19.11.1941
Efri deild: 21. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 104 í B-deild Alþingistíðinda. (274)

19. mál, rithöfundaréttur og prentréttur

Árni Jónsson:

Ég hafði ekki ætlað að taka til máls við þessa umr. og er því óundirbúinn. Ég verð að taka undir það með síðasta ræðumanni, að málið er ekki svo úr garði gert, að gerlegt sé að afgreiða það. Það kann að vera hægt að breyta frv. til betri vegar, en nú er komið svo nærri þinglausnum, að það mun verða erfitt.

Það er tekið fram í grg. frv., hvert er tilefni þess, að það er fram komið. Þar segir svo : „Þar eð skýrt hefur verið opinberlega frá ráðagerð um að gefa fornrit vor út með nútímastafsetningu, stytt og jafnvel umrituð, en slíkt verður að teljast viðsjárvert, ef engar takmarkanir verða settar, þykir rétt, að sett verði lög, sem komi í veg fyrir, að þeim miklu bókmenntaverðmætum, sem þjóðin hefur tekið að arfi frá fyrri kynslóðum, verði þannig stefnt í voða“

Tilefnið mun vera það, að í því blaði, sem ég er við riðinn, birtist sú fregn, að í ráði væri að gefa út fornritin með nútímastafsetningu og jafnframt umrituð. Ég skildi þetta svo, að umrita ætti fornsögurnar á nútíðarmál, og það varð til þess, að ég skrifaði grein og gerði ráð fyrir, að svo kynni að fara, að ef hin fræga setning Guðrúnar Ósvífursdóttur : „Þeim var ek verst, er ek unna mest,“ yrði þýdd á nútímaíslenzku, gæti hún orðið svona : „Auðvitað kynntist ég mörgum agalega sætum strákum, þegar ég var ung, en til allrar bölvunar var ég langtíkarlegust við þann, sem mér þótti vænst um.“

Tilkynningin um útgáfu þessa hafði líka farið í taugarnar á hv. þm. S.-Þ., og það varð, sem sjaldan skeður, að við vorum „á sömu línu“, en hvorugur hafði haft skap til að lesa tilkynninguna til grunna. Það kom í ljós, að það var ekki eins mikill háski á ferðum og við höfðum ætlað. Ég held samt, að það hafi verið gott, að við skyldum misskilja þetta svo, því að ég er fullviss um, að greinar okkar hv. þm. S.-Þ. hafa orðið til þess, að enginn bókaútgefandi lætur sig henda þá ósvinnu í næstu 100 ár að fara að þýða fornbókmenntir okkar á nútímaíslenzku. Við ættum að taka upp þykkjuna fyrir það, að frv. er fram komið, því að það er vantraustsyfirlýsing á okkur. Við höfum vakið krítik og skapað almenningsálit, sem hvort tveggja verður bezta stoðin til að vernda okkar fornu rit. Það er svo margt annað í sambandi við okkar bókaútgáfu, sem getur orðið menningu okkar að tjóni, að rétt væri að snúa sér að því fyrst. Það er nauðsynlegt að gefa út tímarit, sem heldur uppi hlutlausri kritik. Kritik er nú svo lítils virði, að menn eru hættir að leggja neitt upp úr henni. Útgefendur sjálfir held ég jafnvel, að haldi uppi gagnrýni.

Það fyrsta, sem ég sá á prenti eftir hv. þm. S.-Þ., var kritik um svæsinn reyfara fyrir eitthvað 30 árum. Bókin hét : „Hinn óttalegi leyndardómur eða brúðkaupsnóttin, sem enginn skildi“ Það væri ekki síður nauðsynlegt nú að taka í gegn ýmislegt af hinum svo kölluðu bókmenntum.

Frv., sem hér liggur fyrir, hefur að vísu tekið ýmsum breyt. í Nd., en er samt æðigallað, eins og hv. síðasti ræðumaður benti á. Í 1. gr. er komizt svo að orði, að ekki megi „birta rit hans (rithöfundar) breytt að efni, meðferð eða málblæ, ef breyt. er svo háttað, að menning og tunga þjóðarinnar bíði tjón af“. Hver á að dæma um það? Ég held, að það verði erfitt fyrir pólitíska ráðherra að þurfa að skera úr þessu. 1. gr. segir síðan: „Eigi má heldur sleppa kafla úr riti, nema þess sé greinilega getið í útgáfunni: Má þá sleppa svo og svo miklu, ef þess er aðeins getið, að það sé gert?

Ég tel alveg ástæðulaust, að ríkið eitt fari að sjá um útgáfu rita, sem eru samin fyrir 1400, enda er strax gerð ein undantekning.

Ýmsir menn, þ. á m. hv. þm. S.-Þ., hafa tekið upp kafla úr fornsögum í sínar bækur, breytt þeim að stafsetningu og jafnvel að orðfæri. Hv. þm. S.-Þ. ætti því ekki að telja það höfuðglæp, þegar aðeins er um að ræða að breyta stafsetningunni. Ég hef blaðað í Laxdælu hinni nýju, og þegar maður er búinn að lesa eina eða tvær síður, fer maður að gá á kápuna, hvort rétt sé skilið um stafsetninguna. Ef þetta gæti orðið til að hæna fólk að fornsögunum, held ég, að mjög vel sé farið.

Ég sé ekki, að við getum afgr. málið í því formi, sem það er. Hins vegar má kannske lappa eitthvað upp á þetta frv., en þá verður bara að hafa til þess tíma. Og ég vona, að hv. form. menntmn., af sinni alkunnu sanngirni, sjái um, að við fáum að ræða út um málið, úr því að hv. Nd. hefur ekki getað afgr. það öðruvísi en að demba því í okkur á þessum síðustu dögum þingsins.

Ég ætla svo ekki að hafa þessi orð fleiri að sinni.