19.11.1941
Efri deild: 21. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 102 í B-deild Alþingistíðinda. (273)

19. mál, rithöfundaréttur og prentréttur

Magnús Jónsson:

Mér finnst alveg ómögulegt að láta mál, sem er svo mikils varðandi, að það getur varðað menningu okkar alla og tungu, fara svo hér um garð, að ekki sé einu sinni á það minnzt. Ég verð að segja, að mér finnst í raun og veru, að þetta Alþ., sem hefur nú setið hér í 6 vikur, hefði nú eiginlega átt að hafa nógan tíma til þess að afgreiða ýmis svona mál, sem lágu utan við það beint pólitíska svið, og koma þeim þannig frá, að þau hefðu ekki annaðhvort þurft að tefja þingið eða vera afgr. órannsökuð, og mér sýndist sá svipur á þessu máli, þegar það kom fram, að ólíklegt væri, að það yrði afgr. á þessu þingi. og gaf ég málinu lítinn gaum og fylgdi því lítið eftir í Nd., en þaðan var það afgr. fyrir nokkrum mínútum. Ég var að lesa frv. yfir meðan atkvgr. fór fram um afbrigðin, til þess að sjá, hvernig það væri, og þótti mér rétt að sitja hjá, og ég verð að segja það, að mér sýnist málið þannig vaxið, að leiðinlegt væri, ef þetta Alþ., sem ekki þykir athafnamikið, þó ég verði að játa, að seta þess er réttlætanleg af því, sem fyrir lá, nfl. erfiðleika um stjórnarmyndun að leiðinlegt væri, ef það léti það vera hér um bil sitt eina afrekað afgreiða löggjöf eins og þessa.

Alþ. er ríkisins langvoldugasta stofnun. Fyrir mínum leikmannsaugum hefur það hér um bil ótakmarkað vald. Æðsta valdið liggur hjá þjóðinni, en hún felur Alþ. að fara með þetta vald, sem er markað af stjórnarskránni, en einnig henni hefur Alþingi vald til að breyta, er þjóðin hefur látið vilja sinn í ljós við kosningar, og þess vegna ræður það yfir stjórnarskránni sjálfri.

Ég segi þetta ekki vegna þess, að ég ætli að halda hér fræðilegan fyrirlestur, en vildi aðeins benda á það, að sú stofnun, sem hefur þetta vald, verður að gæta þess, að þessu valdi fylgir ábyrgð. Ég vil segja það fyrir mitt leyti og skv. minni stefnu, — og ég hélt, að það væri líka stefna míns flokks. —, að ég tel, að löggjöfin eigi ekki að seilast inn á fleiri svið en þörf er á. Ef á að setja löggjöf um slíkt mál sem þetta, mætti með sama rétti setja lög um að láta menn í gapastokkinn fyrir að fara ekki í kirkju. Alþ. hefur áður flaskað á atriði svipuðu þessu, t. d. um mannanöfnin. Um slík mál á að deila í blöðum og á mannfundum. Þeir, sem beita sér fyrir málunum, eiga að koma þar fram. Einmitt löggjöf eins og þetta er vantraustsyfirlýsing á menningu þjóðarinnar. Meðan ekki er um að ræða, að verið sé að grafa undan þjóðskipulagi eða góðum siðum, á löggjöfin ekki að grípa inn á þetta svið. Það gætu þá komið l. um, í hvaða formati ætti að gefa út fornritin. Um það frv. sérstaklega, sem hér liggur fyrir, verð ég að segja, að ég viðurkenni þá hugsun, sem þar liggur á bak við, eins og ég á sínum tíma hefði kannske getað viðurkennt, að það bæri að setja menn í gapastokkinn fyrir að fara ekki í kirkju. En í frv. er allt svo óákveðið. Fornsögurnar mega ekki vera með þeim „málblæ“, að menning og tunga þjóðarinnar bíði tjón af. Hver á að dæma um þetta? Af hverju bíða menningin og tungan tjón?

Í hv. Nd. komst sú breyt. inn, að öllum er bannað að gefa út rit, sem samin eru fyrir 1400, nema til fáist sérstakt leyfi. En eins og háðsmerki kemur önnur málsgr., sem segir, að samt megi Hið ísl. fornritafélag gefa út fornrit. En gætu nú ekki komið fram á sjónarsviðið jafnindæl félög og Fornritafélagið, t. d. Bókmenntafélagið eða Sögufélagið? Þau yrðu þá kannske að hætta við sínar útgáfur. Ef fornbréfasafnið væri ekki komið, yrði ríkið að taka í taumana. Bókmenntafélagið hefði ekki mátt gefa út Biskupasögurnar á sínum tíma, og svona mætti lengi telja.

Mér er sagt, að ástæðan til þess, að frv. þetta er fram komið, sé, að um það fréttist, að það átti að fara að gefa út Laxdælu með breyttri stafsetningu, sem nú er komin út. Ég hef ekki séð þá útgáfu, en ég hef oft séð kafla úr Íslendingasögum í öðrum ritum og tilvitnanir færðar í nútímastafsetningu, og ég hef alltaf fyllzt aðdáun á því, hvað málið er í raun og veru óbreytt. Maður getur næstum lesið langa kafla án þess að taka eftir því, að hér er komið hið forna mál. En það er einmitt hin forna stafsetning, sem hefur haldið við þeirri firru, að um tvö mál sé að ræða. Það má ekki fara með þetta eins og eiturlyf, sem bara er hægt að fá gegn sérstöku recepti. T. d. í lesbókum fyrir skóla ætti að gefa út kafla úr fornritum með okkar stafsetningu. Enginn maður skrifar nú eins meistaralegan stíl eins og er á okkar beztu fornritum.

Ég hefði kosið að tala miklu meira um þetta mál, en það kom hingað í d. mér að óvörum. Mér datt satt að segja ekki í hug, að hv. Nd. mundi gera svo lítið úr sér að fara að afgreiða málið. Það mátti ræða það fram og aftur og láta það svo bíða. Ég held, að okkur takist ekki að vernda menningu okkar, ef hún er svo á heljarþröminni, að eitthvað ætti að geta komið fyrir til næsta þings, sem skemmdi hana til muna.

Ég get ekki fylgt þessu frv., í fyrsta lagi af því, að ég er því mótfallinn almennt, að þingið afgreiði slíka löggjöf um mál, sem á að réttu lagi að gera út um á frjálsum vettvangi, og í öðru lagi fæ ég ekki séð, að þetta sérstaka tilfelli, sem um er að ræða, sé svo hættulegt, að rétt sé þess vegna að einoka okkar bókmenntir. Ég álít þvert á móti rétt að gera tilraun sem þessa. Fornritin eru lítið lesin nú, meðfram vegna stafsetningarinnar, sem á þeim er. Ég segi fyrir mig, að ég las ekki Íslendingasögur fyrr en ég var orðinn töluvert stálpaður, vegna stafsetningarinnar. Ég greiði atkv. á móti frv., enda er málið rekið áfram með ofurkappi með margföldum afbrigðum, mál, sem ekkert liggur á.

1) MJ: Í því trausti, að menning okkar og tunga sé ekki svo veik, að hún haldi ekki út til næsta þings, greiði ég ekki atkv.