29.10.1941
Efri deild: 6. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 133 í B-deild Alþingistíðinda. (306)

8. mál, lántaka fyrir síldarverksmiðjur ríkisins

Frsm. (Magnús Jónsson) :

Eins og grg. þessa frv. sýnir, er það flutt eftir ósk hæstv. fjmrh., og ef menn óska frekari upplýsinga um málið á þessu stigi, þá mun ég vísa til þess hæstv. ráðh. um það, því að fjhn. tók málið til flutnings af honum, og það án þess að málið væri nokkuð rætt út í æsar.

Mér skilst mál þetta ekki vera margbrotið. Í þessum tvennum 1., sem vitnað er til bæði í fyrirsögn og í 1. gr. frv., er talað um lántökuheimildir fyrir ríkisstj., í öðrum l. um 1500000 kr. og í hinum 1700000 kr. lántökuheimild í því skyni, sem hér um ræðir, til byggingar og aukningar síldarverksmiðja ríkisins. Og sú eina breyt., sem farið er fram á með þessu frv., er, að þessar lántökuheimildir eru færðar frá ríkisstj. og yfir á síldarverksmiðjurnar sjálfar. Þetta er gert vegna þess, að það þótti eðlilegt, að stjórn síldarverksmiðjanna annaðist þessar lántökur. Ábyrgð ríkisins er alveg eins á þessum lántökum, þó að þeim sé hagað þannig. En það þótti eðlilegra, að stjórn síldarverksmiðja ríkisins annaðist að taka þetta lán og að lánsheimildin væri færð í eitt, sem nemur þá samtals 3200000 kr., og enn fremur, að lánið kæmi þá á reikningum síldarverksmiðja ríkisins, en ekki á ríkisreikningnum.

Fjhn. tók ekki málefnislega afstöðu til þessa. En ég hygg, að hvorki nefndarmenn né heldur neinir aðrir hv. þdm. sjái neitt athugavert við það í sjálfu sér, þótt þessar lántökuheimildir séu þannig færðar til.