06.11.1941
Neðri deild: 17. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 147 í C-deild Alþingistíðinda. (376)

7. mál, ráðstafanir gegn dýrtíðinni

Viðskmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Ég vil leyfa mér að svara hv. þm. A.-Húnv. nokkrum orðum, þó að ég hafi reyndar haldið, að ég hefði áður tekið allt fram, sem nauðsynlegt var, og nógu skýrt.

Hv. þm. talaði um það sem eitthvert nýmæli, að ég hefði játað, viðurkennt og gengið inn á

(hann hafði um það öll þessi orð, að því er ég held), að Bretavinnan væri mikið atriði að því er snerti lausn dýrtíðarmálsins. Ég skaut fram í þeirri spurningu, hvort hann hefði ekki heyrt framsöguræðu mína og það, sem ég sagði þar um þetta. Ég vil hér, með leyfi hæstv. forseta, lesa nokkur orð úr henni, til þess að hv. þm. megi sjá, hvort sú skoðun mín er ný, að það sé stórt atriði, að hægt sé að hafa hemil á Breta.vinnunni:

„Bændur hafa svipaða áhættu í sambandi við verðhækkun erlendra vara og launamenn og áður er á minnzt. Hef ég bent á, að sú hætta er mjög lítil. En jafnframt munu aðrir vilja benda á, að bændur hafi einnig aðra áhættu í sambandi við þetta mál og hana nokkuð sérstaks eðlis. Er borinn kvíðbogi fyrir því, að vegna þess, hversu eftir spurnin er nú mikil eftir vinnuafli í bæjunum, þá muni svo geta farið, að fólk fáist ekki til starfa í sveitunum fyrir það kaupgjald, sem 1eyfilegt væri að greiða samkv. l. og miðast ætti við kaupgjald yfirstandandi árs. Óttast menn, að um tvennt geti þá orðið að velja: Að greiða hærra kaup en l. leyfa eða vera án aðkeyptrar hjálpar, sem þýðir sama og stórfelldan samdrátt framleiðslunnar.

Ef kaupgjaldið hækkaði þrátt fyrir l., mundi það samræmi raskast, sem löggjöfin er reist á. Ef þetta ætti sér stað í ríkum mæli, gæti löggjöfin ekki staðizt til frambúðar, þar sem hún megnaði ekki að skapa varanlegt jafnvægi í verðlagsmálunum. Nauðsynlega undirstöðu að framkvæmd 1. verður því að skapa með því að koma á hæfilegu jafnvægi milli eftirspurnar og framboðs á vinnuaflinu. Þetta ætti að vera framkvæmanlegt með samvinnu við þá erlendu heri, sem í landinu dvelja. Ákveða verður í samningum við þá, hversu mikinn mannfjölda þeir geti fengið til starfa. Verður ekki dregið í efa, að slíkt samkomulag muni nást. Styður reynslan frá síðast liðnu vori og sumri þetta eindregið. Enn fremur væri nauðsynlegt að haga opinberum framkvæmdum algerlega eftir því, hversu hagar til um atvinnu almennt í landinu, — draga verður úr slíkum framkvæmdum, ef nauðsyn krefur, til þess að atvinnuvegirnir geti fengið nauðsynlegan vinnukraft. Jafnframt yrði þó vandlega að gæta þess að skapa ekki atvinnuleysi með þessum ráðstöfunum, enda ætti að vera auðvelt, eins og nú er háttað peningamálum þjóðarinnar, að koma í veg fyrir slíkt.“

Ég veit ekki, hvað hv. þm. vill hafa þetta skýrara, en ég ætla, að það sé fullgreinilegt.

Þá vil ég upplýsa það, að ekki er það mín sök, að ekki var endurnýjaður samningur sá, sem gerður var við Breta í fyrrasumar um notkun vinnuaflsins, en það er kunnugt, að Bretar voru Þá mjög liprir í samningum við ríkisstj. um það efni. Ætla ég, að ekki sé vanþörf að ýta við sumum þeim mönnum hérlendum, sem hlut eiga að máli um Bretavinnuna. Ég spurði í gær hv. þm. A.-Húnv., hvort hann vildi ekki, þar eð hann teldi Bretavinnuna svo mikilvægt atriði í þessu máli, beita sér fyrir því, að málinu yrði frestað, þangað til vitað væri, hvort ekki tækjust samningar við Breta, eða leggja til, að bætt yrði inn í frv. ákvæði um það, að l. skyldu ekki öðlast gildi fyrr en komizt hefði verið að samningum við þá. Þetta gerði ég vegna þess, að svo hefur verið helzt að skilja annað veifið á sjálfstæðismönnum, að ekkert væri til fyrirstöðu því, að frv. fengi fylgi þeirra, annað en Bretavinnan. Þetta hefur hv. þm. ekki viljað; og sýnir það, eins og mig grunaði, að sumir hv. þm. eru einungis að reyna að finna sér afsakanir til þess að geta verið á móti frv. —, eru að reyna að svæfa samvizkuna.

Það er nú orðin tízka hjá Sjálfstfl. að kalla þetta „hið vanhugsaða frv.“ Við höfum nú heyrt slíkt fyrr, og er þess t. d. skammt að minnast, að í fyrra hafði Sjálfstfl. heitið stuðningi sínum till., sem í undirbúningi voru, en lagðist á móti þeim, er þær komu fram, og kallaði þær „vanhugsaðar“. Sama var um dýrtíðarl. frá síðasta þingi. Fyrst voru þau góð, síðan urðu þau „vanhugsið“ og nú eru þau orðin góð aftur. fyrir nokkrum vikum — jafnvel dögum — voru þær till., sem hér liggja fyrir, sagðar ágætar og keppzt um að koma því svo fyrir, að mér væru þær ekki eignaðar! Nú eru þær orðnar vanhugsaðar og jafnvel þjóðhættulegar. Ég hlýt að segja, að mér liggur héðan af í léttu rúmi, hvað þeir menn segja, sem telja það virðingu sinni samboðið að koma þannig fram. Ég er búinn að heyra nógu mikið af þessu skrafi til þess að virða það einskis.