20.11.1941
Neðri deild: 26. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 135 í B-deild Alþingistíðinda. (318)

8. mál, lántaka fyrir síldarverksmiðjur ríkisins

Frsm. (Skúli Guðmundsson) :

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, var flutt af fjhn. Ed. eftir ósk fjmrh., og hefur það verið athugað af fjhn. þessarar d. Mælir n. með því, að frv. verði samþ. óbreytt.

Það er gert ráð fyrir því í þessu frv., að síldarverksmiðjum ríkisins sé heimilt að taka lán, allt að 3 millj. og 200 þús. kr., til aukningar síldarverksmiðjunum á Raufarhöfn og Siglufirði, og ríkissjóður ábyrgist greiðslur téðra lána. Í 2. gr. frv. er lagt til, að ákvæði eldri 1. um lántökur ríkissjóðs í þessu skyni falli niður. Ég vil geta þess, að fjhn. barst bréf frá einu fyrirtæki hér í bænum, „Kauphöllinni“, meðan n. hafði frv. til athugunar. Í bréfi þessa fyrirtækis var farið fram á það, að breyt. yrði gerð á 2. málsgr. l. gr. frv., þannig að auk þess, sem menn ættu kost á þátttöku í láninu í bönkum landsins, útibúum þeirra og sparisjóðum, ættu þeir einnig kost á að fá keypt skuldabréf hjá kauphöllinni í Reykjavík. N. var kunnugt um ýmis fleiri fyrirtæki, sem fást við kaup og sölu verðbréfa, og sá hún því ekki ástæðu til þess að taka óskir eins fyrirtækis til greina. N. lítur þannig á, að eins og gr. er orðuð muni bæði verðbréfasalar og aðrir geta komizt í samband við banka landsins og fengið þar þessi væntanlegu skuldabréf ríkisverksmiðjanna. Samkvæmt því er hvorki kauphöllin né aðrir verðbréfakaupmenn útilokaðir frá því að ná þessum bréfum, þó að engin breyt. sé gerð á frv. —

Við 1. umr. þessa máls beindi ég fyrirspurn til hæstv. atvmrh. um það, hvernig á því stæði, að reikningar síldarverksmiðjanna hefðu ekki verið birtir í ríkisreikningunum og stjórnartíðindum eins og lög gera ráð fyrir. Hæstv. atvmrh. var þá ekki við og er það ekki enn, en ég vildi beina þeirri ósk til hæstv. fjmrh., sem er viðstaddur á fundinum og hefur óskað eftir því, að þetta frv. væri flutt, að hann hlutaðist til um það, að þessir reikningar yrðu birtir eins og ákveðið er í l., að eigi að gera. Ég fékk frá stjórnarráðinu til athugunar reikninga verksmiðjanna fyrir árið 1939, en hins vegar fékk ég þær upplýsingar þar, að ekki væri enn búið að gera upp reikningana fyrir árið 1940. Verð ég að telja, að það sé óhæfilegur dráttur á reikningsskilum hjá þessum fyrirtækjum, þar sem nú er komið fram í nóv. og reikningar fyrir árið 1940 enn ekki fullgerðir. Ég athugaði nokkuð þessa síðustu reikninga fyrir árið 1939, og þeir sýndu, að það hefur orðið töluverður tekjuafgangur hjá verksmiðjunum á því ári. Reikningarnir sýndu einnig, að af þessum hagnaði hefur verið lagt í svo nefndan eftirlaunasjóð 50 þús. kr. Nú veit ég ekki, eftir hvaða heimildum þetta er gert, að stofna slíkan sjóð hjá síldarverksmiðjunum. Lög um síldarverksmiðjur, nr. 1 5. jan. 1938, kveða á um það, hvaða sjóði þar eigi að mynda, og í hvaða sjóði eigi að leggja fé. Í 11. gr. þeirra 1. er tekið fram, hvaða kostnað skuli draga frá söluverði síldarafurða. Þar er ákveðið, að draga skuli frá söluverðinu stjórnarkostnað og annan venjulegan rekstrarkostnað, þar með taldir vextir af stofnkostnaði, enn fremur afborganir af stofnkostnaði verksmiðjanna, fyrningargjald af mannvirkjum, húsum, vélum og áhöldum. Sömuleiðis ákveðið gjald í varasjóð. Þar er ekkert ákveðið um það, að það eigi að greiða neitt í eftirlaunasjóð eða aðra slíka sjóði, ekki hef ég heldur annars staðar í þessum 1. séð nein ákvæði um slíkan sjóð. Nú er ég ekki með þessu að kveða upp neinn dóm um það, hvort rétt geti verið að stofna slíka sjóði, það kemur ekki þessu máli við, en hinu vil ég halda fram, að þar sem með l. er ákveðið, hvernig eigi að haga rekstri síldarverksmiðjanna, eigi að fara eftir þeim l. Ég sé því enga heimild til þess að taka af þeim hagnaði, sem þar kann að verða á einu ári, og leggja í eftirlaunasjóð eða aðra sjóði, sem ekkert er ákveðið um í 1., að eigi að stofna hjá þessum fyrirtækjum. Ég tel það illt, að yfirmaður verksmiðjanna, hæstv. atvmrh., skuli ekki vera hér á fundi, þegar þetta mál er til umr. En eins og ég gat um, er þetta frv. flutt eftir ósk hæstv, fjmrh., og ef til vill getur hann einhverjar upplýsingar gefið um það, hvernig á þessari sjóðstofnun stendur. Ef svo er ekki, vil ég þó eigi að síður beina þeim tilmælum til hæstv. fjmrh., að hann hlutist til um það, að á þessu verði gerð leiðrétting, þegar reikningar verksmiðjanna fyrir árið 1940 verða gerðir upp. Ég get ekki betur séð en að þessi ráðstöfun á fé verksmiðjanna sé gerð án þess að nokkur heimild sé til þess, og liggur í augum uppi, að þetta þarf að leiðrétta og færa þessa upphæð til baka.