22.10.1941
Neðri deild: 4. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 139 í B-deild Alþingistíðinda. (31)

Lausnarbeiðni ríkisstjórnarinnar og stjórnarmyndun af nýju

forsrh. (Hermann Jónasson) :

Ég hef tilkynningu að flytja. Og ég hygg, að það komi greinilegast fram, sem ég tel, að komast verði til vitundar Alþingis, ef ég les eftirrit fundar gerðar ríkisráðsfundar, sem haldinn var í dag, en þar í er fært bréf, er ég ritaði hæstv. ríkisstjóra í gær, og eftirrit fundargerðar ráðherrafundar í gær, sem einnig er fært inn í þessa. fundargerð:

„Árið 1941, miðvikudaginn 22. október, var haldinn fundur í ríkisráðinu í móttökuherbergjum ríkisstjóra í Alþingishúsinu.

Forseti ríkisráðsins, ríkisstjóri Sveinn Björnsson, stýrði fundinum, sem hófst kl. 11.55. Fundinn sátu og ráðherrarnir Hermann Jón

asson, forsætis-, dóms- og kirkjumálaráðherra, Ólafur Thors, atvinnu- og samgöngumálaráðherra, Stefán Jóh. Stefánsson, félagsmála- og utanríkisráðherra, Eysteinn Jónsson, viðskiptamálaráðherra, og Jakob Möller, fjármálaráðherra.

Vigfús Einarsson var ritari fundarins. Ríkisstjóri setti fundinn og las síðan upp bréf frá forsætisráðherra, dags í gær, svo hljóðandi:

„Ég sendi yður hér með, hæstvirtur ríkisstjóri, afrit af fundargerð ráðherrafundar, er haldinn var í dag.

Með tilvísun til fundargerðarinnar leyfi ég mér að beiðast lausnar fyrir allt ráðuneytið.“ Fundargerð sú, sem bréfinu fylgdi, hljóðaði. þannig:

“Ár 1941, þriðjudaginn 21. október, var haldinn ráðherrafundur í fundarherbergi ríkisstjórnarinnar í stjórnarráðshúsinu. Allir ráðherrar mættir. Eysteinn Jónsson, viðskiptamálaráðherra, lagði fram frumvarp um dýrtíðarmálin og óskaði eftir, að frumvarpið yrði gert að stjórnarfrumvarpi. Ráðherrar Alþýðuflokksins og Sjálfstæðisflokksins lýstu yfir því, að þeir gætu ekki fallizt á að gera frumvarpið að stjórnarfrumvarpi. Sérstaklega tók ráðherra Alþýðuflokksins fram, að hann væri algerlega ósamþykkur lögfestingu kaupgjalds.

Með því að ríkisstjórnin hefur ekki náð neinni

sameiginlegri lausn í dýrtíðarmálunum, verður ekki hjá því komizt, að ríkisstjórnin beiðist lausnar.“

(Undirskrift ráðherranna). Eftir að ríkisstjóri hafði lesið upp bréf forsætisráðherra, mælti hann á þessa leið:

„Vegna þess, hve alvarlegir tímar eru nú, óska ég þess að taka stuttan frest áður en ég fellst á þessa lausnarbeiðni, en frestinn mun ég nota til þess að kynna mér viðhorf Alþingis í þessu máli og mun ég gera það tafarlaust.

Ef hæstvirtur forsætisráðherra eða aðrir ráðherrar vilja gera athugasemdir við þessa afgreiðslu, óska ég þess, að þær komi fram.“

Þar sem engar athugasemdir komu fram og önnur mál lágu ekki fyrir, sagði ríkisstjóri fundinum slitið kl. 12.20 e. m.

Sveinn Björnsson.

Vigfús Einarsson.“

Þetta vildi ég tilkynna hv. Alþingi.