19.11.1941
Efri deild: 21. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 107 í B-deild Alþingistíðinda. (277)

19. mál, rithöfundaréttur og prentréttur

Magnús Jónsson:

Ég skal nú ekki tefja mikið afgreiðslu þessa nauðsynjamáls, sem þjóðin sjálfsagt mun dæma um, hvort hafi verið nægilegt afrek fyrir Alþ. að hafa afgr. eitt mála. En ég vonast til, að hæstv. fjmrh. fái tilbærilegar þakkir fyrir málsvörnina hér.

Ég man nú ekki, hvernig ummæli ég viðhafði um hv. Nd., en ég sagði víst eitthvað á þá leið, að mér þætti það vanvirða, hvernig hún afgr. þetta mál. Það var ekki meiningin að viðhafa neitt óþinglegt orð, en þetta er engan veginn í fyrsta skipti, sem Alþ. gerir sér vanvirðu með hreinni hégómalöggjöf.

Hæstv. fjmrh. taldi þennan dóm minn því ósanngjarnari sem ég hefði ekki lesið frv. En það stafar af þeirri þinglegu afgreiðslu, sem er þannig, að manni gefst ekki tími til að sjá málið. Annars er það eitt um þetta frv. að segja, að það er um mál, sem löggjöf á ekki að koma nálægt, fyrr en séð er, að slíkt sé brýn nauðsyn. (Fjmrh.: Það á að byrgja brunninn, þegar barnið er dottið ofan í!) Er nokkur ástæða til að byrgja brunn, sem ekki er til? Er nokkur hætta á, að menn detti ofan í nokkurn brunn? Þeir, sem því halda fram, eru bara að berjast við vindmyllur. Hvað er nú að ske í þessu máli svona ógurlegt? Hæstv. ráðh. sagði, að það ætti að girða fyrir, að fornritin væru gefin út á öðru en íslenzku. Þau hafa nú verið gefin út á öðrum málum. Og ég sé enga synd í því. Ætti ekki að banna að þýða þau á dönsku og ensku? Það er að skilja, að þau lifi aðeins á þessari fornu samræmdu stafsetningu. Það er ekki amalegt. Og það er um að gera að gefa þau út í þessum sama búningi. Annars er allt í voða. Þetta er það dæmalausasta vantraust á menningu okkar og tungu. Alþ. mundi sjálfsagt banna að gefa þau út á öðrum málum, ef það gæti það. En ég býst við, að aðrar þjóðir þykist hafa rétt til þess, og það er sennilega það eina, sem gerir það að verkum, að þau fást þýdd. Mér þykir meiri hörmung að sjá Íslendingasögurnar á dönsku en nútíma íslenzku. Ég er aftur á móti fullkomlega sammála hæstv. ráðh. um það, að ekki eigi að taka fornritin og þýða þau á nútímamál eins og „Laxnessku“. En ég er ósammála honum um, að setja eigi löggjöf um þetta mál. Er þjóðin þá orðin svo dómgreindarlaus, að það þýði ekki að skrifa um það og sannfæra hana? Ég álít, að þetta sé mál, sem eigi að afgr. á almennum vettvangi. Ég er samþykkur því, sem hv. 9. landsk. sagði, að Alþ. gangist fyrir því, að gefið yrði út verulega gott bókmenntarit, sem yrði áhrifaríkt afl í landinu.

Ef maður þekkti ekki fornritafélagið og þá, sem að því standa, gæti maður helzt hugsað, að þetta væri runnið undan rifjum þeirra, sem hefðu hagsmuna að gæta af að sitja ekki uppi með rit sín. En maður veit, að um það er ekki að ræða í þessu sambandi.

Hæstv. ráðh. var að tala um það, að þessu hefði ekki verið dengt yfir þessa hv. d. (Fjmrh.: Var það Nd., sem gerði það?) Nei, hv. Nd. var víst alllengi með þetta. Það hefur nú ekki verið „fartin“ á málinu hjá henni. (JJ: Það hefur nú verið rólega farið hér.) Það átti auðvitað að slíta Alþ. í dag. Það sat aðeins yfir því, að mynduð yrði ný ríkisstj., og þegar það var búið, átti að hætta þegar í stað. Það var hægðarleikur að afgr. þau fáu mál, sem fyrir lágu og nauðsynlega þurfti að ganga frá. En ef þetta mál á að fá þinglega meðferð, þá skilst mér, að Alþ. ætti að sitja hér upp undir viku, áður en það yrði afgr. Þá fyrst fengi málið sómasamlega meðferð. Fyrst hefðu átt að líða 2 nætur frá því málið var afgr. frá Nd., síðan hefði átt að vísa því til n. og n. að fá svo sem einn dag til að athuga málið. Svo átti að gefa þdm. tækifæri til að athuga nál. Þetta væri sú þinglega venja, og þá fyrst, ef hún væri viðhöfð, gæfist tækifæri til að athuga þetta mál. Og þá kæmi í ljós, hvort það væri þess vert að samþ. það. Ég verð að láta í ljós verulega hryggð yfir, að þetta mál skuli fá þessa meðferð. Og helzt átti það aldrei að koma fram. Að vísu má segja, að það megi sýna ýmis mál, en Alþ. á að hafa dómgreind til að vísa því frá, sem ekki á erindi hingað.

Ég get því miður ekki huggað hv. 5. landsk. vegna Dalamanna. Ég veit ekki, hvort þeir spillast mikið á þessari útgáfu. — En hvernig er það? Ætli Dalamenn lifi mikið á Laxdælu? (ÞÞ: Yfirleitt lifa menn ekki beinlínis á pappír.) Það væri gaman, ef til væru einhverjar skýrslur um það, hvað fornbókmenntirnar muni vera mikill partur af andlegri fæðu ungra manna á Íslandi. Mér sýnist þessi indæla nýja útgáfa fornritafélagsins fara upp í hillur, bæði lesin og ólesin, en það sýnir, að tæplega yrði neinn jarðskjálfti, þó að fornritin væru gefin út öðruvísi en hingað til. Hvernig hefur þjóðin komizt af á undanförnum öldum? Þessi rit hafa verið til í meira og minna ónákvæmum handritum. Hver öld hefur haft sína stafsetningu, og við höfum ekkert af frumstafsetningu þessara rita. En menn virðast ánægðir með, að á þeim sé stafsetning frá 15. öld, bara að það sé ekki okkar stafsetning. Og hvernig hafa svo þessi handrit verið? Oft ekki annað en lauslegir útdrættir. Og hvaða handrit má gefa út? Má gefa út nema eftir frumriti? Nú vitum við, að beztu handritin eru svo fjarskyld. En þessi mismunur á handritunum stafar af því, að menn hirtu ekki alltaf um að skrifa þau nema til þess að fá við það efnið í sögurnar. Hvernig hefur annars þjóðin bjargazt fram á þennan dag, ef menningin er öll í voða, þó gefa ætti út vandaða útgáfu af fornritunum, en bara með stafsetningu vorra tíma? Ég veit ekki, hvernig Dalamenn hafa komizt af með allra handa skrumskælingar.

Mér finnst þetta frv. vera þannig, að það eigi alls ekki að afgreiða það. Það er líka undarlegt, ef Alþ., fer nú að gera undantekningu til að koma þessu máli fram og gera það að lögum. Ég ætla að vona, að þessi hv. d. hafi, eins og svo oft áður, — með allri virðingu fyrir hv. Nd. —, vit fyrir henni í þessu efni.