafsetningu Jónasar á Íslendingasögunum, þá, sem hann notar í tilvitnunum sínum í Íslandssögunni, en ég vona, að ég geti haft hana við næstu umr. Það yrði leiðinlegt, ef þá kæmi í ljós, að þá bók yrði að brenna, af því að höfð væri nútímastafsetning á tilvitnunum þessum.

Ég held, að bezt væri, að þetta frv. færi aftur til hv. menntmn., til þess að hún gæti athugað betur, hvað hún er að samþ. Það hefur nú verið talað svo mikið um ábyrgð á þessu þingi. Gaman væri nú að vita, hver er ábyrgur fyrir frv. þessu. Hv. nm. lýsa yfir því, að þeir hafi óbundin atkv. um einstakar gr. frv. Hér hefur raunar enginn Þeirra tekið til máls nema hv. frsm. n., en hann lét sem hann væri ekki hrifinn af frv. (BjB: Ég gaf hv. þm. ekkert tilefni til að segja þetta.) Mér virtist ræða hans benda til þess. En hvað sem því líður, legg ég til, að frv. fari aftur til hv. n.