04.11.1941
Neðri deild: 12. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 120 í C-deild Alþingistíðinda. (362)

7. mál, ráðstafanir gegn dýrtíðinni

Sveinbjörn Högnason:

Ég hafði ekki ætlað mér að taka þátt í þessum umr., sem hér fara fram. En það er bara vegna upphrópana hv. þm. Seyðf., sem ég vildi segja nokkur orð. þegar málið var hér síðast til umr., bað ég um orðið. En nú finn ég, að þessar upphrópanir hafa ekki verið haldbetri heldur en svo, að ég er búinn að gleyma sumum af þeim. Og ég veit, að svipaðar verkanir hafa þær haft á suma aðra hv. þm., svo að það er kannske þýðingarlítið að benda á veilur þær, sem í þessum upphrópunum voru. Tel ég þó rétt, að benda á örlítið af þessu, sem mig rámar þó í enn þá, eftir þennan tíma, af því, sem hv. þm. Seyðf. hefur haldið hér fram, vegna þess að mér fannst, þegar hann hélt þessa ræðu, að það vekja hjá mér talsvert einkennilegar kenndir. Það var ekki ósvipað því, að einhver starblindur frambjóðandi einhvers kosningaflokks væri á framboðsfundi, þar sem öllu væri snúið öfugt við það, sem rétt er, og því haldið fram blákalt. Og hv. þm. Seyðf., sem annars er skýr í ræðum sínum, sló upp svo miklu moldviðri fullyrðinga eins og hann treysti því, að hv. þm. og aðrir áheyrendur vissu alls ekki, hvað um væri að ræða, þar sem þó staðreyndin er viðvíkjandi þessu frv., sem fyrir liggur, að það segir skýrt til um það, hvernig þessu máli er háttað, sem hv. þm. Seyðf. kastaði hér fram fullyrðingum um.

Það má svipað segja um það, sem hv. 4. þm. Reykv. hefur reynt að snúa hlutunum öfugt í þessu máli. En þessi málflutningur þess hv. þm. var þó það skárri, að hann gerði þó tilraun til að koma með röksemdir fyrir sínu máli, og auk þess var sums staðar í hans ræðu farið nálægt frv., þar sem hvergi var farið nálægt frv. í fullyrðingum hv. þm. Seyðf.

Allar fullyrðingar hv. þm. Seyðf. hnigu að þessu tvennu, fyrst og fremst að því, að veizt væri að launastéttunum með þessu frv., og í öðru lagi, að stéttarhagsmunum bænda væri verið að halda fram og reyna að hlúa að þeim sem mest með þessu frv. Fullyrðingar hv. þm. Seyðf. beindust allar að þessu.

Nú er það vitað, að ef þessi 1. koma til framkvæmda, þá er afurðaverð bænda sett fast eins og það er nú, en hins vegar er eftirspurnin eftir afurðum þeirra engu minni heldur en eftir vinnuafli verkafólksins. Það væri leikur einn að selja sumar landbúnaðarafurðir í frjálsri sölu miklu hærra verði en því, sem þær eru nú seldar fyrir. Og það er í frv. lagt til að setja fast þetta núverandi verð landbúnaðarafurðanna. Og það er alveg gefið, að sú lögbinding heldur, vegna þess að þar er hægt að koma við fullkomnu eftirliti. Þetta er viðurkennt af öllum. (EOl: Varan bara fæst ekki.) En um lögfestingu grunnkaups verkamanna er það að segja, að í mörgum tilfellum yrði það lekt, því að það er ekki aðeins grunnkaup í dagvinnu, sem verkamenn hafa, heldur einnig í mörgum tilfellum eftirvinna og sunnudagavinna; og menn fá suma þessa vinnu auk þess greidda, í sumum tilfellum, án þess að vinna hana. Hvor er þá í meiri hættu, ef kaup og afurðaverð er lögfest, eins og gert er ráð fyrir í þessu frv., bóndinn eða verkamaðurinn? Hver dirfist að halda því fram við menn með fullu viti, að það sé verið með þessu frv, að halda fram hagsmunum þeirra, sem ekki geta bætt hag sinn, bændanna, þar sem verkamenn hafa aðferðir til þess að bæta sín kjör, í sumum tilfellum, utan við ákvæði þessara 1., þó að frv. væri samþ. Ég hef aldrei heyrt öðrum eins rakalausum fullyrðingum haldið fram fyrr af nokkrum heilvita manni hér á hæstv. Alþ. og þeim, sem hv. þm. Seyðf. hélt hér fram viðkomandi afurðaverði bændastéttarinnar í landinu, þar sem hann hélt því fram, að þetta frv. væri flutt til þess að bæta þeirra hag.

Þá sagði hv. 4. þm. Reykv., að það, sem hér væri verið að gera með þessu frv., ef að 1. verður — því að „allaf er söngurinn sami“ (en ég get ekki bætt við áframhaldinu í því kvæði), — sé allt gert vegna vissra manna, hér eigi að sleppa alveg stríðsgróðamönnunum. Hefur hv. 4. þm. Reykv. ekki lesið það í frv.; að það á að ganga svo langt sem hægt er í því að taka stríðsgróðann til þess að halda niðri verði útlendra vara og styrkja framleiðendur til að framleiða í landinu? Það getur vel verið, að það sé ekki gengið nógu langt í þessu efni með frv. En það má þá koma með brtt. við það, og það skal ekki standa á okkur að fylgja öllum slíkum brtt., ef hægt er að koma þeim fram í þinginu. — Það er verið að þyrla upp rakaleysum til þess að reyna að stöðva þær ráðstafanir í dýrtíðarmálunum, sem þarf að gera. Menn eru að toga, í viss atriði málsins til þess að reyna að afflytja það sem mest. Ég get fullvissað þá hv. þm., sem þetta gera, um það, að almenningur í landinu er ekki svo skyni skroppinn, að hann sjái ekki í gegnum þessa „gerningaþoku“, sem Sjálfstfl. sérstaklega hefur þyrlað hér upp. Það er nógu gott að tala og skrifa um það, að það sé nauðsynlegt að stöðva dýrtíðina og að það sé höfuðnauðsyn, en vilja svo ekkert til þess gera. Ef slíkt tal og slík skrif væru í alvöru fram sett, hvers vegna koma menn þá ekki með brtt. við frv., sem hægt er að fallast á? Í fjhn. kom ekki fram viðleitni hjá nokkrum flokki til þess svo mikið sem að fara yfir frv. til. þess að gera brtt. við það, nema hjá hv. 3. landsk. Þetta sýnir vilja flokkanna á að leysa málið. Hann er ekki til. Menn eru margir ánægðir með að láta það ganga áfram eins og það nú er; menn vilja hafa heimild til þess að tala um málið, en vilja svo ekki gera neitt. Þetta er sannleikurinn í málinu.

Hv. þm. Seyðf. hafði það held ég í einni af upphrópunum sínum hér á síðasta þingfundi, að um leið og verkakaup hefði hækkað um 66%, þá hefði afurðaverð bænda hækkað um 124%, minnir mig að hann segði. Þetta eiga vitanlega að vera sambærilegar tölur, að áliti hv. þm. Seyðf. Á þessu eiga menn svo að sjá, hve miklu meira bóndinn fær nú heldur en verkamaðurinn, miðað við það hlutfall, sem áður var þar á milli, a. m. k. voru engar skýringar látnar fylgja þessum tölum hjá hv. þm. Seyðf. Hvers konar málflutningur er þetta? verð ég að segja. Veit hv. þm. ekki, að það fer ekki allt í vasa bóndans, sem hann fær fyrir afurðir sínar? Veit hann ekki, að framleiðslukostnaður bóndans hefur hækkað á öllum sviðum, og að bóndinn verður að greiða, ekki aðeins 66% kauphækkun, heldur yfir 100% og líklega nú orðið yfir 200% hækkun á kaupi fyrir sitt aðkeypta vinnuafl? Ef koma á fram með sambærilegar tölur í þessu efni, þarf að draga það fram, hve mikið kostnaðurinn við framleiðsluna hefur aukizt, og reikna út, hve mikið fjölskyldan þarf til að lifa af. Ég veit ekki, hvað slíkar blekkingar eiga að þýða, sem hv. þm. Seyðf. er með hér. Þeim skjátlast, sem halda, að alþýða manna sé svo skyni skroppin að sjá ekki í gegnum slíkar blekkingar. Það getur verið, að það sé búið að ala upp hjá vissum hópi manna, sem hefur lifað á snöpum í Alþf1. og víðar, þann hugsunarhátt, sem samsvarar þeirri dómgreind, sem þarf til þess að taka sem góð og gild rök það, sem hv. þm. Seyðf. hefur haldið fram í þessu máli. En það er háski fyrir þjóðfélagið, ef slíkur hópur á að fá að ráða aðgerðum þjóðarinnar í jafnmiklu vandamáli og því, sem hér er um að ræða. En ég þori að treysta á það, að dómgreind almennings er enn svo mikil í landinu, að almenningur veit fullvel, hvað hér er að gerast, og veit, að það verður ekki við dýrtíðina ráðið með öðru móti en því, eða svipuðu því, sem farið er fram á í frv., sem fyrir liggur, að gert verði. Við getum verið með því að breyta frv. í ýmsum atrið- um. T. d. ef hv. 4. þm. Reykv. þykir ekki nógu langt gengið í því að taka stríðsgróðann með sköttum, skal ekki standa á mér að taka svo mikið af honum sem mögulegt er og þingið veitir frekast heimildir til. Og komið gæti til mála að breyta frv. í fleiri atriðum.

Hér hefur verið talað um þrælahald. Það er náttúrlega þægilegt að nota slíkt orð. Einu sinni þótti það þrælahald, þegar menn voru teknir í herþjónustu. Nú er talað um, að það sé þrælahald, ef banna á íslenzkum þegnum að ganga í þjónustu erlendra herja, til þess að þjóðin geti þrifizt með tilliti til framleiðslu sinnar. Ég sé ekki, hvað það er meira t. d. að banna mönnum að taka vissa vinnu hjá erlendu setuliði sem er hreinasta neyð og smán, að það skuli þurfa og vilja vinna jafnmargir Íslendingar hjá erlendu setuliði eins og nú vinna þar —, ég sé ekki, hvað meira er að vilja banna mönnum slíka vinnu heldur en að menn vilja sumir heimta það af bændum, að þeir banni að selja afurðir sínar til setuliðsins. Hvað er verkkaup bændanna annað en afurðirnar? Og vitanlega er undir vissum kringumstæðum, með því að selja þessar afurðir til erlendra manna, hægt að fá hærra verð fyrir landbúnaðarafurðirnar. En ég sé ekki svo mikinn mun á því að selja íslenzkar afurðir til setuliðsins og hinu, að selja því íslenzkan vinnukraft. Það er það sama í báðum tilfellum, að öðru leyti en því, að hættan er meiri fyrir okkur í sambandi við það að selja þessum erlendu mönnum vinnukraftinn, þar sem stærri og stærri straumar vinnandi manna fara til þess að vinna hjá þessu erlenda setuliði, sem í upphafi kom hingað í okkar óþökk, og liggur hættan í því, þjóðfélagslega séð, að með því dregst of mikill vinnukraftur frá okkar framleiðslu. Það er hreinasta furða, að það skuli heyrast, að þeir sömu menn, sem í blöðum sínum hafa skrifað um það og bæði hér á hæstv. Alþ. og annars staðar í allt haust hafa talað um það, að það ætti ekki að selja neinar afurðir, sem framleiddar eru hér, til setuliðsins, og jafnvel telja næstum föðurlandssvik að gera það, skuli nú leyfa sér að nota orðið þrælahald um það, þó að talað sé um, að nauðsynlegt sé að losa eitthvað af íslenzku vinnuafli frá því að vera notað af erlendu setuliði, sem með erlendu valdi hefur tekið okkar land hernámi.

Það kom greinilega fram í ræðu hv. þm. Seyðf., sem stendur hér skjalfest í frv, þeirra Alþfl.-manna um breyt. á og viðauka við l. nr. 98 9. júlí 1941, um heimild fyrir ríkisstj. til ráðstafana og tekjuöflunar vegna dýrtíðar og erfiðleika atvinnuveganna, að þeim er alvara, þegar þeir tala um afurðaverð bændanna, þar sem segir svo í grg. frv. — með leyfi hæstv. forseta: „Það er því hætta á, að enginn vilji byrja á nauðsynlegu aðhaldi og verðlagseftirlitið snúist upp í það að tryggja ákveðnum stéttum ekki lakari kjör en öðrum tilteknum stéttum“, ... Þetta er aðalhættan í augum hv. þm., sem tala um, að verð afurða landbúnaðarins sé hátt, að frv. geti orðið til þess, ef að 1. verður, að tryggja það, að ákveðin stétt manna, bændastéttin, fái að hafa ekki lakari kjör en önnur stétt manna í þessu þjóðfélagi, nefnilega verkamenn. Það hefur komið svo greinilega fram í upphrópunum hv. þm. Seyðf., að þetta er hjartanleg alvara þeirra, að þetta sé aðalhættan.

Hv. þm. Seyðf. talaði allmikið um það að lokum í ræðu sinni, að hann hefði tapað einhverjum kompás eða áttavita, heyrðist mér. En það þurfti náttúrlega engar sérstakar upplýsingar að gefa hæstv. Alþ. um það, að einhver ruglingur var í útreikningunum hjá honum, þannig að þingheimur veit, að hann hefur misst sinn áttavita. Og hann vill einnig stuðla að því, að sem flestir aðrir missi líka sína áttavita, þ. e. a, s. dómgreindina til þess að líta rétt og óhlutdrægt á málið. En þessi hv. þm. má vita, að fjöldi hv. þm. og kjósenda í landinu gerir ekki annað en að brosa í kampinn að því, sem þessi hv. þm. heldur fram í þessu máli, líkt og brosað er stundum að áttavilltum mönnum, sem eru orðnir svo villtir, — sem við, sem höfum verið í fjallleitum, þekkjum, að getur komið fyrir, — að þeir halda því fram í fullri alvöru, að árnar hljóti að renna upp í móti. Þetta hefur nú hent hv. þm. Seyðf., að því er virðist, að verða svona rammáttavilltur í þessu máli, og sumir aðrir virðast vera komnir inn á svipaðar leiðir. En þessi öfugmæli þessa hv. þm. og annarra gera bara ekkert annað en að hjálpa hinum, sem vita, hvað hér er að gerast, að halda rétta leið þangað, sem þeir ætla sér . Þegar búið er að þyrla upp svo miklum rökvillum og vitleysum, sem hv. þm. Seyðf. hefur gert hér, þá er ég sannfærður um, að fleiri og fleiri sjá, hver er hin rétta stefna, sem fara þarf í þessu máli.