28.10.1941
Neðri deild: 7. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 81 í C-deild Alþingistíðinda. (344)

7. mál, ráðstafanir gegn dýrtíðinni

Jón Pálmason:

Ég ætla ekki að svara hæstv. viðskmrh., en það voru nokkur atriði í ræðu hv. 2. þm. Skagf., sem komu mér til að standa upp. Ég ætla samt fyrst að víkja örfáum orðum að hæstv. viðskmrh.

Hæstv. ráðh. sagði, að ég hefði viðhaft svigurmæli í garð Framsfl. Það er ekki rétt. Ég lýsti alkunnri staðreynd, að það eru framsóknarmenn, sem hafa rofið stjórnarsamvinnuna, af því að þeir fá ekki frv. sitt gert að stjfrv. Allt annað hverfur fyrir þeirri staðreynd.

Hæstv. ráðh. sagði, að ég vildi ekkert gera til að stöðva dýrtíðina. Það er líka rangt. Ég hef lýst hér ákveðinni skoðun, sem hefur ekki breytzt, þeirri, að ríkissjóður verður að greiða mismuninn á útsöluverði og framleiðsluverði. Það er opin leið og sú eina, sem er fær. Eins og fjárhagsástæður eru nú, eru það engin vandræði. En það frv., sem fyrir liggur, er allt of mikill gallagripur til þess, að ég fáist til að samþ. það.

Ráðh. sagði, að afstaða mín líktist því, að ef maður dytti ofan í dý, vildi ég ekkert gera til að koma í veg fyrir, að hann sykki lengra og lengra. En ef maður er dottinn í dý, verður ævin ekki álitleg, ef hann á að vera þar til langframa, og ekki mikill munurinn, hvort hann stendur í mitti eða upp undir hendur. Við getum ekki sagt um það, hve langt vísitalan fer, ef engar ráðstafanir eru gerðar, en ég hygg, að höfuðskriðan sé fallin.

Hæstv. ráðh. sagði, að mér fyndist óþarft að setja l. um útflutning landbúnaðarafurða. Það er rétt, að ég tel ekki nauðsynlegt að gera það nú, því að það eru nóg tækifæri að koma því í l. á næsta reglulegu þingi. Framsfl. er búinn að leggja fram till. um þetta, og Sjálfstfl. búinn að lýsa sig samþykkan þeim.

Hv. 2. þm. Skagf. byrjaði á að geta þess, að ég hefði kallað hann og fleiri þm. Framsfl. sakborninga. Það er misskilningur, og þarf ekki annað en sjá ræðu mína úr höndum skrifara. Ég sagði bara, að ég vildi naumast gera ráð

fyrir, að hann né nokkrir fleiri þm. væru samþykkir því að lögfesta verðið sem tilkostnaðarverð, — eins og hæstv. viðskmrh. lýsti því, — miðað við, að bændur fengju svipað kaup og verkamenn. En mínar efasemdir hafa reynzt á fullum rökum byggðar, því að hv. þm. staðfesti þá skoðun mína, að það er rangt, að þetta verð sé tilkostnaðarverð.

Hv. þm. sagði, að ég talaði mest um það, hver þörf væri fyrir bændur að fá hátt verð. Ég vil biðja hv. þm. að lýsa yfirboðum mínum á þessu sviði. Hann mun komast að þeirri niðurstöðu, að ég hef ekki gert önnur boð en þau, sem hann hefur viljað gera, nefnilega kr. 3.40 kg. af fyrsta flokks dilkakjöti og 50–60 aura fyrir lítrann af mjólk, en nú á að lögfesta 40 aur. eða rúmlega það. Ég held því, að honum farist ekki að vera að tala um yfirboð frá mér. Að vísu mætti ég sem fulltrúi á búnaðarþingi í sumar og samþ. l0 aur. hærri kröfu á dilkakjöti en við urðum sammála um. Það er það eina, sem hann getur fram fært.

Hv. þm. tók dæmi um bóndann og verkamanninn. Brúttótekjur bóndans væru 8500 kr., en kaup verkamannsins 7200 kr., en í dæmi hans var stór villa, sem dregur brúttótekjur bóndans niður. Hann talaði um 70 ær og 70 lömb til innleggs. Það er stórkostlega villandi, því að hér um bil fimmta hlutann af lömbunum þarf til viðhalds ánum. Hér er miðað við ósýkt fé, en ef féð er sýkt, getur þurft upp í 50% af lömbunum til að halda við ærstofninum. Þá sjá allir, hvernig stenzt reikningurinn um tekjur bóndans.

Það kom fram í ræðu hv. þm., eins og vænta mátti, að með þessum ákvæðum er hlutur bænda alls ekki tryggður. Það kom líka fram hjá hæstv. viðskmrh., þegar hann var að svara hv. þm. Seyðf., að hann játaði, að bændur gætu ekki keppt við kaupstaðina um vinnukraftinn. Og það er aðalatriðið í mínum skoðunum á móti þessu frv.

Um ásakanir hv. 2. þm. Skagf. út af afstöðu míns flokks til þessa máls skal ég ekki segja mörg orð, því að sjónarmiðin eru margvísleg. Formaður Sjálfstfl., hæstv. atvmrh,. hefur oft lýst yfir því, að hann telji, að með frv. þessu sé gengið lengra á rétt bænda en góðu hófi gegni, og áhætta meiri fyrir þá en verkamenn. Og ég get gjarnan sagt það, að ég varð fyrstur manna til þess að lýsa yfir því, nú í október, að slíkum till. sem þessum gæti ég ekki fylgt. En af því að hv. 2. þm. Skagf. er oddviti okkar búnaðarsamtaka og sá, sem bændastéttin á heimtingu á, að gangi bezt fram í því að vinna að hennar hag, tel ég hann hafa stigið mikið víxlspor, ef hann ætlar að samþ. þetta frv., sem aðrir menn úr öðrum flokkum verða að koma í veg fyrir, að nái lögfestingu. Ég segi þetta í fullri vinsemd og vænti þess, að hv. þm. sýni lipurð í samvinnu um þetta og annað á komandi aðalþingi. Þá verður líka búnaðarþing, og þá fær hv. þm. að vita, að það eru fleiri bændur en ég, sem telja verðið ekki aðgengilegt, enda skauzt út úr honum sú játning, að hann óttaðist, að framleiðslan mundi dragast saman næsta ár.

Ég vil lýsa ánægju minni yfir því, að báðir ræðumenn Framsfl. hafa staðfest þá skoðun, að ekki sé tryggður hlutur íslenzkra bænda svo sem æskilegt væri, en það er um leið staðfesting á því, að það var flan af ráðh. þessa flokks að liggja svo mikið kapp á framgang þessa máls að stökkva úr ríkisstj., þegar verst gegndi.