27.10.1941
Neðri deild: 6. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 147 í B-deild Alþingistíðinda. (35)

Fyrirspurnir um stjórnarframkvæmdir o.fl.

Einar Olgeirsson:

Herra forseti! Ég vil vekja eftirtekt hv. d. og hæstv. ríkisstj. á því, að eitt af helztu stuðningsblöðum ríkisstj., málgagn hæstv. atvmrh., Morgunblaðið, hefur birt frásögn af því, sem hér hefur gerzt á lokuðum fundi. Þetta er þess vert, að hv. þm. veiti því athygli, því að í fyrsta lagi er með þessari frásögn rofinn sá trúnaður, sem. þm. er lagður í herðar, þegar haldnir eru lokaðir fundir, og í öðru lagi er skýrt svo frá málunum eins og bezt hentar frá sjónarmiði hæstv. atvmrh. og stuðningsmanna hans. En frá sjónarmiði annarra þm. er frásögnin villandi. Það er vikið þar að afstöðu míns flokks og um hana gefnar rangar hugmyndir. Ég vil því áskilja mér, ef ekki verða Þegar í dag gerðar ráðstafanir út af þessu trúnaðarbroti, að fá að skrifa um, afstöðu okkar flokks, og ég skil það svo, að hæstv. Alþ. hafi ekkert við það að athuga, ef það gerir ekki í dag neinar ráðstafanir út af umkvörtun minni.