28.10.1941
Neðri deild: 7. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 90 í C-deild Alþingistíðinda. (349)

7. mál, ráðstafanir gegn dýrtíðinni

Skúli Guðmundsson:

Hv. þm. Seyðf. las hér upp í dag kafla úr ræðu, sem ég flutti á þinginu 1939, þegar gengismálið var til meðferðar. Mér er ekki ljóst, í hvaða tilgangi hann gerði það, en ég held, að það verði alls ekki um það deilt, að þau ummæli, sem hann hafði þar réttilega eftir mér, hafi haft við fyllstu rök að styðjast. En ég held, að þau séu ekki á nokkurn hátt viðkomandi frv. því, sem hér er til umr., og þess vegna er mér ekki ljóst, í hvaða tilgangi hann las þau upp, nema ef vera kynni, að hann hafi viljað veita mér og öðrum viðstöddum þá ánægju að heyra hann fara með góðan kafla úr ræðu, sem ég flutti fyrir 2½ ári síðan.

Hv. þm. Seyðf. vildi telja það óhæfu, að ekki væru til hagfræðilegir útreikningar um framleiðslukostnað landbúnaðarins. Og í þeirri ræðu, er hann flutti áðan, þá veik hann enn að þessu. Hv. þm. benti á, hvílík nauðsyn það væri, að til væru glöggar skýrslur um afkomu landbúnaðarins hér á landi, eins og í öðrum siðuðum löndum. Ég skal ekki um það segja, hvaða lönd það eru, sem þm. kallar siðuð, þó tel ég líklegt, að hann telji nágrannalöndin Noreg og Danmörku siðuð lönd. En. ég get upplýst hv. þm. um það, að búreikningafærsla er tiltölulega miklu meiri hér á landi heldur en í þessum nágrannaríkjum okkar; þannig að búreikningar þeir, sem hér liggja fyrir, gefa fullkomnari upplýsingar um afkomu landbúnaðarins heldur en í þeim löndum. En í sambandi við þetta vil ég spyrja hv. þm. Seyðf.: Hvar eru opinberar skýrslur um tekjur verkamanna í þessu landi? Sjá þó væntanlega flestir aðrir en þessi hv. þm., að það er tvennt ólíkt, að safna skýrslum um tekjur verkamanna eða um tekjur bænda. Það er auðvelt að fá skýrslur um tekjur daglaunamanna saman borið við það að fá glögga útreikninga um afkomu bænda, og meðan þeir menn, sem telja sig fulltrúa verkamannastéttarinnar, leggja ekki fram glöggar skýrslur um tekjur verkamanna, geta þeir ekki reist sig hátt út af því, að ekki skuli vera til enn fullkomnari skýrslur um afkomu landbúnaðarins heldur en til eru hér.

Hv. þm. Seyðf. segir, að verkamenn vinni nú oft 4–6 klst. fram yfir dagvinnutíma og einnig á sunnudögum. Hann segir — sem rétt er — að þeir leggi mikið á sig til þess að afla sér tekna. En er hv. þm. Seyðf. svo ókunnugur hér á landi, að hann viti ekki, að það eru fleiri en verkamenn, daglaunamenn í kaupstöðum, sem vinna meira en 10 klst. á degi hverjum? Bændur komast alls ekki af með að vinna aðeins 10 klst., og ekki aðeins núna, heldur var það einnig svo áður en stríðið hófst. Þeim þykir ekki mikið að þurfa að vinna í 14–15 klst. og alla sunnudaga vetrarins líka við skepnuhirðingu. Og vor, sumar og haust þurfa þeir einnig oft að nota sunnudagana til þess að geta afkastað sínum skyldustörfum. Mér finnst því ekki mikið, þó verkamenn vinni nú stundum 14–16 klst. á dag og hreyfi hönd til einhvers á sunnudögum.

Hv. þm. fannst ekki viðeigandi að fara í meting um, hvor stéttin bæri meira úr býtum eða hvorri liði betur. Það er dómur allra, að gera þurfi ráðstafanir gegn dýrtíðinni og áframhaldandi verðhruni peninga, en hv. þm. eru ekki sammála um það, á hvern hátt þetta verði bezt gert.

Hv. þm. A.-Húnv. flutti hér alllanga ræðu í dag. Ég mun ekki gera mörg atriði hennar að umtalsefni, en vil minnast lítils háttar á eitt eða tvö. Hv. þm. hélt því fram í dag, að hann hefði álitið rangt að ákveða með l. verðlagsuppbót á laun embættismanna. Þetta er ekki rétt, því á síðasta Alþ. var frv. Þetta borið fram af fjmrh., og hv. þm. A.-Húnv. var í þeirri n., sem fékk frv. til meðferðar, nefnilega fjhn., og hann skrifaði athugasemdalaust undir nál. fjhn., þar sem lagt var til, að frv. yrði sama, með umræddri verðlagsuppbót. Þetta sýnir aðeins, að það, sem hv. þm. hélt fram í ræðu sinni í dag, hefur ekki við rök að styðjast. Hv. þm. vill kenna ráðh. Framsfl. um samvinnuslitin í ríkisstj. og segir, að þeir hafi valdið því, að stjórnin sagði af sér þetta er ekki rétt, og ég get bent á í þessu sambandi, að það voru ekki ráðh. Framsfl., sem stóðu gegn því, að dýrtíðarl. frá því í vor yrðu framkvæmd samkv. vilja Alþ., heldur voru það aðrir, sem færust undan að gera ráðstafanir í þeim efnum.

Hv. þm. A.-Húnv. segir, að vel sé mögulegt að afla ríkissjóði tekna. Um þetta er ég honum sammála, og vænti ég þess vegna, að hann styðji að því, að slíkt verði gert, þegar till. koma fram í þá átt, þó ég því miður geti ekki treyst hans flokk til þess, því að þótt menn lesi ræður hv. þm. A.-Húnv. í Morgunbl., eru þeir litlu nær um vilja eða viljaleysi Sjálfstfl. í þeim málum, er þar um ræðir.