19.11.1941
Efri deild: 24. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 131 í B-deild Alþingistíðinda. (300)

19. mál, rithöfundaréttur og prentréttur

Magnús Jónsson:

Hæstv. ráðh. nefndi að vísu ekki það rit, sem var brennt. (Forsrh.: Það var sálmabók.) Og þá er það algerlega rangt, sem hann sagði um það, því að öll reiðin var út af sálmum núlifandi skálda, en ekki út af því, sem prentað var eftir eldri skáld. Í þessu riti var mikill sægur af sálmum, sem var breytt, og það var ekki hægt annað, ef átti að nota það. En reiðin þá var aðallega út af ýmsum núlifandi skáldum, og skulum við ekki ræða það mál nánar, því að það kemur ekki þessu frv. við. (Forsrh.: Því fremur er ástæða til að gæta réttar þeirra látnu, þegar þannig er farið með lifandi skáld.) En það kemur bara ekki þessu máli við, sem við erum að tala um hér.

Í frv. er talað um, að dóms- og kirkjumálaráðuneytið eigi að hafa eftirlit með, að l. verði fylgt. En hæstv. ráðh. og hv. frsm. meiri h1. töluðu um það í sínum ræðum, að kennslumálaráðuneytið ætti að gera þetta. Nú vitum við, að skipting milli ráðuneyta er alltaf að breytast. Það væri því næsta einkennilegt, ef annar maður færi með kennslumál heldur en dóms-og kirkjumál, að þá skyldi þetta samt heyra undir dóms- og kirkjumálaráðuneytið. Ég hélt þess vegna, að stj. væri horfin frá sínu eigin frv. í þessu efni.

Mér þykir hæstv. ráðh. spámannlega vaxinn, ef hann veit, hvað öllum dómsmálaráðherrum kann að detta í hug. Ráðh. hefur dottið svo margt í hug, að þeim gæti alveg eins dottið í hug að spyrja mjólkursölunefnd eða hundahreinsunarnefnd um þetta. Það hefur sýnt sig, að ráðh. hafa fundið upp á fráleitustu firrum. Þegar t. d. lagt er til eftir háskólal. að hafa samkeppnispróf, þá dettur ráðh. fyrst í hug að neita að hafa samkeppnispróf, og síðan að veita embættið þvert ofan í það, sem prófið sýndi. Það er því vandi að vita, hvað dómsmálaráðherra dettur í hug.

Ég vil bara segja það, að það verður bókalestur í stjórnarráðinu, ef á að senda þangað öll rit, sem snerta þetta frv. Og það væri meiri töfin, ef heimspekideildinni að lesa allt yfir, og þetta eru menn störfum hlaðnir. Það tekur vitanlega geysitíma, ef á að senda þeim mörg stór verk, sem þeir ættu að athuga, hvort ekki sé stafkrókur í, er mundi geta spillt smekk þjóðarinnar. Það er hvorki meira né minna en að með þessum 1. á að innleiða svona hroðalegan „censur“ á þessi rit.

Mér þykir það leiðinlegt fyrir skrifstofustjórann í dómsmálaráðuneytinu, ef hann hefur gengið svona hraksmánarlega frá þessu frv., því að það er ákaflega illa samið. Við skulum taka til dæmis það, þar sem talað er um, að ekki megi birta rit „breytt að efni, meðferð eða málblæ, ef ugga má, að almennum menningarhagsmunum yrði tjón að“. En þarna er ekkert um það, að dómi hvers. Ég held, að enginn skrifstofustjóri ráðuneytisins hafi komið nálægt þessu.

Ég er búinn að fá svar við því, sem ég spurði um, og það er ákaflega líkt því, sem ég hugsaði mér, að það yrði.