19.11.1941
Efri deild: 21. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 110 í B-deild Alþingistíðinda. (280)

19. mál, rithöfundaréttur og prentréttur

Fjmrh. (Jakob Möller) :

Hv. þm. heldur áfram að tala um það, sem ekki er í frv., og gefur það ekki tilefni til þess að halda áfram umr. Það er hvergi bannað í frv. að gefa út útdrátt úr fornritunum. Það, sem hér er verið að gera, er aðeins það, að það á að koma í veg fyrir, að fornritin verði afbökuð, og það er bezt að segja það, að þessar till. koma frá mönnum, sem skoða fornritin sem helgan dóm, sem ekki megi misbjóða með því að gera hann að skrílfæðu. Ef hv. þm. er þeirrar skoðunar, að ekki eigi að setja undir þennan leka og að það eigi að gefa öllum frjálst að fara með fornritin eins og þeim sýnist, þá er það alveg víst, að menn mundu nota afvegaleiddan smekk fólksins til þess að græða peninga. — Fornritafélagið er búið að selja sína útgáfu upp, enda kostaði hún ekki nema 8 kr., en þessi kostar 14 kr., svo að þessi útgáfa þarf náttúrlega öflugri stuðning. Ég sé hins vegar enga ástæðu til þess fyrir fornritafélagið að hafa á móti þessari útgáfu vegna síns fyrirtækis, enda hef ég ekki orðið þess var, að komið hafi fram neinar áskoranir frá félaginu á hendur þessári útgáfu Laxdælu. Það er fullkomin ástæða til þess að leggja hömlur á það að leyfa útgáfu fornritanna í þeirri mynd, sem birtist í hinni nýju Laxdælu. Ég veit ekki, hvernig mönnum líkaði það, að farið yrði að gefa út rit Páls postula á „Laxnessku“. Ég hygg, að mönnum félli það ekki. Hitt er ég einnig sannfærður um, að menn kynnu því afar illa, að farið yrði að gefa fornritin út á einhverju allt öðru máli en íslenzku.