19.11.1941
Efri deild: 24. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 130 í B-deild Alþingistíðinda. (299)

19. mál, rithöfundaréttur og prentréttur

Forsrh. (Hermann Jónasson) :

Frv. þetta er undirbúið í stjórnarráðinu, eins og tekið er fram í grg., og það voru áhugamenn, sem sendu ríkisstj. beiðni um það. Skrifstofustjóri dómsmálaráðuneytisins hefur undirbúið frv. ásamt 2 lögfræðingum utan stjórnarráðsins, sem ég hygg, að séu fyllilega til þess færir. (MJ: Sömdu þeir 1. gr. svona?.) Ég kem að því síðar. Þeir eru áreiðanlega meðal færustu lögfræðinga í þessum bæ.

Ég sé satt að segja ekkert að athuga við þetta form á frv., að gefinn sé út viðauki við 1. Þessi hv. þm., sem finnur að því, hefur verið lengur á þingi en ég, og honum er sjálfsagt mjög vel kunnugt, að það er ekki óvenjulegt á þingi, að gefnir séu út viðaukar við l., heldur er það mjög algengt. Og við, sem höfum þurft á því að halda að fletta upp í lagabókum, erum ekki heldur óvanir því, enda bera lögbækur það greinilega með sér, sem ná yfir þau 1., er gilda fram til 1930. Það er öllum kunnugt, að þetta er form, sem ekki er óvenjulegt. Stundum er það meira að segja nauðsynlegt vegna þess, að það getur verið erfitt — og það á einmitt við um þetta efni — að fella það inn í sjálf 1. Ég sé þess vegna ekkert að athuga við þetta atriði.

Um 1. gr. frv. er það annars að segja, að að sjálfsögðu verður að leita til stjórnarráðsins um útgáfu þeirra rita, sem greinin tekur til. Og ég sé ekki heldur neitt athugavert við það, — síður en svo. Og það hefur því miður komið fyrir með atriði, sem 1. gr. nær yfir, að það hefur verið misnotað hér á landi. Það er ekki langt síðan eyðileggja varð hér útgáfu á merku riti fyrir það, að afbökuð voru eldri ljóð, þar sem rithöfundarnir voru látnir menn, og sýnt var fram á, að ekki var sæmilegt, hvernig frá var gengið. Það hefði verið hægt að fyrirbyggja þetta þá, ef þessi l. hefðu verið til staðar. Þetta ákvæði 1. gr. er því ekki síður nauðsynlegt en þau önnur ákvæði, sem í frv. eru. Og ef menn vilja gefa út þau rit, sem 1. gr. nær yfir, þá er það ekki mikil fyrirhöfn að gera ráðuneytinu grein fyrir, að það sé gert með þeim hætti, sem 1. gera ráð fyrir.

Það hefur verið minnzt á við þessa umr., að í þessum l. séu engin ákvæði um, hvernig eigi að framfylgja þeim. En það stendur skýrum stöfum í 4. gr. þessara 1., að með mál út af broti á l. skuli fara sem almenn lögreglumál. Það liggur þess vegna í augum uppi, að ráðuneytinu er skylt að sjá um, að 1. þessum sé framfylgt.

Þá hefur komið hér fram brtt. um, að heimspekideild háskólans ætti að vera sá dómari, sem skæri úr um, hvort ákvæðum 1. gr. væri fylgt. Út af þessu vil ég segja það, að það liggur auðvitað í hlutarins eðli, að skrifstofustjórarnir í stjórnarráðinu liggja ekki yfir að lesa þessi rit, heldur verður leitað til sérfróðra manna um það, og þá líklegast til heimspekideildar háskólans. Þetta verður framkvæmdaratriði, sem mér finnst leiða af hlutarins eðli, og af þeirri ástæðu taldi ég ekki þörf á að greiða þeirri till. atkv., sem fram kom um þetta. Hins vegar gæti vel farið svo, að í þessu landi risi upp stofnun, sem væri eins fær til þess að dæma um þetta og heimspekideildin. Við skulum taka sem dæmi, að hér væri félag rithöfunda, sem hefði sérstökum mönnum á að skipa. Það væri vel hugsanlegt, að einnig yrði leitað til þess undir vandasömum kringumstæðum.

Ég sé ekki betur en þessi l. séu þannig úr garði gerð, að vansalaust sé fyrir þessa hv. d. að samþ. þau eins og þau liggja fyrir.