05.11.1941
Neðri deild: 16. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 141 í C-deild Alþingistíðinda. (372)

7. mál, ráðstafanir gegn dýrtíðinni

Sveinbjörn Högnason:

Hv. þm. Seyðf. talaði svo sem hann hefði gleymt í fyrri ræðu sinni undirstöðuatriðum þessa máls. Ég vil þakka honum, að það hefur nú komið í ljós, að hann hefur haft gott af, að þau væru rifjuð lítils háttar upp fyrir honum, því að það sýnir, að hann er þó ekki gersneyddur öllu næmi til þess að skilja, hvað um er rætt. Það er vitanlegt, að ef menn gleyma undirstöðuatriðunum, verða allir útreikningar rangir. Útreikningar hv. þm. Seyðf. urðu líka mjög athyglisverðir, og það svo, að hann sá sér þann kost vænstan að strika nú yfir ýmislegt, sem hann hafði áður sagt. Eins og hv. þdm. muna, vildi hann halda því fram, að með þessu frv. væri á ósæmilegan hátt verið að draga fram hlut bænda. Hins vegar virðist sem hv. þm. hafi ekki fengið nægan tíma til þess að rifja upp fyrir sér undirstöðuatriði frv., og vil ég því hjálpa honum dálítið að því er snertir eitt þeirra. Hv. þm. hélt því fram í sinni fyrri ræðu, að um leið og kaupgjaldið hefði hækkað um 66% s.l. ár hefði afurðaverðið hækkað um 124%. Nú féllst hv. þm. þó á, að þetta væri ekki sambærilegt, þar sem fleira en verkalaun til bænda fælist í þessar í 124% hækkun, eins og hann vildi láta skína í í fyrri ræðu sinni. En hann vill skáka í því skjóli, að þar sem ekki séu fyrir hendi skýrslur um, hve framleiðslukostnaður bænda sé hár, sé leyfilegt að bera þessar tvær tölur saman.

En nú vil ég spyrja hv. þm.: Hvar hafa verið lagðar fram skýrslur um hækkun á árstekjum verkamanna? Ég veit, að hv. þm. dettur ekki í hug að halda því fram, að þær hafi ekki hækkað meira en um þau 66%, sem vísitalan sýnir. Þar koma ýmis atriði til greina og þá fyrst og fremst hækkun á grunnkaupi, sem mjög víða hefur átt sér stað, t. d. hjá því opinbera. Í vegavinnu hefur kaupið ekki aðeins hækkað um 66%, heldur 162%, eða þar sem grunnkaupið hækkaði úr 90 aur. í kr. 1.52, en víða hækkaði það úr 90 aur. í kr. 1.30, og þar nemur hækkunin 140%. Samsvarandi hækkun hefur mjög víða átt sér stað, svo að það er ekki minnsti fótur fyrir þeirri fullyrðingu hv. þm. Seyðf., að kaupið hafi ekki hækkað nema um 66%. Auk grunnkaupshækkunar hefur hækkun á kaupi einnig komið fram í meiri eftirvinnu og sunnudagavinnu og ýmsum öðrum fríðindum, þar sem eftirspurn eftir vinnuafli hefur verið mjög mikil.

Ég held, að réttara væri áður en bændur eru krafðir um skýrslur um framleiðslukostnað sinn, að lagðar væru fram opinberar skýrslur, er sýndu hækkun á kaupi verkamanna umfram það, sem vísitalan sýnir. Þetta væri auðvelt verk, þyrfti aðeins að snúa sér til opinberra stofnana, t. d. vegagerðar ríkissjóðs. Þessari hækkun á kaupi verkamanna á að leyna, en því er óspart haldið á lofti, að. afurðaverð bænda hafi hækkað um 124%.

Þá kemst hv. þm. Seyðf. að þeirri niðurstöðu, að þeir, sem hafi hækkað afurðaverð bænda svona takmarkalaust, vilji nú leggja bann við því, að aðrar stéttir geti hækkað sitt kaup, alveg eins og eigi ekki líka að stöðva hækkun á afurðaverðinu. — þarna gleymir hv. þm. alveg annarri undirstöðu frv.! En sú hætta er auk þess fyrir hendi, að þrátt fyrir ákvæði frv. eru enn þá möguleikar fyrir því, að verkakaup hækki í landinu, eins og bezt sést til sveita, en það er alveg hægt að girða fyrir það, að afurðaverðið hækki. Svo er sí og æ klifað á því, að frv. sé árás á launastéttirnar, en að það séu bændur, sem eigi að hafa gott af frv., þótt þeir séu í mestri hættu, að þeirra hlutur verði fyrir borð borinn með samþykkt þess. Flm. frv. vita hins vegar, að bændur eru það skilningsgóðir og þjóðhollir menn, að óhætt er að ætla, að þeir vilji færa nokkrar fórnir, þegar um almenningsheill er að ræða.

Ég held, að ekki sé ástæða til þess að taka fleira fram í þessu efni, enda eru umr. nú orðnar alllangar. Ég álít einnig, að fullyrðingum hv. þm. Seyðf. sé að fullu hrundið. En þegar hv. þm. talaði um, að ég hafi móðgazt af því, að hann talaði við okkur þdm. eins og kjósendur, fékk hann sams konar vísbendingu og góðir kjósendur gefa frambjóðendum sínum, er þeir verða of ofstækisfullir: — að það sé betra að halda sér að rökunum.