19.11.1941
Efri deild: 21. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 109 í B-deild Alþingistíðinda. (279)

19. mál, rithöfundaréttur og prentréttur

Magnús Jónsson:

Það er nú svo langur vegur frá, að ég ætli að fara að skattyrðast við hæstv. fjmrh., en ég vildi bara leiðrétta það, sem hann hélt, að ég hefði sagt viðvíkjandi fornritafélaginu, — að frv. væri jafnógreindarlegt og sjálft fornritafélagið væri komið inn á þing. Ég sagði eitthvað í þá átt, að málið bæri slíkan blæ, að það gætu verið einhver áhrif þaðan, sem kynnu að hafa komið hingað í Alþ. Og ég vil í lengstu lög vona, að hv. alþm. afgreiði ekki slíkt frv. sem þetta.

Út af því, sem hæstv. ráðh. talaði um, vil ég annars geta þess, að í 2. gr. frv. er gefið í skyn, að ekki eigi að gefa ritin út öðruvísi en með samræmdri stafsetningu fornri. En gefi ríkisstj. öðrum leyfi, getur hún gert það að skilyrði, að stafsetning sé forn. Og það er á því, sem ég byggi það, að það sé ekki meiningin, að hún verði öðruvísi. Annars get ég ekki hugsað mér, að nokkrum hv. þm. detti í hug, að það geti spillt fornritunum, að þau séu skrifuð á þá einu löghelguðu stafsetningu, sem til er. Það er ómögulegt, að nokkur maður hafi þá ótrú á fornritunum, að þau þoli ekki nútímastafsetningu. — Að elta smekk fólksins? Er þá betra að ritin séu alls ekki lesin? Þá mundi ég hiklaust kjósa „Laxnessku“ — (Fjmrh.: Ekki ég.), því að ég hef þá trú á efni þessara rita, að það væri þó betra en ekki. Ég hef líka þá trú á dómgreind fólksins og leiðbeiningum, sem gefnar væru, að slík útgáfa mundi alls ekki verða lesin.

Það var einu sinni ágætur maður hér í Reykjavík, sem þorði ekki að láta ferma börnin sín, því að hann var hræddur um, að þau spilltust hjá prestinum. Það var talað um það við hann, hvað hann eiginlega héldi um börnin, sem væru innan um bölv og ragn á götunum, og hvort hann héldi, að þau spilltust aðeins í tímum hjá prestinum. Maðurinn varð alveg hvumsa við, og ég vil segja það sama. Spillist þá ekki þjóðin á alls konar útlendum reyfurum og innlendum sorpskrifum? — Nei. Það gerir ekkert til. En ef fornritin eru gefin út með nútímastafsetningu, og kannske einhverjum ættartölum sleppt, þá er allt í veði.

Ég held, að það væri bezt að vísa þessu máli svo til ríkisstj., og ég held, að það væri bezt að finna einhverja aðila, sem segðu til um það, þegar þeim fyndist eitthvað ósæmilegt koma fram í sambandi við slíkar útgáfur. Það hafa verið gefnir út kaflar úr þjóðsögum Jóns Árnasonar, sem aðeins hefur verið útdráttur úr verkinu sjálfu, og hefur enginn haft neitt út á það að setja á nokkurn hátt. En þannig má ekki fara að með fornritin!

Ég hef oft hugsað mér, að það væri mjög heppilegt að gefa Sturlungu út helmingi styttri en hún er, þannig að sleppt væri öllu því, sem óviðkomandi er, og held ég, að það væri mjög heppileg ráðstöfun til þess að fá fólkið til að lesa þessa merku bók. En þetta má ekki, þ. e. a. s., það má með leyfi eða nokkurs konar recepti. Hvers vegna nú að vera að hafa þetta svona, — hvers vegna ekki að láta slíkt koma út og láta svo okkar fornrit vera vernduð af ritdómurunum í blöðum?

Ég vonast til þess, að þetta frv. verði ekki afgr. nú. Ef eitthvert gagn er í þessu, þá mun það vekja menn til umhugsunar, og er vonandi, að menn verði lúnir að hugsa málið fyrir næsta þing. Ég get ekki hugsað mér, að þessi stutti tími, sem er til næsta þings, geti orðið neinn voði fyrir fornritin.