19.11.1941
Efri deild: 24. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 132 í B-deild Alþingistíðinda. (301)

19. mál, rithöfundaréttur og prentréttur

Brynjólfur Bjarnason:

Ég hef hugsað mér að segja dálítið í þessu máli, en þar sem forsvarsmenn frv. hlaupa út, á meðan umr. um það standa yfir, er ekki hægt að koma við neinum rökræðum.

En ég ætla að nota tækifærið, af því að hæstv. forsrh. er hér viðstaddur, til að gera dálitla fyrirspurn. — Það var víst hv. 2. landsk., sem var hræddur um það, að þau ósköp gætu komið fyrir, að Njála yrði gefin út á svipaðan hátt og Laxdæla, ef þessi l. yrðu ekki afgr. áður en þessu þingi væri slitið. — Nú vil ég spyrja: Ef þessu útgáfufyrirtæki, sem hefur gefið út Laxdælu, dytti í hug að gefa út Njálu og fengi Halldór Kiljan Laxness til að sjá um útgáfuna, mundi þá kennslumálaráðuneytið leita álits heimspekideildar háskólans og fara eftir því, ef till. heimspekideildar væru með því, að þessi útgáfa yrði leyfð, sem ég efa ekki að yrði? Nú skulum við segja, að hv. þm. S.-Þ. fengi kast og kannske taugaáfall. Hvað mundi hæstv. kennslumálaráðh. gera við hann? Ætli hann mundi ekki stinga upp í hann sykurmola og banna útgáfuna, þó að heimspekideild háskólans mælti með henni.

Við skulum taka annað dæmi. Ef hv. þm. S.-Þ. hefur í hyggju að gefa út nýtt ljóðaúrval eins af okkar höfuðskáldum, eins og hann hefur geri undanfarið, — en til þess að gefa út slíkt úrval geri ég ráð fyrir, að skv. þessum 1. þyrfti að koma leyfi kennslumálaráðh., til þess að koma í veg fyrir, ef um væri að ræða rit höfuðskálda, sem eru dáin fyrir meira en 50 árum, að rit hans væru gefin út að efni og málblæ þannig, að telja mætti, að menning og tunga þjóðarinnar byði tjón af —, en heimspekideild háskólans liti þannig á, að ekki væri rétt að leyfa þessa útgáfu, einmitt vegna þess, að efni og meðferð útgáfunnar væri á þá leið, að hún teldi, að menning og tunga byði tjón af. Og ég er nú helzt á því, að sum af þessum úrvalsritum, sem þessi hv. þm. hefur verið að gefa út, séu einmitt þess eðlis, að það sé frekar tjón að því en hitt. Ef heimspekideildin kæmist að þessari niðurstöðu, hvað mundi þá hæstv. kennslumálaráðh. gera?

Mundi hann vilja eiga það á hættu, að þessi flokksbróðir hans fengi taugaáfall út af málinu?

Ég vonast til þess, að hæstv. ráðh. svari þessum fyrirspurnum.