18.11.1941
Neðri deild: 22. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 91 í B-deild Alþingistíðinda. (262)

19. mál, rithöfundaréttur og prentréttur

Frsm. (Bjarni Bjarnason) :

Þegar þetta mál

var til fyrstu umr., var því vísað til 2. umr. með því samkomulagi, að menntmn. athugaði málið dálítið nánar með tilliti til hugsanlegra breytinga.

Aðeins 4 af menntmnm. þessarar hv. d. eru hér nú staddir, en við gátum ekki náð saman fundi nema 3, og erum við flm. þessara brtt. á þskj. 55, en fjórði nm., hv. þm. Dal., hefur nú séð till. og telur sig þeim samþykkan.

Um verulega breyt. á frv. er ekki að ræða aðra en þá, sem um getur í 2. gr., að íslenzka ríkið eitt hafi rétt til að gefa út íslenzk rit, sem samin eru fyrir 1400. Fyrstu grein frv. er að vísu dálítið breytt að orðalagi, og 2. gr. er felld við í okkar brtt., og vænti ég þess, að hv. þdm. geti fallizt á, að þetta fari betur saman. Við flm. þessara brtt. væntum þess enn fremur, að það þyki rétt að koma í veg fyrir, að einstakir menn taki fornritin okkar og gefi þau út í því formi, sem þeim sýnist. En með ákvæðinu í 2. gr., ef að 1. verður, er loku fyrir það skotið, að einstakir menn geti tekið fornritin og gefið þau út á eiginn kostnað og sjálfum sér til hagnaðar. Þó er gert ráð fyrir, að kennslumálarn. geti veitt leyfi til slíkrar útgáfu og enn fremur gert að skilyrði, að fylgt sé samræmdri stafsetningu fornrita. Þá er og undantekning frá þeirri reglu, að hið ísl. ríki eitt hafi rétt til að gefa út í sl. rit, sem samin eru fyrir 1400. Hún er gerð gagnvart Hinu íslenzka fornritafélagi, sem er nú, eins og kunnugt er, að gefa út Íslendingasögurnar og önnur fornrit. Nefndin taldi ekki rétt, að þetta félag þyrfti að sækja um leyfi til framhaldsútgáfu fornritanna né að skertur yrði að nokkru leyti sá réttur, sem það nú hefur.

Um brtt. sjálfar tel ég ekki ástæðu að fara fleiri orðum. Það getur vel verið, að eitthvað komi fram í umr. um þær, sem verða kunna á eftir, og má þá skýra þær nánar. Mér finnst hins vegar rétt að fara nokkrum orðum um þetta mál í heild. Og vil ég þá fyrst segja það sem mína persónulega skoðun, að mér finnst ástæða til að athuga, hvort látið skuli óátalið, að einstakir menn hafi það að féþúfu að taka fornritin okkar og gefa þau út. Í því felst auk þess sú mikla hætta, að þau verði þynnt út. Á það sjónarmið í uppeldismálum að ráða, sem vinnur að því að tyggja í æskuna? Væri ekki vænlegra að láta hana stæla krafta sína, andlega og líkamlega, á verkefnum, þar sem úrlausnin er árangur eigin snilli samfara eljusemi, hugviti eða skerpu? Hvert einasta barn getur stafsetningar vegna lesið Íslendingasögur. Það ætla ég að leyfa mér að fullyrða. Ég tel skömm að því að eyða tíma í að kenna börnum erlend mál, en letja þau samtímis þess að lesa fornsögurnar á samræmdu máli, af því að sá lestur sé of erfiður. Þó skal ég geta þess, að ég tel ekki aðalatriðið, hvort þau eru gefin út með normalíseraðri eða lögboðinni stafsetningu á hverjum tíma.

Æskan les með minna móti nú. Það er ókyrrð í þjóðlífinu og á henni alið á margan hátt. Landið hefur á fáum árum opnazt fyrir umheiminum. Þjóðin var óviðbúin og þurfti sinn tíma til að þroskast í hinu nýja umhverfi. Við þetta bætist hernámið og þær afleiðingar, sem af því hlýtur að leiða. Það er hættulegt nú að kappkosta að telja fólki trú um, að það eigi ekki að reyna á sig, það sé t. d. of mikill þrældómur að lesa fornsögurnar með samræmdri stafsetningu. Mér þykir ekki ósennilegt, að unnið sé að því nú, að skólabörn verði látin heimta fornsögurnar með nýju stafsetningunni.

Það er vitanlega ósannað mál, að almenningur vilji ekki lesa fornsögurnar með fornri stafsetningu. Það sýnir fornritaútgáfan, þegar Alþ. hefur séð sóma sinn í því að stilla svo til, að hægt sé að selja bækurnar ódýrar. Nýlega bárust t. d. um 100 áskoranir úr einni sveit á Vestfjörðum um það að selja bækurnar svo vægu verði, að fólk gæti keypt þær. Þeir menn, sem hafa áhrif á það, hvað fólk les, ættu að vinna að því að koma fornritunum inn á hvert heimili í landinu. Reynslan sker svo úr því, hvort þörf er á að reyna aðrar leiðir en nú eru farnar með fornritaútgáfuna.

Nýlega er kominn fram á sjónarsviðið nýr bókaútgefandi, kaupmaður hér í bænum, sem hefur auðgazt mikið á að selja almenningi „margarine“. En vegna verðlagseftirlits gat hann ekki lengur auðgazt á því. Hann fékk því í lið með sér sæmilega vinnufæra menn, sem meta það mikils að fá erfiði sitt allvel borgað. Þeir fóru að gefa út bækur og völdu sér Íslendingasögur til þess, samkv. lýsingu, sem ég hef einhvers staðar lesið um fyrirhugað fyrirtæki í þessu sambandi. Þessir menn vinna nú aðeins á fyrsta stigi þess skemmdarverks að telja ungu fólki trú um, að það eigi ekki að lesa fornmálið, heldur þær bækur, sem birtar eru með þeirri stafsetningu, sem lögboðin er á hverjum tíma. Undantekningar megi þó gera, ef til séu móðins rithöfundar, þrátt fyrir það, að þeir afskræmi málið. Ég skal síðar koma að því, hvernig framhaldið verður.

Nútímastafsetning er góð og blessuð. En að einstakir menn hafi leyfi til að taka fornritin og verzla með þau, því mun ég leggja á móti.

Þrátt fyrir það, að liðnar séu 7 aldir síðan Íslendingasögur voru ritaðar, eru margar þeirra hrein sígild listaverk, bæði að efni og búningi, fagur og fágætur vottur fornrar þjóðlegrar menningar, sem ástæða er til að miklast af. Mætti í þessu sambandi nefna sögur eins og Egilssögu, Njálssögu, Gunnlaugssögu ormstungu og síðast, en ekki sízt, Laxdælasögu. Sú bók er nú upp gengin hjá fornritaútgáfunni. Halldór Kiljan Laxness er fenginn til að snúa henni í form nútímastafsetningar. Bókin er komin á markaðinn, og er nú borin út í stórum stöflum sem gjafabók. Bókin átti að skreytast með myndum. Ég hygg, að Tryggvi Magnússon hafi átt að yrkja söguhetjurnar í myndum. En mikið lá við. Myndunum varð að fleygja, og að prentun var látið vinna nótt og dag, af ótta við, að Alþ. gripi inn í og kæmi í veg fyrir braskið. Hví varð Laxdæla fyrir valinu? Að líkindum vegna þess, að hún var uppseld hjá fornritaútgáfunni, og þess vegna meiri líkur fyrir eftirspurn og þar með vitanlega hagnaði.

Ég get ekki stillt mig um að geta þess, að ég hef á a. m. k. 2 stöðum heyrt talað um, að komin væri út ný skáldsaga eftir Halldór Kiljan Laxness, og þetta væri ástarsaga, þar sem bræður 2 hefðu barizt um sömu konu. Þetta er dálítið ósennilegt, en á 2 stöðum hef ég orðið var við þetta. En þetta sýnir bara það, hversu fákunnandi margt fólk í Reykjavík er í Íslendingasögum. En ég geri mér ekki miklar vonir um, að þessi aðferð til að kenna fólki að lesa sögurnar verði svo farsæl, að hún nái því marki, sem útgefendurnir hafa látið í ljós, að þeir ætluðu sér. Og þó skal ég enn einu sinni taka fram, að ég tel þessa útgáfu ekki þannig, að ástæða sé til að hefjast handa gegn henni. En þeir, sem renna grun í, hvernig framhaldið verður, hljóta að stöðva þetta.

Nú er því haldið fram, að þetta, að snúa Íslendingasögum á nútímastafsetningu, eigi að vera til þess að auðvelda fólki lestur þeirra og skýra sögurnar betur. Ég hef áður lýst skoðun minni á þessu og ætla ekki frekar út í það. En sami maðurinn, sem gefur út þessa sögu, segir svona í formálanum, með leyfi hæstv. forseta : „Er sem snillingurinn sé lengi að þreifa fyrir sér á hljómborðinu, og kemur niður á ýmis lög og lagabrot, sum rismikil, önnur dulúðug eða skopleg, en í lausu orsakasambandi innbyrðis, stundum jafnvel engu, en slær aðeins endrum og sinnum nokkra kontrapunktiska tóna höfuðtemans, sem ríkir þó leynilega yfir hug hans bak við öll önnur temu, unz það brýzt fram í seinni hluta verksins af óstöðvandi þunga og alhrífur höfund sinn“ — Þetta stendur nú í formála þeirrar bókar, sem á að vera enn þá skiljanlegri fyrir þann hluta manna, sem misskilur fornritin á samræmdri stafsetningu. Þó þetta sé kannske ekki sérstaklega vitlaust, þá er það einkennilegt að vera að hrúga þarna saman orðum, sem börn og unglingar vitanlega ekki skilja, fyrir utan það, að þetta er ekki íslenzkt mál, sem þarna er flutt.

Þá ætla ég að koma að því, sem ég held, að verði nr. 2, en það er það, að farið verður að endursegja sögurnar. Það verður næsta stigið.

Og ég get sagt það hér með vissu, að Grettis saga hefur verið tekin og endursögð í því formi, að hún yrði aðgengilegri aflestrar fyrir börn og unglinga. En það var komið vitinu fyrir þá menn, sem að því stóðu, áður en bókin var prentuð, og þeim sagt, að það væri gott að fá þessa bók til þess að tæta hana svo í sundur, að það kæmi ekki fyrir aftur. En verði útgáfan frjáls, verður þetta næsta stigið. Og getur nokkrum manni fundizt mikið vit í því, að farið verði að gera Íslendingasögurnar aðgengilegri fyrir þá ódómbæru, sem ekki þekkja þær í sinni upprunalegu mynd, með því að færa þær í einhvern ævintýrabúning?

Þá hefur það verið boðað af þeim, sem að þessu standa, að þeir mundu fella niður ýmsa kafla úr bókinni og ættartölur. Það þarf enga bókfróða menn til þess að líta á þetta sem fjarstæðu. Þetta bjóða fornsögurnar ekki. Þær bjóða nafn söguhetjunnar ásamt með ættartölum, og það er mjög mikils virði, og á því illa við að sleppa ættartölum úr fornsögunum. Það er og óhæft, að einstakir menn fái að fella úr kafla alveg eftir eigin geðþótta, og máli mínu til sönnunar vil ég lesa hér, með leyfi hæstv. forseta, kafla úr formála Laxdælu eftir Halldór Kiljan Laxness. Hann segir á þessa leið : „Í þessari útgáfu, sem byggist á þeirri, er dr. Einar Ól. Sveinsson hefur gert á grundvelli handritasamanburðar fyrir fornritafélagið, hefur verið sleppt nokkrum þeim þáttum og greinum, sem fjarstar standa höfuðyrkisefni verksins og því líklegastar að torvelda almenningi ljósan skilning á bókinni og skemmtun af henni.“

Þarna er slegið föstu, að Halldór Kiljan geti ákveðið, hvað hann telji standa fjarst yrkisefninu, og er slíkt óþolandi, því að lesendurnir sjálfir geta fellt burtu þá kafla, sem þeim þykir ekki gaman að eða að þeirra dómi eru fjarstir yrkisefni bókarinnar. En að láta einstaka menn fá að ákveða slíkt, nær engri átt. Bollaþætti er sleppt úr þessari nýju útgáfu, og þó það geri ekkert til eða lítið, þá er þetta þó bessaleyfi.

Skemmdarverk nr. 3 verður þá að taka sögurnar og skrifa þær um eftir eigin geðþótta, og þá hef ég gefið yfirlit yfir útþynningu þá, sem er að hefjast. Í fyrsta lagi að breyta málinu, fella úr kafla og ætturtölur. Í öðru lagi að endursegja sögurnar í barnslegu formi, og í þriðja lagi að umskrifa þær í eigin formi þess, sem það gerir. Ég vil taka dæmi, sem að vísu er fjarskylt þessu, en sýnir þó vel, hvað ég á við með útþynningu.

Fyrir hérumbil 100 árum var kennari á Bessastöðum Sveinbjörn Egilsson, viðurkenndur bókmenntafræðingur. Hann tókst á hendur að þýða Ódysseifskviðu á íslenzku, bæði í bundnu og óbundnu máli. Þetta rit er víða til hér á landi og er viðurkennt af öllum sem listaverk. Ýmsir höfundar úti í heimi hafa haft svipað verk með höndum og Sveinbjörn, og má þar nefna danska skáldið Henrik Pontoppidan. Hann tók Ódysseifskviðu þó á annan hátt heldur en Sveinbjörn Egilsson, því að hann færði hana í ævintýralegan búning og endursagði hana við hæfi barna og unglinga. Langar leiðir eru milli þessarar Ódysseifskviðu og þeirrar, er Sveinbjörn Egilsson þýddi, og er varla hægt að hugsa sér Ódysseifskviðu í fullkomnara formi en hjá honum.

Nú er búið að þýða bók Pontoppidans á íslenzku, og er hún komin út. Sá, sem hefur þýtt hana, er Steinþór Guðmundsson kennari. Á titilblaði bókarinnar stendur: „Ævintýralegar frásagnir úr Ódysseifskviðu Hómers, endursagðar við hæfi barna og unglinga“, og neðar stendur: „Víkingsprent“. Ég vil nú til gamans bera saman ýmsa kafla í þessum tveimur bókum, Sveinbjarnar og Pontoppidans, og geri það til frekari skýringar á orðinu útþynning, og ég óttast, að þannig geti farið með Íslendingasögurnar í framtíðinni. Á bls. 212 hjá Sveinbirni Egilssyni stendur: „Skriður mikill var á skipinu, og renndi það á land upp mjög til hálfs, svo var því róið knálega.“ Hjá Steinþóri Guðmundssyni á bls. 152 lítur þetta þannig út: „Þangað stefndu þeir skipinu og réru því hálfu á þurrt land með því að skerpa dálítið róðurinn síðasta sprettinn.“ Á bls. 276 hjá Sveinbirni Egilssyni stendur svo: „Þó tregaði hann föðurland sitt og reikaði mjög harmþrunginn fram með strönd hins brimótta hafs.“ Hjá Steinþóri Guðmundssyni á bls. 153 er þessu snúið þannig : „Meðan hann var þannig að barma sér og gekk þungstígur um fjöruna.“ Hjá Sveinbirni Egilssyni á bls. 282 stendur á þessa leið: „Að því mæltu brá gyðjan burt hulunni, og sást þá landið. Þá gladdist hinn raunamæddi Ódysseifur og þótti vænt um að sjá föðurland sitt, hann kyssti hina kornfrjóu jörð.“ Hjá Steinþóri Guðmundssyni á bls. 155 er þetta þannig : „Meðan hún var að tala, dreifði hún þokunni, svo Ódysseifur þekkti landið sitt, laut til jarðar og kyssti jarðveginn.“

Ég tel, að með þessu sé að óþörfu verið að þrengja upp á æsku þjóðarinnar þvældri og afbakaðri þýðingu og vil spyrja: Á þetta lengi að halda svona áfram? Svo eru ýmsir menn, sbr. grein Arnórs Sigurjónssonar í Þjóðólfi um daginn, að segja, að þessir menn séu að frelsa þjóðina með útgáfu rita sem slíkra. Vel má vera, að þessir menn geti hrifið æsku landsins, en dettur nokkrum í hug, að þessum mönnum sjálfum komi til hugar, að þeim takist það á þennan hátt? Þó þeim takist að koma sögunum til lestrar, þá er þó ljótt til þess að hugsa, hvaða aðferð þeir beita.

Ég vona, að hv. þm. sjái, að hér þarf að taka í taumana, áður en lengra er farið, og láta ríkið framvegis ráða útgáfu og meðferð hinna íslenzku fornrita.