04.11.1941
Neðri deild: 12. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 128 í C-deild Alþingistíðinda. (364)

7. mál, ráðstafanir gegn dýrtíðinni

Frsm. 1. minni hl. (Skúli Guðmundsson) :

Ég vil byrja á að svara fyrirspurn, sem hv. 4. þm. Reykv, beindi til mín áðan. Hann spurði um það, hvað forráðamenn kaupfélaganna segðu um það, ef bannað væri að lækka vöruverð.

Þessi spurning er svo barnaleg, að það er óþarft að ómaka sig að svara henni. Alþ. hefur sett lög um verðlagseftirlit, sem miðar að því að koma í veg fyrir óeðlilega hátt vöruverð. Það væri því spor í öfuga átt, ef Alþ. bannaði að selja vörur fyrir lágt verð. Til viðbótar vil ég segja það, að ég geri ekki ráð fyrir, að forráðamenn kaupfélaganna hefðu ástæðu til að mótmæla. Eins og rekstri kaupfélaganna er háttað, mundi það verða til þess, að kaupfélagsmenn fengju þeim mun meiri tekjuafgang, þegar reikningar þeirra væru að fullu gerðir upp. — Ég sé svo ekki ástæðu til að hafa fleiri orð út af ræðu þessa hv. þm. Hann er haldinn af þeirri sömu villu, sem margir aðrir hv. þdm., að frv. þetta sé árás á vissa stétt þjóðfélagsins.

En fyrst ég kvaddi mér hljóðs, vil ég ekki láta hjá líða að gera nokkrar aths. við það, sem fram kom hjá hv. þm. Seyðf., og er það fyrir það, að hann virðist hafa trú á því, að það komi að gagni að endurtaka nógu oft í ræðum sínum hér á Alþ. sömu vitleysurnar, sem margsinnis er búið að reka ofan í hann.

Í ræðu sinni hér í gær sagði hv. þm. Seyðf., — og hann endurtók það einnig í ræðu, sem hann var að enda við að flytja, — að með samþykkt þessa frv. væri megináhættan lögð á verkamenn og launastéttirnar í landinu.

Um þetta er það í fyrsta lagi að segja, að sú áhætta, sem lögð er á landsmenn með þessu, er hverfandi lítil, þegar allt er bundið með 1. nema verð á aðfluttum vörum, og þegar gert er ráð fyrir að verja allmikilli fjárhæð til að koma í veg fyrir hækkun á útsöluverði þeirra. Að öðru leyti er þessi fullyrðing hans alröng, eins og ég nú mun sýna. Ef menn gera ráð fyrir, að þeir, sem kaupa aðfluttar vörur, muni þurfa að taka á sig verðhækkun á þeim, án þess að fá tilsvarandi hækkun á tekjum sínum, þá er það rangt, að hættan sé meiri fyrir launastéttirnar heldur en fyrir framleiðendurna. Framleiðendur við sjó og í sveitum þurfa ekki síður að kaupa inn vörur til neyzlu fyrir sín heimili. Auk þess kaupa þeir mikið til sinnar framleiðslu, svo að áhættan, sem á þá er lögð, er vitanlega meiri heldur en á þá, sem aðeins eru neytendur. Þetta ættu allir að sjá, þó hv. þm. Seyðf. sjái það ekki eða vilji ekki sjá það.

Þá sagði hv. þm. Seyðf. að hækkun á verði landbúnaðarafurða væri tvöfalt meiri en hækkun kaupgjalds. Hann heldur því einnig fram, og margendurtekur það, að verkamenn hafi ekki knúið fram hækkanir á sínu kaupi. Hvort tveggja er rangt. Ég veit að vísu, að 2 stór verkalýðsfélög hafa ekki, enn sem komið er, heimtað hækkanir. En hitt veit ég og hann líka, að fjölmörg félög fengu hækkanir á kaupi um s. 1. áramót. Þessi fullyrðing hans er því alveg út í loftið. — Um hitt atriðið vil ég segja það, að tímakaupið eitt og hækkun á því segir ekkert til um tekjur verkamanna. Og það er vitað, að tekjur þeirra hafa, vegna aukinnar atvinnu, aukizt hlutfallslega miklu meira en svarar hækkun tímakaups.

Til þess að hægt sé að gera samanburð á afkomu verkamanna og bænda, vantar skýrslur um tekjur verkamanna, sem sýna, hvað meðaltekjur þeirra eru nú samanborið við það, sem þær áður voru, og ef til vill fullkomnari skýrslur um búrekstur hjá bændum. Ég hef áður bent á, að þær skýrslur væru til í búreikningum, þó það sé minni þátttaka í því en skyldi. Hv. þm. Seyðf. talaði um það af þjósti miklum, hver óhæfa það sé, að ekki skuli liggja fyrir skýrslur um framleiðslukostnað hjá landbúnaðinum. Í sambandi við það vil ég endurtaka þessa spurningu : Hvar eru skýrslur um tekjur verkamanna, og vill hv. þm. Seyðf. enn þá leyfa sér að halda því fram, að tekjur verkamanna hafi ekki hækkað meira en sem nemur tímakaupshækkuninni frá því fyrir styrjöldina?

Þá heldur hv. þm. Seyðf. því fram, að með þessu frv., ef að l. yrði, væri bændum tryggðar sömu tekjur næstu 12 mánuði eins og þeir höfðu á síðasta ári. Þetta er alrangt og sýnir, að annaðhvort hefur hann ekki lesið frv. eða hann fer með vísvitandi ósannindi. Í frv. er gert ráð fyrir því, að úr dýrtíðarsjóði verði bætt upp verð á útfluttum landbúnaðarafurðum, ef þörf en á, til þess að bændur fái sama verð fyrir þær sauðfjárafurðir, sem fluttar verða út af framleiðslu ársins 1941, eins og þeir fengu fyrir þær 1940. En það er ekkert um það í frv. að tryggja bændum ákveðið verð fyrir afurðir af sauðfjárbúum fyrir ár ið 1942. Allt skraf hans um það, að verið sér að tryggja bændum ákveðnar tekjur að því er snertir verð fyrir sauðfjárafurðir næstu 12 mán., er blekking.

Hv. þm. Seyðf. talaði um það, að hæstv. viðskmrh. mundi óttast, ef landsmenn kynntust þessu frv., að þeir mundu snúast gegn því. Ekki mun þetta réttara vera en margt annað, sem þessi hv. þm. hefur haldið hér fram. En af rökvillum hans og málsmeðferð geta menn gert sér hugmynd um, hversu heppilegur hann er til þess að skýra þetta mál óhlutdrægt fyrir kjósendum landsins.

Ég vildi nú vænta þess, að hann gerði tilraun til þess, áður en langt um liður, að fá einhverjar upplýsingar um meðaltekjur verkamanna og reyna að gera samanburð á tekjum þeirra nú og fyrir stríðið, til þess að hann þurfi ekki að hafa brjóstvitið eitt við að styðjast í kröfum sínum fyrir hönd þeirrar stéttar, þar sem hann hefur um það stór orð, hvað óviðeigandi sé að hafa ekki hagfræðilegar upplýsingar í þessu máli.

Það má segja, að hann sé þrautseigur maður, hv. þm. Seyðf., því að hann heldur fram sömu staðleysunum, þó að margbúið sé að reka þær ofan í hann. Ég get vel búizt við, ef hann tekur til máls aftur, að hann haldi því enn fram, að meiri áhætta sé lögð á launastéttirnar heldur en bændastéttina og að engir verkamenn hafi fengið meiri hækkun á sínum tekjum en þau 66 eða 72%, sem uppbótin nemur á tímakaupið, og að búið sé að tryggja bændum sömu tekjur 1942 eins og þeir hafa 1941. Svo þykist þessi hv. þm. vera fær um að tala um skilningsleysi annarra á þessum málum, og telur sig geta borið öðrum á brýn, að þeir hafi hér þröngt sjónarmið.