06.11.1941
Neðri deild: 17. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 149 í C-deild Alþingistíðinda. (377)

7. mál, ráðstafanir gegn dýrtíðinni

Einar Olgeirsson:

Ég ætla að gera nokkrar aths. við það, sem hæstv. forsrh. sagði hér í gær. Hann minntist á það í sinni ræðu, að Sósíalistafl. væri andvígur því að takmarka vinnuna hjá Bretum. Ég vil nú í því sambandi benda á, að það er alveg nauðsynlegt, að við komum okkur niður á það, hvaða afstöðu taka beri í þessu máli. Ég þarf ekki að ræða hér afstöðu og hagsmuni verkalýðsins í þessu sambandi, því að það hefur verið rætt hér ýtarlega áður. En við verðum að koma okkur niður á það, hvaða afstöðu taka beri í málinu frá sjónarmiði ríkisins og hagsmuna landsins í heild, hvort við viljum, að hernaðaraðgerðir fari hér fram eða ekki.

Hv. þm. Borgf. sagði hér í gær, að í hernaðaraðgerðum þessum fælist hætta fyrir þjóðina, og hv. þm. A.-Húnv. sagði, að þjóðinni stafaði ekkert gott af þessum hernaðaraðgerðum. Ég verð nú að segja, að æðimikil breyt. hefur orðið á afstöðu hv. þm. til hernaðaraðgerðanna síðan í vor, er samningur inn var gerður við Bandaríkjastj. um hervernd landsins og hernaðaraðgerðir hér á landi. Ríkisstj. mótmælti að vísu í fyrra hernámi landsins af hálfu Breta, en nú sumar gerir hún svo samning við annað stórveldi um, að það skuli vernda landið fyrir hernaðarárás. Það er tekið fram, að samningarnir séu gerðir af Íslandi sem frjálsu ríki. Þetta þýðir að við höfum gert skuldbindandi samninga við erlent ríki um, að það veiti okkur eins mikið öryggi og framast er unnt, að hér séu hafðar eins margar flugvélar og hægt er að koma við o. s. frv. Og það er tekið fram, að Bretaher skuli vera hér kyrr, þar til hitt ríkið sé tilbúið að taka eitt að sér hervernd landsins.

Hví hefur nú ríkisstj. gert þennan samning? Vegna þess, að búizt var við árás á landið. —

Við erum hér að ræða um dýrtíðina. Af henni getur, eins og öllum er ljóst, stafað mikið rask á ýmsan hátt, en ekki beinlínis eyðing verðmæta. Það getur raskazt hlutfall milli eigna landsmanna, og af þessu getur stafað mikið óréttlæti, en hin efnalegu verðmæti eru þó jafnmikil í heild sinni eftir sem áður. Hins vegar hefur ríkisstj. hér gert samning til að forða því, að líf manna og eignir eyðist af völdum árása, og samkv. honum eiga Bandaríkin að verja landið fyrir þessu. Hvernig ætlar nú þetta stórveldi að framkvæma þessar varnir? Hér er ekki um að ræða, hvort rétt var eða rangt að gangast undir þessa samninga. Það er nú búið að gera þá, og úr því verður að líta á málin með raunsýni. Það verður að leggja á það alla áherzlu, að landið verði eins vel varið og frekast er kostur. Við höfum séð, hvernig hver þjóðin eftir aðra í Evrópu hefur verið barin niður, og okkur getur ekkert forðað frá sömu örlögum nema sterkar hervarnir. Og ef Íslendingar litu með raunsýni á þetta, mundu þá ekki koma frá þeim kröfur um meiri hervarnir en þegar hafa farið fram? Það er eins og hv. þm. hafi ekki gert sér grein fyrir því, um hvað var samið, er þeir segja, að hervarnirnar kalli yfir landið hættu, enda þótt þeir hafi sjálfir orðið til þess að biðja um þær. Væri nær að segja, að of litlar hervarnir kölluðu yfir okkur hættu.

Hvernig er nú hægt að framkvæma slíkar hervarnir ? Aðeins með vinnuafli. Spurningin er þá þessi: Er okkur áhugamál, að mikið verði flutt inn af erlendum verkamönnum, og þótt svo væri, hefðum við þá tryggingu fyrir því, að það yrði gert í vetur, eða svo snemma, að koma mætti að fullu gagni?

Ég sé ekki annað en hv. Alþ. verði að koma sér niður á það, svo að óyggjandi sé, hvar það vill skipa hervörnum þessum. Við þurfum að framleiða mat og flytja vörur á erlendan markað, en við verðum líka að krefjast þess af valdi því, er tekið hefur að sér vernd okkar, að hún sé rækt á fullkominn hátt. Við verðum nú að heina vinnuaflinu fyrst og fremst til þeirra hluta, sem mest er talin þörfin á. Hvar standa hervarnirnar þar í röð? Ég tel, að þær eigi að standa í fremstu röð ásamt aðalatvinnugreinum okkar, landbúnaði og fiskiveiðum. Við verðum að horfast í augu við það, að við erum í stríði, þó að ekki hafi verið lýst yfir því, og við verðum að gera ráð fyrir, að fyrir kunni að koma, að hér verði barizt. Það er kunnugt, að í Englandi hefur verið mikil vinnufólksekla í landbúnaðinum, svo að skera hefur orðið upp herör til að fá fólk til vinnu úti í sveitunum, en ekki hefur af þeim ástæðum verið hætt við að efla hervarnir landsins sem mest. Mér virðist hafa orðið mikil breyt. á afstöðu margra hv. þm. síðan í fyrra að því er þetta mál snertir.

Í fyrra var hér innrásarher, sem hafði hernumið okkar land móti vilja þjóðarinnar og undir mótmælum ríkisstj. Þá minntist ég á það við 1. umr. fjárl., að við ættum helzt ekki að láta svo mikið vinnuafl fara í þessar hernaðaraðgerðir eins og fór þá. Þá svaraði hæstv. forsrh. því, að það væri ágætt, að þessir menn, sem unnu þá hjá Bretum, hefðu vinnu hjá þessum innrásar her. Í fyrra, þegar þetta var ópatriotiskt, þá fannst fulltrúum ríkisstj. það sjálfsagt, að menn ynnu hjá þessum erlenda her miklu frekar heldur en að vinna einhverja gagnlega vinnu. Núna, þegar Ísland er búið að gera samning við erlent ríki um hervernd þessa lands, þegar Alþ. er í raun og veru búið að löghelga þann her, sem í landinu er, sem nokkurs konar bandamann sinn til þess að vernda landið gegn árás, þá líta hv. þm. á það kannske ekki aðeins sem föðurlandssvik að vinna hjá erlenda setuliðinu,. heldur einnig jafnvel á hernaðaraðgerðirnar sem eitthvað, sem sé hættulegt þjóðinni. Ef Ísland gerir aðrar eins ákvarðanir eins og að semja við Bandaríkin í sumar, þá verður að taka afstöðu eftir þeim gerðum. Það hins þegar afstýrir ekki því, að við verðum að sjá um, að matvæli verði framleidd hér á landi. Það er jafnbrýn nauðsyn á því fyrir því, að landbúnaðurinn geti haldið áfram framleiðslu sinni og aukizt og sjávarútvegurinn geti verið rekinn. En ég verð að spyrja hæstv. Alþ.: Það er sagt, að 3300 manns sé nú í vinnu við hernaðaraðgerðir. Dettur ykkur í hug, hv. alþm., að 3300 manns sé svo mikill hluti vinnuaflsins í landinu, að ekki sé hægt að spara í þess stað vinnuafl, sem nú fer til þess að vinna ónauðsynlega vinnu, þar sem vinnuaflið fer til einskis? Mér dettur það ekki í hug. Ef við álítum hernaðaraðgerðir nauðsynlegar fyrir okkur, þá getum við séð af þessu vinnuafli. Ég veit, að 2000–3000 menn eru atvinnulausir í landinu á venjulegum tímum, en þá hefur ekki verið kvartað af þeim mönnum, sem nú vilja takmarka vinnu Íslendinga hjá setuliðinu. Nei, það er annað, sem liggur þarna á bak við, það eru hagsmunir stóratvinnurekendanna og þeirra, sem með þeim vilja drottna yfir landinu í sambandi við þá. Þeir vilja hafa svo litla vinnu í landinu og takmarka hana eins og hægt er, til þess að geta knúð það fram, að verkamennirnir í landinu vinni fyrir þessa menn sjálfa, sem vilja drottna yfir verkalýðnum í skjóli atvinnuleysisins. En hvernig á annars að framkvæma þá ráðstöfun á vinnuaflinu í landinu, sem þarf til þess, að unnið sé að nauðsynlegri framleiðslu nægilega mikið? Er hægt að gera það með þvingunaraðferðinni? Nei, en það á að gera það með þeirri fjármálapólitík að sjá um, að menn hafi mestan hag af því að vinna það, sem helzt þarf að vinna. Það þarf að framkvæma þær ráðstafanir með styrk til bænda, svo að landbúnaðurinn geti staðizt. Framleiðendur landbúnaðarafurða þurfa að hafa þá fjárhagslegu getu, sem þarf til þess að landbúnaðurinn geti verið rekinn að fullu gagni. Sjái menn, að það borgi sig betur að vinna að þeirri framleiðslu heldur en að stunda brask í kaupstöðunum, þá er þannig hægt með fjármálastjórninni að koma því til vegar, að það borgi sig ekki bezt að vera braskari hér í Reykjavík. Það þýðir að uppræta möguleikana til stríðsgróða, þannig að bændur og verkamenn í landinu hafi eins góð kjör eins og hverjir aðrir menn í landinu. Með því móti, með því að hafa slíka fjármálapólitík, er hægt að tryggja það, að unnið sé að þeirri framleiðslu í landinu, sem nauðsynleg er, og að það sé látið vinnuafl til hernaðaraðgerða út frá því sjónarmiði, að þær séu oss líka nauðsynlegar. Ég held, að það sé full þörf á að gera sér grein fyrir þessu öllu og ræða það, þ. e. skipulagninguna á okkar vinnuafli, skipulagningu á því án þess að beita þrælahaldi. Það er nauðsynlegt að skipuleggja notkun vinnuaflsins í landinu án þess að koma á þrælahaldi og án þess að lögfesta kaup verkalýðsins til hagsmuna fyrir stríðsgróðamennina. En sú skipulagning verður að fara fram með slíkri skipun á okkar fjármálalífi, að vinnuaflið leiti þangað, sem þjóðin þarf mest að láta vinna, en að ekki sé í fjármálastjórninni allt svo frjálst og óbundið, að menn leiti þangað, sem ónauðsynlegt er að vinna, af því að þar borgi vinnan sig bezt. Þetta þýðir m. a. mjög skarpan skatt á stríðsgróða o. þ. h. — Þetta tek ég fram aðallega út af því, sem hæstv. forsrh. minntist á í sambandi við hernaðaraðgerðirnar o. fl.

Það eru annars farnar að ske nokkuð margar mótsagnir í ræðum hv. framsóknarmanna, sem hér hafa verið að verja þetta frv. Hv.1. þm. Rang. sagði, að verkamenn gætu bætt hag sinn á eftir, þó að kaupið vær í lögfest, og sagði, að verkamönnum væri borguð eftirvinna og næturvinna, sem þeir ekki ynnu. Hæstv. viðskmrh. hefur hins vegar hvað eftir annað verið að ítreka það, að tilgangi þessa frv. verði ekki náð, nema jafnframt væri komið á jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar um vinnuaflið og það hindrað, að eftirspurnin eftir vinnunni sé meiri en framboðið, þannig að ástandið í atvinnumálum nálgist það, að menn verði að búa við atvinnuleysi. Og ég veit, að ef eitthvað væri gert í því efni að koma á þessu jafnvægi, leiddi sú framkvæmd af sér það, að eitthvert atvinnuleysi yrði í landinu, því að þeim, sem vilja láta verkalýðinn vinna að framleiðslunni, finnst, að þeir þurfi þann písk á verkalýðinn, sem atvinnuleysið er. Annar þessara hv. þm., hv. 1. þm. Rang., segir, að verkamenn geti bætt sinn hag án þess að tímakaupið hækki, með því að taka kaup fyrir eftirvinnu og næturvinnu, sem þeir alls ekki vinni. En hverjum dettur í hug, að atvinnurekendur borgi verkamönnum kaup fyrir það, sem þeir ekki vinna, þegar jafnvægi er komið á milli framboðs og eftirspurnar á vinnuaflinu? Þessa óyndisúrræðis, að borga vinnu, sem ekki er unnin, er gripið til, þegar ójafnvægi er á milli framboðs og eftirspurnar á vinnuaflinu, til þess að fá menn í vinnu. Ef hins vegar jafnvægi kæmist á milli framboðs og eftirspurnar vinnuaflsins, þá mundu atvinnurekendur fá þá aðstöðu, sem þeir alltaf eru að leita eftir, til þess að geta knúð fram kauplækkun hjá verkalýðnum í skjóli atvinnuleysisins.

Svo vildi ég líka minnast á það, að það er talað um það af hv. framsóknarmönnum, að aðstaða verkamanna hafi batnað svo mikið. Nú vil ég biðja hv. þm. að athuga þetta nánar, og í því sambandi vil ég beina þeirri spurningu til þeirra hv. þm., sem halda slíku fram: Halda þeir hv. þm., að það hafi orðið einhver breyt. t. d. á eignahlutföllum manna hér á Íslandi, þegar litið er til stéttanna sem slíkra, verkamannastéttinni í hag? Halda þeir, að verkamannastéttin hafi eignazt meira eignahlutfall í húsum, fyrirtækjum eða framleiðslutækjum eða öðru slíku, það sem af er þessu verðhækkunartímabili, og nú sérstaklega þann tíma, sem hún hefur haft svona nokkurn veginn sæmilega atvinnu? Nei. Það er svo langt frá því, að svo sé. Það gengur í reyndinni í öfuga átt við þetta nú sem stendur. Stríðsgróðinn hefur orðið til þess einmitt, að meiri og meiri eignir hafa færzt yfir á hendur stríðsgróðamannanna. Millistéttin hefur misst til þeirra miklar eignir í jörðum í sveitum og húsum í kaupstöðum og fjöldann allan af framleiðslutækjum. Það er svo langt frá því, að verkamannastéttin hafi fyrir þessa vinnu, sem hún hefur haft, orðið efnalega séð hlutfallslega sjálfstæðari í þjóðfélaginu. Hún hefur alls ekki getað einu sinni fengið aðstöðu til þess, vegna þess að braskararnir, sem hafa setið inni með tugi millj. króna, hafa sprengt upp í verði öll hús og annað, þannig að það hefur gersamlega verið óhugsandi fyrir verkamenn að ná í það. Það er rétt, einstaka tilfelli, að menn í verkamannastétt hafa treyst sér til og fengið tækifæri til að ráðast í slíkt. Það er því afar langt frá því, að verkamannastéttin hafi haft slíkan hagnað af þeirri atvinnu, sem undanfarið hefur verið, að hún hafi nokkuð verulega getað breytt sinni afstöðu í þjóðfélaginu að því er þetta snertir. Það, sem hún hefur getað gert, er að bæta sér upp sárasta skort undanfarinna atvinnuleysisára, með því að kaupa sér föt og það nauðsynlegasta í íbúðir sínar og bæta þannig eitthvað ofurlítið úr allra sárustu fátæktinni. Og það er þetta, sem stríðsgróðamennirnir í landinu eru nú að sjá ofsjónum yfir og þeim finnst hættulegt.

Hv. 1. þm. Rang. sagði, að það skyldi ekki standa á Framsfl. með að taka stríðsgróðann af auðmönnunum. Mér er nú sem ég sjái þann flokk standa við þau stórmæli. Því í ósköpunum hefur hæstv. forsrh., þá ekki gert skattafrv. sitt fyrst og fremst nokkuð róttækara úr garði, og í öðru lagi, hvers vegna hefur sá hæstv. ráðh. ekki gert skattamálin að fráfararatriði ríkisstj., heldur þessa árás á verkalýðinn, sem hér kemur fram í þessu frv.? Mér sýnist, að það hafi staðið alla tíma á Framsfl. um að gera nokkuð í þessu máli. Framsfl. hjálpaði til þess, að stórgróðinn yrði skattfrjáls og til þess að gera skuldakóngana að milljónamæringum og að setja á alþýðuna hærri tolla heldur en nokkurn tíma hafa verið hér á landi. Mér sýnist, að það hafi staðið einmitt á Framsfl. og standi á honum enn þá með þetta mál.

Ég ætla svo ekki að orðlengja um þetta frv. frekar. Ég sé líka, að það er komin hér fram till. til þál., sem, ef hún kemur á dagskrá, mundi gefa tilefni til þess að ræða ákveðin atriði þessa máls nánar, — enda hygg ég ekki vanþörf á því.