19.11.1941
Efri deild: 21. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 111 í B-deild Alþingistíðinda. (281)

19. mál, rithöfundaréttur og prentréttur

Brynjólfur Bjarnason:

Það er dálítið einkennilegt við þessa umr., að höfuðfrumkvöðull þessa máls, hv. þm. S.-Þ., skuli ekki gera grein fyrir málinu. Ég hefði þó gaman af að heyra röksemdir þær, sem þessi frumkvöðull málsins kynni að færa fram fyrir því. Hæstv. fjmrh. hefur hins vegar tekið að sér vörn fyrir máli, þó að það sé nú naumast hægt að skilja upp eða niður í þeirri ræðu, sem hæstv. fjmrh. hélt til þess að skýra þetta mál. Mér virtist ómögulegt að skilja, hver er höfuðtilgangur þessa máls, — jú, höfuðtilgangurinn sagði hann að vísu, að væri sá að koma í veg fyrir það, að fornritin verði gefin út á einhverju afbökuðu máli, t. d. „Laxnessku“ eða á öðru skrílskældu máli. Hins vegar álít ég ekki, að „Laxnesska“ sé neitt skrílskælt mál, — þvert á móti álít ég, að það sé bezta málið, sem nú er skrifað með okkar þjóð. Það getur því ekki verið tilgangur frv. fyrst og fremst að koma í veg fyrir notkun óvandaðs máls. Ég hef lesið frv. og enn fremur hlustað á ræðu hæstv. ráðh. og hvað annað í sambandi við þetta mál. Í 1. gr. frv. eru ákvæði um það, að ekki megi gefa út rit höfunda, þó að 50 ár séu liðin frá útgáfu þeirra, enn fremur að ekki megi breyta efni eða meðferð málsins, þannig að menningu og tungu þjóðarinnar geti stafað hætta af. Hver á að dæma um þetta? Þetta mál minnir mig dálítið á annað mál, sem hér lá fyrir Alþ. og miklar umr. urðu um. Það mál átti einnig rót sína að rekja til hv. þm. S.-Þ., og var það þáltill. á þá leið, að það skyldi setja utan garðs í þjóðfélaginu menn, sem vitað væri um, að stæðu í sambandi við erlenda valdhafa. Hver átti að vita þetta? Það er ekki gott að segja. Svona löguð löggjöf út af fyrir sig er hv. Alþ. til vanvirðu, eins og hv. 1. þm. Reykv. hefur sýnt fram á.

Hvað 2. gr., frv. snertir, þá hefur ráðh. skýrt tilgang hennar. Þar segir, að rit, sem samin eru eða rituð fyrir árið 1400, skuli vera í höndum ríkisstj. eða þeirra félaga, sem ríkisstj. gefur leyfi til þess að gefa þau út. Um þetta atriði skal ég fara nokkrum orðum.

Það er höfuðatriði frv., að það sé rétt, að fornrit okkar séu eingöngu í höndum ríkisstj. eða félaga, sem stj. veitir sérleyfi til þess. Ég held, að það sé ákaflega óheppilegt, ég held, að það sé því betra, því meira sem gefið er út af fornritum. Ég held, að þessi ráðstöfun geti ekki orðið til annars en að þrengja útgáfumöguleika fornritanna. Svo er spurningin um það, hvort með þessu sé fengin nokkur trygging fyrir því, að ritin verði ekki gefin út á skrílskældu máli. Frá menningarlegu sjónarmiði er engin trygging fyrir því fengin, þó að málið sé í höndum ríkisstj. Ég álit, að það geti verið hreint handahóf, hvaða félögum ríkisstj. gæfi slíkt sérleyfi. Ég álít t. d., að það gæti eins vel komið til greina, að ríkisstj. fengi þetta mál í hendur mönnum, sem hafa mjög litla þekkingu á þessum málum. Hvað mundi t. d. hafa verið gert í því tilfelli, sem hér um ræðir, útgáfu Laxdælu, ef ríkisstj. hefði verið einráð um þá útgáfu? Það er ómögulegt að segja, hvaða afstöðu hún hefði tekið til þess máls. En ég álít verr farið en heima setið, ef farið yrði að banna slíka útgáfu á fornritunum sem Laxdæla Halldórs Kiljans er, því að hún er útgengilegri og hefur selzt betur en nokkur önnur útgáfa fornritanna. Það er sem sagt ákaflega óljóst, hver er tilgangurinn með þessu frv. Einokun á útgáfu fornritanna handa einhverjum ákveðnum félögum er það, sem virðist liggja einna næst, eins og hv. 1. þm. Reykv. benti á. Ég held samt sem áður, að það sé önnur ástæða fyrir þessu. Tilefnið til þess, að þetta frv. kom fram, er Laxdæluútgáfan og það, að hv. þm. S.-Þ. fékk út af því eitt af sínum viðurkenndu köstum og skrifaði langa grein í Tímann um það að fara að gefa fornritin út á því máli, sem talað væri af úrkasti þjóðarinnar. Ein ástæðan til þess, að hv. þm. fékk þetta kast, er sú, að honum er ákaflega illa við Halldór Kiljan Laxness, sem sá um útgáfu Laxdælu, og er það því ekkert undarlegt, þó að þetta frv. kæmi fram. Hitt er öllu undarlegra, að annað eins plagg og þetta skuli vera tekið alvarlega af þinginu, nema það eigi að vera eins konar sárabætur handa hv. þm. vegna þess, að hann hafi orðið fyrir vonbrigðum í stærri málum hér á þinginu. Ég trúi því a. m. k. ekki, að þetta frv. fari í gegnum þingið nema stærri pólitískar orsakir liggi til. En hvað sem því liður, þá held ég, að hv. d. ætti að sjá sóma sinn í því að fella þetta frv.