05.11.1941
Neðri deild: 13. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 140 í C-deild Alþingistíðinda. (369)

7. mál, ráðstafanir gegn dýrtíðinni

Félmrh. (Stefán Jóh. Stefánsson) :

Ég vildi segja örfá orð út af ræðum kollega minna. Ég er alveg sömu skoðunar og þeir í því, að það má ekki láta það alveg afskiptalaust, hvort að því stefnir, að allt vinnuafl atvinnuveganna leiti hingað til Reykjavíkur og þá beint eða óbeint í vinnu hjá hinum erlendu herjum. Samningur sá, er ríkisstj. stóð að í sumar um takmörkun þess vinnuafls, hygg ég hafi verið fyllilega haldinn af Breta hálfu og gafst vel; ekki bar á atvinnaleysi, en á hinn bóginn varð samningurinn til þess, að sveitunum hélzt eitthvað betur á vinnukrafti sínum en ella mundi. Með allri gát virðist óhætt að endurnýja slíkan samning og reyna að miðla þar svo málum, að allir aðilar megi við una.

Ég tel talsverða hættu stafa af því, ef menn halda áfram að flytjast hingað til Reykjavíkur með þá eina atvinnu fram undan, sem erlendar herstjórnir veita um stundar sakir, og taka upp húsnæði fyrir bæjarbúum, þótt hin nýju húsaleigul. komi nokkuð í veg fyrir það. Ég álít rétt að tryggja með samningum, að í Bretavinnunni verði aðeins þeir menn, sem afgangs eru frá atvinnuvegum landsmanna á hverjum tíma og mundu eiga á hættu atvinnuleysi að öðrum kosti. Það er sagt, að fjöldi bænda og bændasona sé nú kominn í Bretavinnu, svo að búrekstur hljóti víða að bíða stórfellt tjón af, og ekki sé dæmalaust, að svo margir menn séu komnir í Bretavinnu úr sjávarplássum, að útvegur geti ekki gengið þar eins og venjulega. Þar þarf stöðvunar við.

Af ræðum manna hér hefur mátt skilja, að yrðu ráðstafanir gerðar í þessa átt, kæmi til mála, að hv. þm. Borgf. og jafnvel Sjálfstfl. yfirleitt yrði frv. fylgjandi. Slíkt mundi engu breyta um afstöðu Alþfl. til málsins.

Frá sjónarhól Alþfl. get ég lýst yfir því, að þetta breytir á engan hátt afstöðu hans til lögfestingar kaupgjaldsins, og skil ég ekki, að það geti haft nokkur áhrif á þá menn, sem eru á móti lögfestingu kaupgjaldsins, þótt samið væri um Bretavinnuna á þennan hátt. En að sjálfsögðu get ég ekki talað hér fyrir munn annarra en Alþfl.-manna hvað þetta snertir.

Ég tel eðlilegt að reyna að ná samningum við Breta um það, að vinnuaflið yrði ekki frá okkur tekið frá nauðsynlegum framleiðslustörfum, en þó þannig, að hér skapaðist ekki atvinnuleysi á ný. Eftir reynslunni frá síðastl. sumri ætla ég, að ef vel væri á þessum málum haldið, mætti ná góðum árangri. Að öðru leyti er flokkur minn andvígur frv. hæstv. viðskmrh., hvað sem þessu atriði líður.